Árleg kjarnavopnaæfing NATO, „Stöðugt hádegi“ hefst á þriðjudag

Á þriðjudag í næstu viku, þann 17. október, hefst kjarnorkuvopnaæfing NATO, sem bandalagið segir í tilkynningu að fari fram árlega, sé ekki tengd nýlegum atburðum, og sé auk þess framkvæmd án raunverulegra kjarnorkuvopna. Á ensku nefnist æfingin „Steadfast Noon“ eða Stöðugt hádegi. Til að gæta þess að enginn misskilningur vakni um tilgang æfingarinnar tekur bandalagið fram að ekkert loftfar æfingarinnar muni fara inn fyrir 1.000 kílómetra fjarlægð frá nokkru rússnesku yfirráðasvæði. Á blaðamannafundi útskýrði Jens Stoltenberg, aðalritari NATO, ennfremur að þar sem æfingin fari fram árlega væri það bagaleg merkjasending til Rússlands að falla frá henni í ár.

Í tilkynningu bandalagsins um æfinguna kemur fram að hún standi í tvær vikur, til mánudagsins 30. október. Fjórtán lönd taka þátt í æfingunni og 60 loftför. Meðal loftfaranna eru B-52 sprengjuflugvélar sem fljúga til æfingarinnar frá Bandaríkjunum. Ekki kemur fram hver öll þátttökulöndin eru en ekkert bendir sérstaklega til að Ísland sé þar á meðal: Belgía hýsir æfinguna sem fer fram í lofthelgi landsins, auk Norðursjávar og breskrar lofthelgi.

Fundur varnarmálaráðherranna

Stoltenberg ræddi um æfinguna á blaðamannafundi á fimmtudag, í kjölfar tveggja daga fundar varnarmálaráðherra NATO-ríkjanna sem haldinn var í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Viðfangsefni þessa tveggja daga fundar voru æði mörg, eins og ætla má um þessar mundir. Sérstakur gestur fundarins á miðvikudag var Volodomyr Zelensky, forseti Úkraínu og á fimmtudag ávarpaði Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, fundinn með fjarfundabúnaði.

Þar sem ekkert eiginlegt varnarmálaráðuneyti er starfrækt á Íslandi annast Utanríkisráðuneytið aðkomu að fundum sem þessum. Utanríkisráðherra sótti fundinn þó ekki en Hermann Örn Ingólfsson, fastafulltrúi landsins hjá NATO og/eða Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, virðast hafa verið viðstaddir.

Kjarnorkubandalagið NATO

Í frásögn vefmiðilsins NATO Watch um æfinguna framundan er minnt á að árið 2020 skrifuðu fyrrverandi forsetar, forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar 20 aðildarríkja NATO undir áskorun um stuðning við samkomulag frá árinu 2017 um bann við kjarnorkuvopnum. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir voru á meðal þeirra sem undirrituðu áskorunina. 122 ríki samþykktu bannið á vettvangið Sameinuðu þjóðanna sumarið 2017, en öll aðildarríki NATO standa gegn því, þar á meðal Ísland. Það er í samræmi við stefnu bandalagsins, þar sem segir: „Svo lengi sem kjarnorkuvopn eru til verður NATO kjarnorkubandalag.“ Atlantshafsbandalagið sjálft á engin vopn heldur aðeins aðildarríki þess. Þrjú þeirra, Bandaríkin, Bretland og Frakkland, hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí