Bandaríska vinstrið deilir um útifund til stuðnings Palestínu daginn eftir árásir Hamas

Á sunnudag var haldinn útifundur við Times torg á Manhattan, þar sem um þúsund manns komu saman til að lýsa stuðningi við frelsisbaráttu Palestínu. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna tímasetningarinnar, daginn eftir árás Hamas-liða á Ísrael, þar sem nú er ljóst að yfir þúsund manns létu lífið, að mestu óbreyttir borgarar.

Meðal samtaka sem lýstu stuðningi við samkomuna voru Democratic Socialists of America (DSA). Á X/twitter létu þau vita af útifundinum og skrifuðu: „Í samstöðu með Palestínumönnum og rétti þeirra til andspyrnu gegn 75 ára hernámi og aðskilnaðarstefnu.“ Samtökin skipulögðu ekki fundinn, kemur fram í umfjöllun Politico, en stuðningur þeirra varð tilefni til þess að meðlimir samtakanna voru inntir eftir afstöðu til málsins.

„Inntir eftir afstöðu“ hljómar þó heldur varfærnislega í því samhengi. Ritchie Torres, þingmaður Demókrata, skrifaði til dæmis á X/twitter, í aðdraganda samkomunnar, að DSA ætluðu þar að „tigna hryðjuverk Hamas sem andspyrnu“. Hann sakaði samtökin um að lítilsvirða þau hundruð ísraelskra borgara og barna sem hefðu verið „myrt, særð, rænt og skelfd. Líf þeirra hafa enga þýðingu fyrir DSA. Enga.“

Alexandria Ocasio-Cortez aðskilur sig frá mótmælunum

Í umfjöllun New York Times á þriðjudag er gengið svo langt að segja að árás Hamas hafi sett stjórnmálalandslag New York borgar í uppnám, þar birtist nú flekaskil milli tveggja mikilvægra kjósendahópa í borginni: annars stærsta gyðingasamfélags heims, hins vegar vinstrihreyfingar sem hafi sótt í sig veðrið á undanliðnum árum.

Meðal meðlima DSA er Alexandria Ocasio-Cortez, sósíalisti og þingmaður Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Um helgina gaf hún út yfirlýsingu þar sem hún fordæmdi aðgerðir Hamas um leið og hún hvatti til vopnahlés. Á mánudag lét hún síðan frá sér aðra yfirlýsingu um mótmælin á Times torgi. „Það ætti ekki að vera erfitt að slökkva á hatri og and-semítisma þegar við verðum vör við það. Það er grundvallaratriði í samstöðu,“ sagði í yfirlýsingunni. „Sá dólgsháttur og ófyrirleitni sem var tjáð á Times torgi á sunnudag voru óásættanleg og skaðleg á þessari skelfilegu stundu. Þar var ekki heldur talað fyrir hönd þeirra þúsunda New York-búa sem eru fær um að hafna bæði hinum hræðilegu árásum Hamas á saklausa borgara ásamt því alvarlega ranglæti og ofbeldi sem Palestínumenn mæta undir hernáminu,“ sagði þar ennfremur.

Á þriðjudag barst tilkynning frá New York-deild DSA, þar sem samtökin segjast skilja að tímasetning útifundarins og tónfall í fundarboðum hafi truflað fólk.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí