Diljá Mist lýsir skilningi á að stjórnvöld í Evrópu banni mótmæli til stuðnings Palestínu

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segist gera ráð fyrir að bann í nokkrum ríkjum Evrópu við mótmælum til stuðnings Palestínu séu „vel ígrundaðar öryggisákvarðanir“ enda hafi löndin „reynslu af því að átök fyrir botni Miðjarðarhafs og víðar smitist inn til þessara landa.“ Þetta kom fram í umfjöllun Vísis.

Aðspurð hvort hún telji Ísraelsmenn fremja stríðsglæpi á Gasa svarar hún ekki beint heldur varpar ábyrgðinni á Hamas: „Það er náttúrulega ömurlegt hvernig þessi hryðjuverkasamtök, eins og þekkt er, haga sér. Hvernig þau nota fólk, almenna borgara, sína eigin borgara og gísla eins og þau gera núna, sem mannlega skyldi. Það er þekkt aðferð hjá þeim hvernig þau koma sér fyrir í kjöllurum sjúkrahúsa og verjast þannig árásum. Það er auðvitað ömurlegt og þess vegna geri ég ráð fyrir að þessi tilskipun sé sett fram.“

Rétt er að taka fram að íbúar Hamas eru lokaðir inni á svæðinu, undir loftárásum og umsátri Ísraelshers.

Frakkland og Austurríki banna mótmæli

Innanríkisráðherra Frakklands bannaði á föstudag allar mótmælasamkomur til stuðnings Palestínu, að sögn þar sem þær væru „líklegar til að raska allsherjarreglu“. Reuters greinir frá. Lögregla beitti táragasi gegn slíkri samkomu í París á fimmtudagskvöld, að sögn France24. Í Frakklandi býr meiri fjöldi bæði múslima og gyðinga en í nokkru öðru landi Evrópu.

Stjórnvöld í Austurríki bönnuðu mótmælasamkomu til stuðnings Palestínu sem átti að fara fram í Vínarborg á miðvikudagskvöld, að sögn af ótta við að þar gæti komið til ofbeldisfullra árekstra. Fáni Hamas-samtakanna er þegar á meðal bannaðra tákna á almannafæri í Austurríki. Barron’s greindi frá.

Í Þýskalandi hefur almenningi ekki verið bannað að sýna stuðning við Palestínu, almennt, en á fimmtudag tilkynnti Olaf Scholz, kanslari, að hver sem stendur að samkomum eða notkun tákna sem tengjast Hamas-samtökunum sérstaklega geti búist við lögsókn, Innanríkisráðuneytið muni banna alla starfsemi tengda Hamas í Þýskalandi. Scholz útskýrði á sambandsþinginu að þýsk stjórnvöld myndu ekki sýna gyðingahatri nokkurt umburðarlyndi. Politico greindi frá og setti ákvörðunina í samhengi við myndir sem birtust um liðna helgi af fólki sem fagnaði árás Hamas-samtakanna á götum Berlínar.

Bretland bannar mögulega baráttusöng

Þá hefur Suella Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, tilkynnt að það að veifa fána Palestínu á almannafæri á Bretlandi gæti talist lögbrot. Independent greindi frá og sagði ráðherrann hafa sagt lögreglunni að beita „fullu afli laganna“ gegn hverjum sem sýndi nokkurn stuðning við Hamas eða ógnaði samfélagi gyðinga í Bretlandi, í kjölfar árásarinnar um liðna helgi. „Ég myndi hvetja lögregluna til að skoða hvort söngva á við „From the river to the sea, Palestine will be free“ beri að skoða sem tjáningu á ofbeldisórum um að ísrael verði eytt úr veröldinni,“ sagði Braverman, og vísaði til lagaákvæðis um allsherjarreglu sem athæfið gæti varðað. „Samhengi skiptir sköpum,“ sagið hún. „Hátterni sem er lögmætt í ákveðnum kringumstæðum, til dæmis að veifa palestínskum fána, er það kannski ekki þegar því er ætlað að hylla hryðjuverk.“

Í umfjöllun Independent er vitnað í Keir Starmer, leiðtoga verkamannaflokksins og þar með stjórnarandstöðunnar, sem tekur að mestu undir með Braverman. Hann bætti því við að BBC þyrfti að útskýra hvers vegna fjölmiðillinn kallaði Hamas ekki hryðjuverkasamtök. Þetta var á miðvikudag.

Pólitísk afskipti af orðavali fjölmiðils

Fréttastofa BBC skýrði stefnu sína sama dag, og stóð vörð um þá stefnu að kalla Hamas að jafnaði ekki hryðjuverkasamtök í fréttatextum. Fulltrúi miðilsins sagði: „Við tökum málnotkun okkar alltaf afar alvarlega. Hver sem horfir eða hlustir á fréttaflutning okkar mun heyra orðið „hryðjuverk“ notað ítrekað – við tilgreinum þá eftir hverjum við höfum það, til dæmis ríkisstjórn Bretlands. Þetta er nálgun sem við höfum viðhaft í áratugi og er í samræmi við nálgun annarra ljósvakamiðla.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí