Enn og aftur stendur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, í þeirri stöðu að vera algjörlega niðurlægð af meintum samstarfsfélögum í Sjálfstæðisflokknum. Nú vegna atkvæðagreiðslu um mannúðarhlé í Palestínu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Katrín sagðist koma af fjöllum um helgina og fullyrti að henni hefði ekki verið greint frá því fyrir fram að Ísland myndi kjósa gegn því. Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, bendir á að það geti bara þýtt þrennt:
„1) Utanríkisráðherra segir ósatt.
2) Forsætisráðherra segir ósatt.
3) Forsætisráðuneytið lét hjá líða að upplýsa forsætisráðherra um málið.
Það er alveg sama hvernig við veltum þessu – eitthvað af þessu þrennu er rétt. Og það er líka alveg sama hvað er rétt – allt er jafn alvarlegt“
Að því gefnu að Katrín segi satt þá hefur henni verið sýnd mikil vanvirðing, annað hvort af Sjálfstæðismönnum eða hennar eigin starfsfólki. Það væri þó ekki í fyrsta skiptið, í það minnsta hvað varðar Sjálfstæðismenn. Hingað til hefur Katrín þó getað borið höfuðið hátt erlendis, enda oftast einungis Íslendingar sem vita af skömminni. Það er því ósköp skiljanlegt að Katrín sæki svo mikið í að vera í útlöndum. Líklega eru ekki margir íslenskir forsætisráðherrar sem hafa ferðast eins mikið og hún. Í fyrra var hún samtals ríflega mánuð erlendis. Vinsæl kenning er að hana dreymi um nýtt starf, erlendis, hjá einhverri alþjóðlegri stofnun.
Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður telur þó að sá draumur sé fjarlægri eftir fíasko síðustu daga. Hann skrifar á Facebook: „Ef ég ber eitthvert skynbragð á hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í hinum stóru útlöndum, þá hefur draumur Katrínar Jakobsdóttur um þægilega stöðu hjá alþjóðastofnun nú beðið verulegan hnekki. Eða hvaða alþjóðastofnun mun gleypa við yfirmanni sem lætur undirmann sinn niðurlægja sig tröllslega í hinu alvarlegasta og mikilvægasta máli, og það undirmann sem hefur tvisvar hrökklast af stóli vegna spillingarmála, og hefur þá ekki meira bein í nefinu en svo að það eina sem hún segir er: „… ég hefði viljað … en það var nú ekki haft samráð við mig …““