„… En nú á að ganga mun lengra“ – SA gefa út aðvörun vegna kvennaverkfalls

Samtök atvinnulífsins gáfu út tilkynningu fyrir helgi, þar sem þau vara við því að gengið verði of langt í boðuðu kvennaverkfalli þann 24. október, það er á þriðjudaginn eftir viku.

Framsetning þessarar aðvörunar er auðvitað með kurteislegu yfirbragði, enda vita stjórnendur samtakanna að það kæmi ekki vel út að setja sig upp á móti réttindabaráttu kvenna og kvára. „Samtök atvinnulífsins styðja baráttu gegn mismunun og ofbeldi,“ segja þau. „Atvinnulífið ber ótvíræðan hag af því að allt starfsfólk fái notið eigin verðleika og hafi jöfn tækifæri til launa, starfa og starfsþróunar óháð kynferði.“

Þessu fylgir hins vegar eins konar „en“ eins og í yfirskrift aðvörunarinnar, sem ber titilinn: „Kvennaverkfall 24. október – réttmæt barátta … en gæta verður meðalhófs.“ Hvers konar meðalhófs gætir maður í verkfalli? Jú, maður fer ekki í verkfall nema í samráði við yfirmenn sína, samkvæmt skilningi SA. „Samhliða stuðningi við málefnið minna SA á að mikilvægt er að gætt sé meðalhófs við mótmælin enda geta þau raskað starfsemi fyrirtækja og stofnana,“ segja þau. „Kvennafrídagsins hefur áður verið minnst með þeim hætti að konur hafa lagt niður launuð störf hluta úr degi, en nú á að ganga mun lengra.“

Tekjumissir og … lögsókn?

Til að verkfallið raski ekki ró vinnuveitenda leggur SA áherslu á „að konur og kvár, sem hyggjast taka þátt í kvennafríi 24. október, óski með góðum fyrirvara eftir samtali við sinn atvinnurekanda um með hvaða hætti best er að koma við fjarvistum þennan dag.“ Þá minna samtökin á að atvinnurekendum er ekki skylt að styðja starfsfólk í verkfallinu: „Engin skylda hvílir á atvinnurekendum að greiða laun í fjarvistum sem þessum.“

Eftir að vara konur og kvár þannig við hættunni á tekjumissi á verkfallsdeginum fylgja aðvöruninni orð sem ekki er hægt að líta á öðruvísi en sem hótun, þegar samtökin opna þann möguleika að verkfallið geti falið í sér lögbrot: „Hafa þarf í huga að heils dags verkfall, boðað af stéttarfélögum launafólks, getur varðað við ákvæði vinnulöggjafarinnar. Þótt stéttarfélögin boði mótmælin sem verkfall þá stendur ekki til að greiða félagsfólki bætur úr verkfallssjóðum félaganna.“

Þannig felur tilkynningin í sér einfalda áminningu um Samstaða SA með launafólki nær aldrei lengra en samræmist hagsmunum þeirra. Það kemur engum á óvart, en í veröld þar sem margvísleg óvissa fer vaxandi getur verið hughreystandi að sjá að sumt er þó alfarið fyrirsjáanlegt. Að því leyti má kannski líta á tilkynninguna sem eins konar almannaþjónustu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí