Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, heimsótti Rafah-landamærastöðina, á mörkum Gasa og Egyptalands, á föstudag, til að þrýsta á um að Ísraelsríki hleypi þeim vörubílar sem bíða nú við landamærin með hjálpargögn inn á svæðið. „Við erum í stöðugum samskiptum við alla aðila málsins, við Egyptaland, Ísrael, Bandaríkin … til að þessir bílar komist á hreyfingu sem fyrst,“ sagði Gutteres við blaðamenn.
Síðar sama dag sendi Guterres frá sér stutta orðsendingu á X/twitter þar sem hann sagði óhugsandi að standa við landamærin án þess að finna til hryggðar. „Hinu megin við þessa múra eru tvær milljónir manna í Gasa án vatns, matar, lyfja og eldsneytis. Hérna megin eru vörubílar með það sem þau þarfnast. Við þurfum að koma þeim af stað – eins fljótt og hægt er, eins mörgum og þarf.“
Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að Egyptaland neiti að opna landamærin til að vistirnar komist til Gasa. Egyptaland sagði á föstudag að af þeirra hálfu sé ekkert til fyrirstöðu, það sé Ísrael sem standi í vegi þess að hjálpargögnin komist til Gasa.
Á Gasa búa 2,3 milljónir manna sem nú hafa verið undir umsátri í tvær vikur, frá áras Hamas-liða á Ísrael þann 7. október. Á meðan þúsundum tonna af sprengjuefni hefur rignt yfir Gasa hafa ísraelsk stjórnvöld lokað landamærunum bæði til og frá: engin manneskja kemst út, engar vistir inn. Matur, vatn, lyf og eldsneyti eru fyrir mörgum dögum síðan orðin af lífshættulega skornum skammti.
Eftir heimsókn Bidens Bandaríkjaforseta til Ísraels fyrr í vikunni var tilkynnt að ísraelsk stjórnvöld myndu heimila 20 vörubílum að fara yfir landamærin frá Egyptalandi til Gasa í dag, föstudag. Þegar þetta er skrifað, og kvölda tekur á svæðinu, hefur enn ekki komið til þess.
Al Jazeera greindi frá.