Á föstudag verður 20 vörubílum hleypt til Gasa – Alls ekki nóg, segja hjálparsamtök

Eftir heimsókn Joe Bidens Bandaríkjaforseta til Gasa á miðvikudag rataði það víða í fyrirsagnir að honum hefði tekist að fá Benjamin Netanyahu til að fallast á að gera ekki allar tvær milljónir íbúa Gasa hungurmorða á einu bretti heldur leyfa Egyptalandi að hleypa hjálpargögnum til svæðisins. Biden ákvað um leið að sjá í gegnum fingur sér með eldflaugina sem sprengdi al-Ahli Arab sjúkrahúsið á þriðjudag, gera ráð fyrir að þar sé ekki vði Ísrael að sakast, og hét Ísrael „fordæmalausum“ stuðningi hergagna, sem hann mun nú reyna að koma í gegnum Bandaríkjaþing.

Nú daginn eftir heimsókn Bidens kemur í ljós hvert umfang hjálpargagnanna verður sem hleypt verður inn á svæðið. Um borð í flugvél forsetaembættisins, á leið aftur til Washington, ræddi Biden við forseta Egyptalands, Abdel Fattah Al-Sisi. Að sögn The Hill og fleiri fjölmiðla samþykkti Sisi í því símtali að 20 vörubílum verði á föstudag hleypt með matvæli og önnur hjálpargögn yfir landamærin frá Egyptalandi til Gasa. Með öðrum orðum bíða íbúar Gasa hjálparinnar enn og þegar hún berst verður það í smáskömmtum.

Hundrað bílar bíða við landamærin

Á Gasa hafa nú 2,3 milljónir manna lifað undir herkví í tólf daga, engum varningi verið hleypt inn á svæðið og engu fólki út, á sama tíma og Ísraelsher hefur látið þúsundum sprengja rigna yfir byggðir þess. Hjálparsamtök vara við því að 20 vörubílar á föstudag séu „of lítið, of seint“ eins og það er orðað á ensku.

„Margir meðal hinna særðu munu láta lífið ef nægilegt eldsneyti, sjúkravörur og önnur lífsbjörg berst ekki sjúkrahúsunum á Gasa, sem eru yfirfull af særðum borgurum eftir viðstöðulausar sprengingar og loftárásir,“ sagði Riham Jafari, upplýsingafulltrúi samtakanna ActionAid Palestine í samtali við The Guardian. „Ónóg hjálp mun valda heilsufarshörmungum og sulti, sjúklingar með langvinna sjúkdóma, þungaðar konur og börn þeirra munu ekki njóta þeirrar aðhlynningar eða næringar sem þau þarfnast og þetta mun stefna lífum þeirra í hættu. Við vitum að þeir 20 vörubílar af hjálpargögnum sem nú er lofað eru einfaldlega ekki nóg.“

Þau heppnu fá einn lítra af vatni á dag

Um hundrað vörubílum á vegum mannúðarsamtaka hefur verið ekið að landamærunum og bíða þar átekta eftir að komast til Gasa með hjálpargögn. Martin Griffiths, sem stýrir hjálparstarfi SÞ á svæðinu, sagði öryggisráði SÞ á miðvikudag að stofnunin vildi koma aðflutningum aftur upp í 100 vörubílafarma á dag, eins og var raunin áður en yfirstandandi átök hófust.

Griffiths sagði öryggisráðinu einnig að vegna vatnsskorts á svæðinu hefði hjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna á svæðinu, UNRWA, á sumum hlutum þess þurft að skammta vatn niður í allt einn lítra á mann á dag. „Hafið í huga,“ sagði hann, „að lágmarkið ætti, samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum, að vera 15 lítrar á dag. Og þau sem fá einn lítra eru heppin.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí