Hvað þarf til að ráðherra viðurkenni að aðgerðir Ísraelshers gegn óbreyttum borgurum eru stríðsglæpur?

Hvað þarf að ganga á til þess að utanríkisráðherra viðurkenni með afdráttarlausum hætti að aðgerðir Ísraelshers gegn óbreyttum borgurum á Gasa eru skýr brot á alþjóðalögum? Þess spurði Jóhann Páll Jóhannson, þingmaður Samfylkingar, í ræðu á Alþingi í dag, í umræðum um störf þingsins.

„Bjarni Benediktsson sagði í Silfrinu í gær,“ sagði Jóhann, „að ef Ísraelsher stigi yfir þær línur sem alþjóðalög marka þá myndi Ísland fordæma það.“

„Förum aðeins yfir stöðuna,“ sagði hann svo. „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að 2.800 manns hafi verið drepin á Gaza-svæðinu frá því að átökin hófust í síðustu viku, þar af 1.400 konur og börn. 115 árásir hafa verið gerðar á spítala og sjúkrastöðvar, segir stofnunin, sem gengur í berhögg við alþjóðleg mannúðarlög. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur sent út neyðarkall vegna fyrirmæla ísraelskra yfirvalda til íbúa Gaza um að yfirgefa heimili sín innan sólarhrings. Þetta er brot á alþjóðalögum, segir Rauði krossinn. Það er líka brot á alþjóðalögum að skrúfa fyrir vatn, rafmagn, eldsneyti, mat og lífsnauðsynjar til óbreyttra borgara. Munum hér að hátt í helmingur íbúa Gaza-svæðisins eru börn og ungmenni.“

Þetta er hóprefsing og það er brot á alþjóðalögum

Jóhann Páll tók undir mikilvægi þess að fordæma ódæði Hamas-samtakanna þann 7. október sl., enda hafi þau beinst gegn óbreyttum borgurum í Ísrael:

„Á fimmtudag gáfu sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar á sviði mannúðar- og mannréttindamála frá sér afgerandi fordæmingu á grimmdarverkum Hamas-samtakanna sem beindust gegn óbreyttum borgurum í Ísrael. Þetta hafa íslensk stjórnvöld líka gert með mjög afdráttarlausum hætti og með réttu.“

Þingmaðurinn sagði þann mun hins vegar á afstöðu SÞ og íslenskra stjórnvalda að SÞ fordæmdu líka ólöglegt „ólöglegt umsátur Ísraelshers og árásir á palestínska borgara á Gaza“:

„Það sem fulltrúar Sameinuðu þjóðanna gerðu líka er að þeir fordæmdu ólöglegt umsátur Ísraelshers og árásir á palestínska borgara á Gaza. Þetta er hóprefsing, sögðu þeir, og það er brot á alþjóðalögum. Alþjóðaráð Rauða krossins og sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja aðgerðir Ísraelshers gagnvart óbreyttum borgurum á Gaza vera skýr brot á alþjóðalögum, telja að báðir aðilar fyrir botni Miðjarðarhafs séu að fremja stríðsglæpi. En hvað þarf að ganga á til þess að hæstvirtur utanríkisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, viðurkenni þetta með afdráttarlausum hætti? Hvað þarf að ganga á til þess að íslensk stjórnvöld viðurkenni að hér hefur fyrir löngu verið stigið yfir þær línur sem alþjóðalög marka, að stríðsglæpur er stríðsglæpur, sama hver fremur hann?“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí