Ísland greiddi atkvæði gegn því að fordæma nasisma og að banna málaliða og kjarnorkuvopn

Hvað eiga kjarnorkuvopn, málaliðar í stríði og nasismi sameiginlegt? Jú, allt eru þetta fyrirbæri sem hinn almenni Íslendingur treystir sér ekki til að fordæma. Eða svo mætti halda ef atkvæðagreiðsla Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum er skoðuð. Ef einungis árið 2022 er skoðað má sjá fjölda atkvæðagreiðslna þar sem Ísland greiðir atkvæði gegn tillögum sem má svo gott sem fullyrða að hinn almenni Íslendingur myndi styðja.

Þó að mörgum sé réttilega misboðið að Ísland hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu um vopnahlésályktun í Palestínu á fundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna síðastliðinn föstudag, þá er fastanefndin vanari því að segja bara nei. En það er svo sem ekki við fastanefndina að sakast, hún framkvæmir einungis utanríkisstefnu stjórnvalda hverju sinni á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og það samkvæmt fyrirmælum utanríkisráðuneytisins.

Þessar atkvæðagreiðslur vekja þó litla sem enga athygli á Íslandi enda kallar það á nokkuð grúsk að finna þær. Á vefsafni Sameinuðu þjóðanna má þó finna nýjustu atkvæðagreiðslur og hvernig lönd heimsins kusu í þeim. Óhætt er að fullyrða að hvernig Ísland greiðir atkvæði í þeim stangast verulega á við þá ásýnd sem Íslendingar flestir telja að þjóðin hafi, herlaust land sem talar fyrir friði. Dæmin um það eru nokkuð mörg, þrátt fyrir að einungis einn mánuður sé skoðaður, desember í fyrra.

Síðastliðinn desember greiddi Ísland atkvæði gegn því að fordæma nasisma. Í stuttu máli þá snerist tillagan um að berjast gegn upphafningu nasisma, nýnasisma og annars konar rasisma. Það var Ísland ekki tilbúið að gera og sagði nei við því, ólíkt 120 þjóðum heimsins.

Þann sama dag í desember greiddi Ísland atkvæði gegn tillögu um að flokka notkun málaliða í stríði sem mannréttindabrot, ólíkt 130 þjóðum sem voru sammála því. Fyrrnefnd dæmi eru furðuleg en þann 7. desember greiddi Ísland atkvæði gegn tillögu um að vopn yrðu bönnuð í geimnum. Flest lönd heimsins voru þó sammála því að geimurinn væri betri án vopna.

Svo eru það mál tengd kjarnorku. Margir halda að opinber afstaða Íslands til kjarnorkuvopna sé að þau séu ekki af hinu góða. Sá misskilningur er líklega byggður á því að íslensk stjórnvöld vilji þau ekki á Ísland en það þýðir ekki að við séum á móti þeim. Í það minnsta greiddi Ísland atkvæði gegn því að almennt bann yrði á notkun þeirra og einnig í annarri atkvæðagreiðslu að draga úr kjarnorkuvá.

En hvað veldur því að Ísland kýs svona á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Það er erfitt að segja og verður Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, þáverandi utanríkisráðherra, að svara fyrir það. Eitt er þó ljóst: í hvert einasta skipti þar sem Ísland sagði nei meðan afgerandi meirihluti þjóða heimsins sagði já, þá var eitt annað land sem sagði einnig nei. Það land er kallað Bandaríkin.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí