Þeim sem vitað er að létust í árás Hamas síðasta laugardag hefur nú, fimm dögum síðar, fjölgað í yfir 1.200. Það er mesta mannfall sem hefur orðið meðal Ísraela í einni árás í sögu Ísraelsríkis. Á miðvikudagskvöld höfðu að minnsta kosti 1.100 látið lífið í þeim loftárásum sem Ísraelar hófu á Gasa í kjölfarið. Guardian segir að af þeim hafi 326 verið börn. Viðlíka mannfall hefur ekki orðið meðal Palestínumanna undir árásum Ísraels síðan í Gasa-stríðinu 2008–2009.
Yfir 200 þúsund á flótta innan Gasa
Á miðvikudag, frá miðnætti til miðnættis, varpaði Ísraelsher sprengjum á yfir 450 skotmörk í Al-Furqan hverfi Gasa-borgar, 80 í hverfinu Beit Hanon og 70 skotmörk í al-Daraj. Yoav Gallant varnarmálaráðherra sagði við hermenn: „Við munum koma frá jörðinni,“ sem var túlkað sem skýr vísbending um að Ísraelsher áformi landhernað á Gasa eftir loftárásirnar. Herinn hefur þegar flutt hundruð skriðdreka og annarra farartækja þétt að mörkum Gasa.
Eina rafstöðin á Gasa varð uppiskroppa með eldsneyti á miðvikudag, en Ísrael hefur þegar lokað fyrir raforku til svæðisins úr dreifikerfinu utan þess. Því er nú rafmagnslaust í rústunum. Skurðlæknir við Al-Shifa, aðalsjúkrahús Gasa-borgar, sagði að sjúkrahúsið væri þegar fullt og sjúkragögn tekin að skorta. „Og þetta er aðeins fjórði dagur,“ bætti hann við. Læknar án landamæra létu vita að allir sjúklingar sem þeir önnuðust í Gasa-borg á miðvikudag voru á aldrinum 10 til 14 ára. „Það er vegna þess að meirihluti særðra á Gasa eru konur og börn, þar sem það eru þau sem dvelja oftast í húsunum sem eru eyðilögð í loftárásunum,“ útskýrði fulltrúi samtakanna nánar.
Á þriðja hundrað þúsund íbúa Gasa eru nú flúin af heimilum sínum, undan loftárásum Ísraels, og dvelja í neyðarskýlum á svæðinu (SÞ). UNRWA, undirstofnun Sameinuðu þjóðanna um neyðaraðstoð við palestínskt flóttafólk, kallaði eftir 104 milljónum dala sem aðkallandi þörf væri á til að veita allt að 250 þúsund manneskjum á Gasa brýnustu lífsnauðsynjar. Philippe Lazzarini, stjórnandi stofnunarinnar, sagði: „Það sem nú vindur fram er þegar fordæmalaus mannúðarharmleikur. Hverjar sem kringumstæður eru, eiga reglur við á átakatímum og þessir eru engin undantekning. Aðstoð verður að berast án tafar óbreyttum borgurum sem geta hvergi flúið: vatn, matur, lyf.“
António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, flutti stutt ávarp og kallaði eftir því sama, að lífsnauðsynlegum birgðum af eldsneyti, matvælum og vatni verði hleypt til Gasa.
Viðræður um að fólk komist til Egyptalands
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flaug til Ísraels, þar sem gert er ráð fyrir að hann fundi með æðstu ráðamönnum. Viðræður eru sagðar í gangi um að leyfa óbreyttum borgurum á Gasa að ferðast af svæðinu til Egyptalands, sem það á landamæri við, áður en kæmi til landhernaðar Ísraelshers á svæðinu. Það hafði CNN eftir Blinken: „Við erum að ræða það við Ísrael, við erum að ræða það við Egyptaland. Það samtal er í gangi. Ég get ekki farið út í smáatriði,“ sagði ráðherrann.
Blinken hélt því fram í sömu mund að það sem aðgreindi „Ísrael, Bandaríkin og önnur lýðræðisríki, þegar kemur að ótrúlega erfiðum aðstæðum á við þessar, er virðing okkar fyrir alþjóðalögum og, eftir því sem við á, stríðslögum. Við gerum allt sem við getum til að tryggja að við forðumst mannfall óbreyttra borgara. Það er þvert á Hamas, sem notar fólk sem mannlega skildi. Þeir leitast beinlínis við að setja palestínska borgara í aðstæður þar sem þeir gætu orðið fyrir tjóni. Það er stór hluti af leikáætluninni.“
Ekki er hægt að skilja við þessi ummæli Blinkens um „mannlega skildi“ án þess að taka fram það sem fjöldi aðila hefur bent á, að íbúum Gasa er sem stendur ekki undankomu auðið frá loftárásum Ísraels. Egyptar hafa til þessa hleypt 2.000 manns á dag yfir landamærin frá Gasa, en á svæðinu búa um tvær milljónir.
Neyðarstjórn þriggja ráðherra með öll völd
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, tilkynnti um myndun neyðarstjórnar, þriggja manna stríðsráðs. Kosningabandalagið Þjóðareining, bandalag flokka sem eru skilgreindir sem frjálslyndir hægri-miðju flokkar og var myndað fyrir kosningarnar 2022, var í stjórnarandstöðu til þessa en á aðild að neyðarstjórninni. Ráðherrar hennar þrír eru Benny Gantz, fyrir hönd hinnar frjálslyndu hægri-miðju ásamt Netanyahu sjálfum, sem enn gegnir embætti forsætisráðherra, og Gallant varnarmálaráðherra, úr hægri-flokki Netanyahus, Likud. Þá var Yair Lapid, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, boðið sæti í stjórninni. Þegar þetta er skrifað hafði Lapid ekki svarað boðinu, en hann hafði áður sett það sem skilyrði fyrir þátttöku sinni og flokksins „Það er framtíð“ í slíkri neyðarstjórn að öfga-hægriflokkarnir í stjórn Netanyahus yrðu látnir víkja. Það hafa þeir ekki gert, þeir teljast aðilar að neyðarstjórninni.
Í ávarpi sem ráðherrarnir þrír fluttu fjölmiðlum eftir myndun stjórnarinnar kom fram að öll reglubundin vinna ríkisstjórnar að nýjum lögum og stefnumótun víki á meðan á stríðinu stendur. Neyðarstjórninni er heimilt að taka ákvarðanir varðandi stríðsreksturinn án þess að leita samþykkis ísraelska þingsins, Knesset, sem mun ekki heldur vinna að neinum lagasetningum nema þeim sem varða stríðið.
Gallant sagði árás Hamas á laugardag vera „verstu hryðjuverkaárás sem heimurinn hefur séð“ og hét því að „þurrka Hamas af yfirborði jarðar.“ Eins og Bandaríkjaforseti lögðu bæði Gallant og Netanyahu sig fram um að leggja Hamas og ISIS að jöfnu í tali sínu – Gallant kallaði samtökin „ISIS-Gasa“ en Netanyahu sagði Hamas vera „verri en ISIS.“
Gróusögur um hvernig Hamas-liðar drápu börn
Sú frásögn birtist víða í vestrænum fjölmiðlum, og var jafnvel slegið upp á forsíðum, að í þorpinu Kfar Aza hefðu lík fjörutíu barna fundist „afhöfðuð“, eftir árás Hamas. Við nánari eftirgrennslan fékkst sú frásögn þó ekki staðfest. Beth McKernan, fréttaritari Guardian í Jerúsalem, sagði: „Já, mörg börn voru myrt. Já, það voru nokkrar afhöfðanir í árásinni. Þetta“ – það er, að börnin hafi verið afhöfðuð – „er hins vegar óstaðfest og fullkomlega óábyrgt.“
Síðar sama dag virtist Joe Biden vísa til afhöfðaðra barna sem staðreyndar: „Ég hélt aldrei að ég ætti eftir að sjá og fá staðfestar myndir af hryðjuverkamönnum að afhöfða börn,“ sagði hann. „Ég hélt aldrei …“ bætti hann við en lauk ekki við setninguna. Þetta var undir lok ávarps sem forsetinn flutti, óskrifað, á fundi með fulltrúum bandarískra gyðingasamfélaga í Hvíta húsinu.
NBC fréttastofan tók ummælum Bandaríkjaforseta með fyrirvara og sagðist í umfjöllun um þau ekki hafa fengið þessa lýsingu forsetans staðfesta. Sumir ísraelskir miðlar virðast heldur hafa kosið að líta á ummæli forsetans sjálf sem næga staðfestingu. Á miðvikudagskvöld birtist hins vegar leiðrétting í Washington Post, þar sem sagði: „Fulltrúi Hvíta hússins gerði síðar ljóst að bandarískir embættismenn og forsetinn hafa ekki séð myndir eða staðfest slíkar frásagnir. Forsetinn byggði ummæli sín um hin meintu ódæði á staðhæfingum frá fulltrúa Netanyahu og fjölmiðlaumfjöllun í Ísrael, samkvæmt Hvíta húsinu.“ Þegar þetta er skrifað hefur fjölmiðillinn þó ekki gert þessari leiðréttingu hátt undir höfði.
Bandaríkin aðvara Íran
Í sömu ræðu sagði Biden síðasta laugardag vera „banvænasta dag fyrir gyðinga síðan í helförinni.“ Hann lagði þunga áherslu á óbilandi samstöðu sína og Bandaríkjanna með Ísrael og ræddi um leið um vinskap sinn við Netanyahu. Biden vísaði til Netanyahus með gælunafninu Bibi og sagðist hafa þekkt hann í 40 ár.
Eftir að telja upp þá hernaðaraðstoð og hergögn sem hann ítrekaði að Bandaríkin hraði nú til Ísraels, aðvaraði Biden Írani um að þeir skyldu hafa sig hæga.