Ísraelsher raðar upp skriðdrekum og virðist undirbúa innrás á Gasa

Eftir að Ísraelsher náði yfirhöndinni í átökum við Hamas-liða í ísraelska þorpinu Kfar Aza á þriðjudag fannst þar fjöldi látinna og nemur heildarfjöldi dauðsfalla í árásum Hamas síðastliðinn laugardag nú yfir þúsund manns. Flest fórnarlömb árásarinnar voru óbreyttir borgarar sem árásarmennirnir skutu til bana á heimilum sínum, á götum úti og á tónlistarhátíðinni Supernova. Í árásinni réðst Hamas einnig á hernaðarskotmörk og gerði ísraelsk hergögn upptæk.

Hið ofsafengna tal æðstu stjórnmálamanna innan og utan Ísraels færðist enn í aukana á þriðjudag. Joe Biden Bandaríkjaforseti hóf ávarp sem hann flutti frá Hvíta húsinu á því að segja: „Þið vitið, það eru stundir í þessu lífi, og ég meina þetta bókstaflega, þegar hreinni, ómengaðri illsku er hleypt lausri í þessari veröld“ og sagði árás Hamas dæmi um slíkt. Þá sagði hann að Bandaríkin myndu veita Ísrael aukinn hernaðarstuðning, meðal annars skotfæri, með hraði.

Um 900 manns hafa nú fallið á Gasa, í loftárásum sem Ísrael hóf á laugardag og hélt til streitu á þriðjudag. Aðfaranótt þriðjudags sagðist Ísraelsher hafa ráðist á hundruð skotmarka í hverfinu al-Rimal í Gasa-borg, þar sem finna má ráðuneyti Hamas-stjórnarinnar, ásamt háskólum, skrifstofum fjölmiðla og hjálparsamtaka, ásamt íbúðarhúsnæði. The Guardian hefur eftir sjónarvotti að hverfið hafi verið „þurrkað út.“

Óttinn við og vonin um að átökin breiðist út

Ísraelsher færði hundruð skriðdreka og önnur farartæki að mótstöðum í kringum Gasa samtímis því sem varalið hundruða þúsunda hermanna lögðu af stað til deilda sinna. Mairav Zonszein, talsmaður samtakanna International Crisis Group sagði ekki ljóst hvernig þessi greinilegi undirbúningur fyrir innrás á landi gæti orðið til að bjarga þeim sem Hamas tóku í gíslingu eða til að losna við Hamas.

Eldflaugum var skotið frá suðurhluta Líbanon að Ísrael, og urðu átök milli ísraelskra og líbanskra herafla á landamærunum þriðja daginn í röð. Þá bárust skot úr sprengjuvörpum að Ísrael frá Sýrlandi, sem Ísraelsher svaraði í sömu mynt. Þessar skærur á landamærunum eru takmarkaðar enn sem komið er en eru hafðar til marks um hættuna á að fleiri aðilar dragist að átökunum.

Á vefmiðli Al Jazeera skrifar blaðamaðurinn Philip Ingram að Hamas hafi lært af uppbyggingu herafla frá Hesbolla samtökunum í Líbanon og þegið vopn, þjálfun og fjármögnun frá Íran. Hann segir að eini ávinningurinn sem Hamas virðist geta gert ráð fyrir af árásinni sé að hún og viðbrögð Ísraels hrindi af stað víðtækum aðgerðum gegn Ísrael í Mið-Austurlöndum. Annars séu einu augljósu afleiðingarnar að viðræður og samskipti hrapi mörg ár aftur í tímann, auk dauðsfalla ótal óbreyttra borgara í Ísrael og á Gasa.

Heimildir: The Guardian, Al Jazeera.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí