Ráðherra vill svo litla þjónustu við flóttafólk eftir synjun að sveitarfélögin telja að það væri brot á jafnræði að veita hana

Félagsmálaráðherra hafði alls ekkert samráð við sveitarfélögin fyrir breytingar síðasta vors á Útlendingalögum. Þetta kom fram á opnum fundi velferðarnefndar um málið nú á mánudagsmorgun.

Þó sagðist ráðherra ráðuneytið ekki taka afstöðu til þess hvort sveitarfélögunum ber að veita þeim hópi þjónustu sem úthýst er úr úrræðum ríkisins eftir synjun á vernd, aðeins að þeim beri að taka afstöðu til þess, í hverju einstöku tilviki, hvort þjónustan verði veitt. Það segjast sveitarfélögin gera og svara í hvert sinn neitandi enda líti þau ekki á það sem skyldu sína að annast þennan hóp.

Umræddur hópur væri þar með enn háður velvilja almennra borgara og félagasamtaka ef ekki væri fyrir það úrræði sem ríkið hefur nú samið við Rauða krossinn um og opnaði 29. september. Alls hafa tólf manns nýtt sér þá þjónustu Rauða krossins, að meðaltali sex eða sjö á hverri nóttu. Félagasamtökin Solaris segjast aftur á móti alls hafa annast grunnþarfir 30 manns í þessari stöðu frá því í sumar.

Ítrekað kom fram í máli ráðherrans að hann telur ekki tímabært að afturkalla umrædda lagabreytingu eða gera aðrar breytingar á tilhögun málaflokksins þar til „reynsla“ fæst af afleiðingum laganna eins og þau eru í dag.

Svo lítil þjónusta að hún væri brot á jafnræði

Sem fyrr segir er það ekki afstaða ráðherra eða ráðuneytisins að sveitarfélögum landsins beri að þjónusta þann hóp sem um ræðir, heldur aðeins að þeim beri að taka afstöðu til þess, í tilfelli hvers einstaklings, hvort þau muni, vilji eða skulu veita þeim þjónustu: „Það er alveg ljóst í mínum huga að við teljum, rétt eins og kemur fram í lögfræðiáliti lagastofnunar HÍ, að sveitarfélögum ber að taka afstöðu til þeirra mála sem koma inn á þeirra borð, frá einstaklingum sem misst hafa þjónustu Ríkislögreglustjóra eftir þess 30 daga sem um er að ræða. Sú afstaða hefur legið fyrir mjög lengi í mínu ráðuneyti,“ sagði ráðherrann og ítrekaði þessa afstöðu nokkuð oft.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hugmynd ráðherra um aðkomu sveitarfélaganna hvílir á 15. grein félagsþjónustulaga, þar sem segir: „Erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skal í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi.“ Greinin hefur til þessa verið túlkuð til dæmis í sambandi við ferðamenn sem verða af einhverjum sökum strandaglópar, þar til þeir komast aftur til síns heima. Orri Páll Jóhannsson, þingmaður meirihlutans, spurði Heiðu Björg, fulltrúa sveitarfélaganna, hvort ekki væri brot á jafnræðisreglu að standa ekki eins að þjónustu við hinn úthýsta hóp umsækjenda um vernd.

Heiða Björg svaraði þessari spurningu afdráttarlaust, að þvert á móti virtist það sveitarfélögunum vera brot á jafnræðisreglu að gera jafn lítið fyrir umræddan hóp og ríkið krefðist, „minni þjónustu heldur en aðrir sem nokkurn tíma hafa leitað til sveitarfélaga“. Heiða Björg gerði ljóst að hámark þess sem ríkið hefur lýst sig tilbúið að endurgreiða sveitarfélögum fyrir þjónustu við hópinn er kostnaður við næturstað og tvær máltíðir á dag, eða þá lágmarksþjónustu sem Rauði krossinn veitir í neyðarskýlum sínum.

„Og við teljum það vafasamt út frá jafnræðisreglunni að við getum veitt fólki einungis húsaskjól og tvær máltíðir á dag. Og ég hugsa að það væri hægt, ef sveitarfélög ætluðu að fara að mismuna fólki með þessum hætti, eftir því í hvaða stöðu það er, ég er ekki viss um að það stæðist jafnræðisregluna, bara þannig að ég segi það.“ Heiða Björg sagðist alls ekki vilja gagnrýna Rauða krossinn með þessum ummælum, sem hún teldi standa mjög vel að úrræði sínu, og það sé kostur að það standi þó til boða. „En þetta er ekki á neinn hátt sambærilegt við það sem heimilislausum býðst. Allir heimilislausir eru með framfærslu, þeir geta keypt sér tannbursta, keypt sér mat, eða föt. Það er enginn framfærslulaus á götum Reykjavíkurborgar eða annarra sveitarfélaga. Þú ert annað hvort með laun, þú ert öryrki eða færð fjáhagsaðstoð. Þetta fólk, samkvæmt tilmælum ráðherra, á ekki að fá neina fjárhagsaðstoð, enga framfærslu, getur ekki keypt sér tannbursta, getur ekki keypt sér föt, ekki farið til læknis. Ég veit ekki hvort það stenst jafnræðisregluna, að búa til slíkan hóp í íslensku samfélagi.“

Sveitarfélögin skoða hvert mál … og synja þeim öllum

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sem óskaði eftir þessum fundi velferðarnefndar, spurði fulltrúa sveitarfélaganna um verklagið þegar einstaklingur í umræddum hópi leitar til þeirra. „Er þeim vísað frá eða er beiðnin tekin til formlegrar skoðunar og ákvörðun tekin í kjölfarið?“

Heiða Björg svaraði því til að sveitarfélögin taki öll mál til skoðunar og meti hvort það falli undir hlutverk þeirra að þjónusta fólk. „Sveitarfélögin hafa lýst því yfir að þau telji sig ekki bera ábyrgð á þessum hópi,“ ítrekaði Arndís Anna. „Það er það sem ég er að spyrja um.“ Og Heiða Björg staðfesti að þessari skoðun sveitarfélaganna ljúki alltaf með synjun: „Sveitarfélögin taka málin til skoðunar, en almennt teljum við ekki að einstaklingar í þessari þjónustu uppfylli skilyrði laganna. Eftir mat á stöðu einstaklings í þessari stöðu teljum við ekki að lögin eigi við.“

Heiða rökstuddi þá afstöðu nánar: „Við höfum aldrei komið að uppihaldi fólks sem býr hér og fær einhvern veginn ekki að taka þátt í samfélaginu. Eðlilega. Sveitarfélög eru staðbundin stjórnvöld sem fólk sem býr á ákveðnu svæði rekur og leggur saman í sjóð til að borga fyrir útgjöld. Þannig að það finnst okkur mjög eðlilegt. Hér hefur ríkið ákveðið að búa til einhvern annan hóp fólks sem fá að vera hér en fá ekki að lifa við mannsæmandi aðstæður. Og sveitarfélögunum finnst skrítið að senda þá ábyrgð á okkur.“

Aðspurð um afstöðu sveitarfélaganna til laganna sjálfra, síðar á fundinum, sagði Heiða Björg að sambandið hefði ekki tekið afstöðu til þeirra en bætti við: „Þessi hópur, sem hérna hefur verið ákveðið að búa til, er einhvern veginn ekki inni í þessu samfélagi og fær ekki að taka þátt. Það er ekki eitthvað sem við sjáum fyrir okkur að geti verið tilgangur laganna og geti verið áframhaldið. Við getum ekki verið með mörg samfélög í þessu landi, fólk sem ekki getur fengið kennitölu og keypt sér nauðbjargir, þarf að treysta á að fólk sem stoppar og réttir þeim eitthvað sé gott fólk, eins og Sema. Ég held að það geti ekki verið niðurstaðan að við viljum hafa íslenskt samfélag þannig.“

„Við höfðum ekki sett af stað neina vinnu þá“

Jóhann Páll Jóhannsson, fyrsti varaformaður velferðarnefndar, gerði harða atrennu að ráðherranum varðandi þessa óleystu verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Hann spurði hvort það hafi verið skilningur ráðherrans frá upphafi hvort lagabreytingin fæli „í reynd í sér eins konar tilfærslu á skyldunni til að tryggja fólki framfærslu og þak yfir höfuðið, frá ríki og yfir til sveitarfélaga“. Ráðherra svaraði aftur án þess að taka afstöðu til þess hvað sveitarfélögunum bæri að gera, að þá væri það þeirra að taka ákvörðun í hverju tilfelli, ekki ríkisins: „Líkt og ég hef áður sagt á þessum fundi, þá var það skilningur minn að það væri sveitarfélaganna að meta mál hvers og eins einstaklings og taka ákvörðun um það, hver sú þjónusta ætti að vera, sem viðkomandi myndi fá.“

Fór fram eitthvert mat á áhrifum þessarar lagabreytingar á fjárhag sveitarfélaga, spurði Jóhann Páll þá, eins og krafist er í lögum. Það var ekki gert af hálfu ráðuneytis Guðmundar Inga, í öllu falli. Hvers vegna varstu ekki við þingumræður um málið, eins og við kölluðum endurtekið eftir, spurði þá Jóhann Páll. „Ráðuneyti mitt skilaði umsögnum til nefndarinnar,“ hóf ráðherra svar sitt, og eftir að fjölyrða nokkuð um það sagði hann: „Ég taldi einfaldlega að við værum búin að gera grein fyrir því með hvaða hætti þetta snerti okkar ráðuneyti og okkar málaflokka og nefndin væri vel upplýst um það.“

Þá spurði Jóhann Páll ráðherrann hvenær ráðuneytið hefði hafið vinnu að breyttum reglum um endurgreiðslu ríkisins til sveitarfélaga vegna þeirrar þjónustu sem nú er gert ráð fyrir að þau annist eða annist ekki að eigin vild. „Við breyttum reglunum í lok september,“ svaraði ráðherra. „Við hófum þessa vinnu í júlí eða ágúst, ég man ekki hvort var.“

„Þannig að 9. febrúar,“ spurði þá Jóhann, „þegar ráðherra sagði að 15. grein félagsþjónustulaga muni grípa fólkið þegar það er svipt þjónustu, þá hafði ráðherra ekki sett af stað neina vinnu til að tryggja það?“

„Við höfðum ekki sett af stað neina vinnu þá,“ staðfesti ráðherrann. „Hins vegar er það alveg ljóst í mínum huga, ef lesnar eru reglurnar sem voru í gildi áður en við breyttum þeim núna í lok september, að það var okkar mat að reglurnar myndu grípa fólk.“

„Þannig að 9. febrúar … það líða margir margir mánuðir áður en ráðherra setur af stað vinnu til að tryggja að svo verði?“

„Já, það líða nokkrir mánuðir, en það er eðlilegt,“ sagði ráðherra og útskýrði hvers vegna hann liti svo á.

„Var hafið samráð við sveitarfélögin á þessum tímapunkti?“

„9. febrúar? Nei, enda var engin vinna hafin í ráðuneytinu við að breyta reglunum á þeim tímapunkti.“

Ekki rætt við sveitarfélögin fyrr en fréttir bárust af fólki á götunni

Elva Dögg Sigurðardóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði fulltrúa sveitarfélaganna hvernig samræðan hefði verið við ráðuneytin eftir að umrædd lagabreyting tók gildi. Heiða Björg svaraði:

„Eftir að Útlendingalögunum var breytt var í raun ekkert samráð við okkur fyrr en það voru komnar fréttir um fólk sem svaf einhvers staðar úti. Þá var haft samband við okkur og við fórum á sameiginlegan fund með dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra, þar sem fram komu mjög ólík sjónarmið ráðherra til þess hvert okkar hlutverk væri. Þannig að við fórum út frá þeim fundi með það að kannski væri best að hið opinbera ríkisins megin myndi koma sér saman um það hvernig þau vildu þjónusta þennan hóp. Félagsmálaráðherra hefur síðan komið með þessi til mæli tilokkar. Þau hafa ekki á nokkurn hátt breytt niðurstöðu lögfræðinga sveitarfélaga um það að þessi hópur tilheyri ekki okkar … en vissulega það kom fram vilji ráðherra til þess að endurgreiða kostnað við tvær máltíðir á dag og næturgistingu í neyðarskýli.“

Rauði krossinn á samstarf við stoðdeild Ríkislögreglustjóra

Arndís spurði fulltrúa Rauða krossins um þau loforð sem gefin hafa verið í fjölmiðlum, um að þau sem þiggja gistingu á vegum samtakanna eigi ekki á hættu að vera sótt þangað af lögreglu, hvort þar lægi skriflegt samkomulag að baki eða hvernig Rauði krossinn gæti tryggt þetta. Jón Brynjar Birgisson svaraði:

„Varðandi lögreglu, þá höfum við verið í stöðugu samtali við stoðdeild Ríkislögreglustjóra. Stoðdeildin sendir okkur lista yfir þessa einstaklinga sem hafa verið þjónustusviptir, þannig að lögregla er alltaf á hverjum tímapunkti fullkomlega meðvituð um það hvaða hóp við erum að þjónusta. Þannig að hún hefur, ef einhverjir einstaklingar væru eftirlýstir í þeim hópi, þá hefur lögreglan sín úrræði. Lögreglan kemur ekki inn í úrræðið. Það er að minnsta kosti munnlegt samkomulag okkar við stoðdeildina, að lögreglan sé ekki að koma inn og, ja, sækja einstaklinga til frekari viðtala. Enda hefur afskiptum Ríkislögreglustjóra af þessum hópi verið lokið með því að þau ljúka sinni þjónustu hjá Ríkislögreglustjóra.“

Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri aðgerðasviðs RKÍ.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði fulltrúa Rauða krossins hvernig þeim þætti starfið ganga hingað til. Jón Brynjar svaraði og sagði að samkvæmt þjónustukönnunum væri fólkið sem í hlut ætti ánægt með „að það skuli þó vera þessi þjónusta til staðar“:

„Það hafa ekki komið upp neinar alvarlegar uppákomur. 12 einstaklingar af þessum 15 eru að nýta sér þetta úrræði, þar af þrjár konur. Fólk er heilt yfir að sjálfsögðu ánægt, við erum að mæla með þjónustukönnunum, að það skuli þó vera þessi þjónusta til staðar. En auðvitað er fólk í slæmri stöðu og við þurfum stöðugt að vera að endurmeta okkar þjónustu með tilliti til líðanar. Við skipulögðum strax frá upphafi ákveðna þætti til þess að tryggja vernd, agreðind salerni, aðgreindar gistieiningar milli kynja, það er öryggisgæsla í húsinu, læst sturtuaðstaða, sem dæmi. Þetta eru bara staðlar sem við höfum unnið eftir áður og þekkjum. Þetta hefur þá dregið úr líkum á því að upp komi alvarleg atvik í húsnæðinu og þau hafa enn sem komið er ekki átt sér stað.“

Aðspurð um afstöðu til lagabreytingar síðasta vors sagði fulltrúi Rauða krossins að samtökin væru „ósátt við hvernig staðið var að lögunum. Þarna er fólk í neyð í íslenskri lögsögu.“

„Þú getur ekki keypt lyf fyrir Bónuskort“

Arndís spurði Semu Erlu Serdaroglu, formann hjálparsamtakanna Solaris: Hvaða aðstoð hafið þið verið að veita, eruð þið enn að veita hana, og er hún nægileg til að vernda fólk gegn misnotkun og ofbeldi á borð við mansal?

„Strax þennan dag sem kemur í ljós að yfirvöld eru byrjuð að fleygja fólki á götuna grípum við fólk í þessari stöðu,“ svaraði Sema. „Frá því að þetta hófst eru þetta allt að 30 einstaklingar sem við höfum verið að aðstoða, meðal annars með því að útvega þeim þak yfir höfuðið. Það er allt frá því að fólk er að bjóða fram heimili sín, yfir í að við höfum fengið lánað eða leigt húsnæði eða borga fyrir herbergi á hosteli. Í þessa tvo mánuði sem fólkið var ekki með þak yfir höfuðið. Við höfum líka verið að láta fólk frá Bónuskort og við fyllum á þau vikulega. Og höfum núna gert allan þennan tíma. Og við gerum það vissulega enn. Við höfum líka verið að láta fólk hafa strætókort svo það komist á milli staða. Fólk hefur verið bæði á höfuðborgarsvæðinu og lengra út fyrir það, við höfum þegið alla aðstoð sem gengur upp varðandi það að hýsa út.“

Þetta eru grunnstoðir þeirrar þríþættu aðstoðar sem Solaris hefur veitt. En starfi samtakanna lýkur ekki þar. „Þú getur ekki keypt lyf fyrir bónuskort, það er margt annað til viðbótar við þessi þrjú stóru, þessa þríþættu aðstoð sem við höfum verið að veita. Svo höfum við líka reynt að halda utan um hópinn, reynt að valdefla hann. Þetta er hræðileg staða að vera í. Við höfum reynt reglulega að hitta hópinn, skoða stöðuna, fara yfir stöðuna, skipuleggja aðgerðir, hvað er hægt að gera og annað slíkt, hreinlega bara til að halda fólki á lífi, svo það sé sagt. Það verður erfiðara með hverjum deginum. Og það verður erfiðara með hverjum deginum að veita þessa þjónustu. Við erum sjálfboðaliðasamtök sem reiðum okkur á frjáls framlög. Ég veit ekki hversu lengi við getum verið starfandi áfram ef staðan verður óbreytt.“

Sema Erla Serdaroglu, formaður Solaris.

Arndís spurði einnig hversu berskjaldaður þessi hópur væri í dag fyrir misnotkun og ofbeldi. Sema svaraði:

„Þessi staða sem fólk er sett í, hún eykur á hættuna á hreinlega alls konar misnotkun. Ég held að besta dæmið um það sé þegar ég var ásamt fleirum bókstaflega rúntandi um höfuðborgarsvæðið að sækja fólk í gjótur og rjóður og skóga, þegar við fréttum af þessu. Þar kemur aðili sem býður þér aðstoð. Ætlar að koma þér í skjól. Vill ekki að þú sért sofandi í tjaldi. Fólk neyðist til að þiggja þá aðstoð. Ég hefði getað verið hver sem er og þau sem voru með mér. Það er ekkert sem sagði að ég væri góð manneskja. En fólk á ekki annarra kosta völ heldur en koma upp í bíl. Og treysta því að ég sé að fara með þau í skjól. Þetta er náttúrlega bara hræðileg staða af yfirvöldum að setja fólk í. Þetta úrræði, vissulega, sem er komið núna á fót, þar sem fólk getur gist, þetta þýðir þak yfir höfuðið, þetta þýðir matur, þetta þýðir ekki vernd gegn ofbeldi og öðru enda eru ekki allir að nýta sér þetta úrræði eins og staðan er í dag, og treysta sér ekki til þess.“

Ráðherra vill ekki gera breytingar að svo stöddu

Sema sagði stjórnvöld lítinn áhuga hafa sýnt „á að tala við okkur sem stöndum fólkinu næst og höfum verið að halda því á lífi“ og það hefði enn lítið breyst. Aðspurð um afstöðu til lagagreinarinnar sem um ræðir, breytinganna síðasta vor, sagði hún: „Já, þetta voru mikil mistök, þessi lög eru birtingarmynd kerfisbundins rasisma á Íslandi. Þau beinast mjög skýrt gegn ákveðnum hópum. Fólkið sem er á götunni er frá Mið-Austurlöndum og Afríku. Það sem við erum að sjá er bara svartur blettur á íslenskri stjórnmálasögu. Og ég vona að þetta verði dregið til baka sem fyrst. Okkur ber bara siðferðileg skylda til að gera betur við fólk í neyð.“

Sema sagði ennfremur: „Það sem er kannski nauðsynlegast að gera akkúrat núna það er að breyta lögunum þannig að þessi mannréttindabrot verði aftur gerð ólögleg, að það sé ekki þannig að yfirvöld svipti fólk á flótta grundvallarþjónustu til þess að lifa af og setji fólk á götuna einungis til þess að búa til nýtt úrræði til þess að grípa þennan varnarlausa hóp. Það er ekkert við þetta sem gengur upp í raunveruleikanum. Lausnin er mjög einföld: það er hreinlega að draga þessa lagagrein til baka.“

Um afdrif laganna og málaflokksins tjáði ráðherrann aftur á móti mjög skýrt að hann hefði ekki áhuga á að gera nokkrar breytingar að svo stöddu.

„Eins og ég segi, ég vil fá að sjá hver verður reynslan af þessu fyrirkomulagi, sem núna er, áður en ég tjái mig um það hvort fyrirkomulagið sé gott eða slæmt svona. Við verðum að sjá hver verður reynslan af því að vera með þetta úrræði með Rauða krossinum, hversu margt fólk mun nýta sér þetta, hvað einkennir þann hóp af fólki sem þarna er inni, en ég tek undir með háttvirtum þingmanni varðandi það, að sá hópur sem á erfitt með að komast út úr landi er hópur sem fer ekkert frá okkur. Og það er eitthvað sem ég held að þurfi að skoða frekar í framhaldinu.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí