Elon Musk blandaði sér ekki aðeins í þýsk stjórnmál síðastliðinn föstudag heldur stefnu Evrópulanda í málum flóttafólks og innflytjenda, þegar hann deildi færslu á samfélagsmiðli sínum, X, þar sem meðal annars mátti lesa: „Vonum að AfD vinni kosningarnar til að stöðva þetta sjálfsmorð Evrópu“.
AfD, Alternative für Deutschland, er hægri-popúlískur flokkur, sem var stofnaður árið 2013. Flokkurinn reiðir sig á andúð í garð Evrópusambandsins, annars vegar, og andúð á innflytjendum hins vegar, eins og tíðkast nú með flokka af þeim meiði víðsvegar í álfunni. AfD fékk í fyrsta sinn fulltrúa á þýska sambandsþinginu eftir kosningar árið 2017, þegar flokkurinn hlaut 12,6% atkvæða.
Að bjarga lífum
Það „sjálfsmorð Evrópu“ sem færslan vísaði til eru björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi, á vegum hjálparsamtaka sem njóta stuðnings þýskra stjórnvalda. Sósíal-demókratar leiða núverandi samsteypustjórn Þýskalands, sem staðfesti í liðinni viku að landið veitti þremur hjálparsamtöktum fjárhagslegan stuðning til björgunaraðgerða á Miðjarðarhafi. Harðlínuhægrið sem er við völd á Ítalíu brást ókvæða við þeim tíðindum.
Það var þýski utanríkisráðherrann, Annalena Baerbock, sem sagði á fimmtudag að Þjóðverjar myndu halda áfram að styðja góðgerðarsamtök sem sinna björgunaraðgerðum á Miðjarjarhaf á meðan ekki hefði náðst samstaða innan ESB um að sambandið eða aðildarríki þess annist slíkar aðgerðir sjálf.
„Veit þýskur almenningur af þessu?“ spurði Musk þegar hann deildi ofangreindri færslu. Utanríkisráðuneyti Þýskalands svaraði á sama vettvangi: „Já. Og það kallast að bjarga lífum.“
Gullhúðuð hundaflauta
Musk lét ekki þar við sitja heldur svaraði Utanríkisráðuneytinu með frekari aðdróttunum og því sem virðast yfirlýsingar um andúð á flóttafólki fyrir hönd þýskra kjósenda, og hreinum og klárum hundaflautum sem ekki verða endurteknar hér.
Sjálfur er Musk ekki þýskur kjósandi. Hann er fæddur og uppalinn í Suður-Afríku og er að auki með kanadískan og bandarískan ríkisborgararétt. Meðal fyrirtækja sem Musk stýrir er þó bílaframleiðandinn Tesla, sem opnaði verksmiðju í Þýskalandi í mars 2022.
Þetta voru ekki einu afskipti Musks af málefnum flóttafólks og flytjenda í liðinni viku. Daginn fyrir orðsendinguna á X heimsótti hann landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó, að eigin sögn til að sjá aðstæður þar með eigin augum. Eftir heimsóknina lýsti hann því yfir að Bandaríkin þurfi að reisa múr á landamærunum.
Tímaritið Forbes telur Musk um þessar mundir ríkasta mann veraldar og metur auð hans á um 250 milljarða dala. Musk hefur á síðustu árum í auknum mæli skipt sér af stjórnmálum ólíkra landa, og jafnvel hernaðaraðgerðum.