Elon Musk afstýrði á síðasta ári árás Úkraínuhers á Svartahafsflota Rússa, með því að neita hernum um aðgang að gervihnattaneti sínu, í því augnamiði.
Geimferðafyrirtækið SpaceX, eitt af fyrirtækjum auðkýfingsins Elons Musk, hefur frá árinu 2019 sent nýja gervihnetti á sporbaug um jörðu, að jafnaði um tólf gervihnetti í viku hverri. Gervihnettirnir eru starfræktir af Starlink, öðru fyrirtæki í eigu Musk, og veita internetaðgang víðast hvar á jörðu. Gervihnettir fyrirtækisins eru nú orðnir 4.500 eða yfir helmingur allra gervihnatta á sporbaug um jörðu. Áætlað er að fjöldi þeirra fari nálægt því að tífaldast, að þeir verði 42.000 alls á næstu árum. Fyrirtækið er nú metið á 140 milljarða dala.
Ekkert annað fyrirtæki þekur jörðina á sambærilegan hátt, sem þýðir að Starlink er á ýmsum stöðum eini valkosturinn til internettengingar. Meðal annars hafa úkraínsk stjórnvöld reitt sig á aðgang að gervihnattaneti Starlink fyrir öll netsamskipti, þar á meðal til skipulags varna og hernaðaraðgerða.
Musk afstýrði árás á Svartahafsflota Rússa
Áhættan sem í því felst að ríki reiði sig með þeim hætti á viðskiptavild hjá, ekki aðeins einu fyrirtæki heldur í reynd einni persónu, kom berlega í ljós á síðasta ári, þegar Elon Musk neitaði að veita Úkraínu aðgang að netinu til að framkvæma árás með drónum á Svartahafsflota Rússa. Þetta kemur fram í nýlegri umfjöllun New York Times um gervihnattanetið og yfirráð Musks yfir því.
Með því að neita aðgangi að netinu til þessara nota afstýrði Musk árásinni. Að sögn miðilsins var það ekki einsdæmi. Í febrúar á þessu ári tilkynnti hann á samfélagsmiðlinum sem þá hét enn Twitter að Starlink yrði ekki notað til árása með langdrægum drónum. Þannig hefur stefna hins duttlungafulla milljarðamærings bein áhrif á framvindu stríðsins.
Stjórnvöld í Úkraínu og í Bandaríkjunum hafa áhyggjur af óvissu um tryggð Musks við aðila stríðsins, en hann lagði á síðasta ári fram tillögu að „friðaráætlun“ fyrir Úkraínu, sem mörgum þótti heldur undanlátssöm við kröfur Rússa, enda tóku stjórnvöld í Kreml tillögunni fagnandi.