Í dag, miðvikudag, náðu aðildarríki ESB samkomulagi um hvernig staðið skuli að móttöku flóttafólks þegar mikil og skyndileg fjölgun verður vegna stríðsátaka, náttúruhörmunga eða loftslagsneyðar. Samkomulagið var undirritað af leiðtogum ríkjanna undir lok fundar í spænsku borginni Granada nú á miðvikudagsmorgun, og lauk þar með þriggja ára þrætu milli aðildarríkjanna um málið. The Guardian segir niðurstöðuna sögulega, en fréttastofa Reuters segir mörgum spurningum enn ósvarað um framkvæmdina.
Ítalía féllst á samkomulagið
Nýju reglurnar gera svonefndum framlínuríkjum kleift að flýta umsóknum og flytja fólk með hraði til annarra landa Evrópu. Framlínuríki teljast til dæmis, þegar svo ber við, þau lönd sem eiga strönd að Miðjarðarhafi og verða því fyrsti áfangastaður margra þeirra sem ferðast sunnan að. Hinu nýja fyrirkomulagi er ætlað að forðast endurtekningu ástandsins sem upp kom árið 2015, þegar milljón flóttamanna ferðuðust til Evrópu frá Sýrlandi og víðar, og „sum lönd tóku á móti langtum fleiri en önnur“ eins og það er orðað í frétt Guardian um málið. Megintilgangur samkomulagsins er að deila álaginu af slíkum aðstæðum milli ríkja Evrópusambandsins. Framlínuríkin geti þá farið fram á samstöðu aðildarríkjanna og stuðningsaðgerðir.
Stjórnvöld á Spáni, sem nú fara með forsæti í sambandinu, höfðu þegar í síðustu viku lýst því yfir að meirihluti væri fyrir samkomulaginu, sem yrði undirritað á fundinum. Ítölsk stjórnvöld tefldu þeirri spá í tvísýnu þegar þau sögðust ekki myndu styðja samkomulagi eftir viðbót tveggja ákvæða um mannréttindi, að ósk Þýskalands. Í umfjöllun The Guardian kemur ekki fram hvort krafa Þýskalands náði fram að ganga, á öðrum fréttum má skilja að svo hafi ekki verið, heldur hafi ítölsk stjórnvöld náð sínu fram.
Ítalía vildi geta brotið lágmarkskröfur um aðstæður í varðhaldsbúðum þegar mikil fjölgun yrði á óreglubundnum ferðum fólks. Þýskaland var mótfallið slíkri undanþágu. Þá réðist Ítalía að þýskum stjórnvöldum fyrir stuðning þeirra við þau hjálparsamtök sem annast nú björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafi.
Pólland enn mótfallið
Án þátttöku Ítalíu hefði verið nægur meirihluti fyrir samkomulaginu til að fá það samþykkt á þeim grundvelli, en ráðherrar annarra ríkja ákváðu að samkomulagið væri einskis virði í reynd nema Giorgia Meloni, hinn hægrisinnaði forsætisráðherra landsins, væri því samþykk. Ítalía hefur tekið á móti um helmingi þeirra 250 þúsund manns sem hafa flust óreglulegum flutningum til ríkja ESB á þessu ári.
Hin þjóðernis-íhaldssömu stjórnvöld í Póllandi standa frammi fyrir kosningum þann 15. október. Þau hafa sett málefni flóttafólks á oddinn og kynt undir ótta meðal almennings við umsækjendur um vernd. Til samræmis við það mótmæla þau enn samkomulaginu. Ráðamenn annarra ríkja hafa þá ekki litið svo að á sú andstaða tefli samkomulaginu í hættu á sama máta og andstaða Ítalíu hefði gert.
Áður en samkomulagið verður að lögum þarf það að hljóta samþykki meirihluta Evrópuþingsins.
Samstöðin hafði samband við Utanríkisráðuneytið um möguleg áhrif samkomulagsins á móttöku flóttafólks á Íslandi og fékk í fyrstu þau svör að málaflokkurinn tilheyri öðrum ráðuneytum, en skriflegri fyrirspurn yrði þó svarað. Hún hefur verið send ráðuneytinu og verður fylgt eftir.
Heimildir: The Guardian og Reuters.