Sem Aseri verð ég að hafa orð á þjóðernishreinsunum lands míns gegn Armenum

„Heimurinn hefur nú horft upp á aldalanga tilvist Armena í Nagornó-Karabak líða undir lok. Allt fólk af armenskum uppruna hefur horfið frá hinu umsetna svæði, ferðast í bílalestum yfir landamærin til Amerníu. Armensku börnin sem þannig hafa misst heimkynni sín munu hata Asera, rétt eins og ég hataði eitt sinn Armena fyrir það sem þeir gerðu mér. Ég var fórnarlamb fyrsta stríðsins í Nagornó-Karabak á tíunda áratugnum, þegar Armenía bar sigur úr býtum, og framdi þjóðernishreinsanir gegn Aserbaísjum á yfirráðasvæði sínu. Ég hef upp raust mína í von um að geta reynst lítil steinvala í þessari endalausu hringrás ofbeldis.“

Þetta skrifar maður frá Aserbaísjan undir dulnefninu Ruslan Javadov í grein sem The Guardian birti í dag, mánudag. Titill greinarinnar er „Sem Aseri verð ég að hafa orð á þjóðernishreinsunum lands míns gegn Armenum.“ Greinin er endurbirt hér í heild, í snöggri þýðingu. Javadov heldur áfram:

„Heimurinn hefur nú horft upp á aldalanga tilvist Armena í Nagornó-Karabak líða undir lok. Allt fólk af armenskum uppruna hefur horfið frá hinu umsetna svæði, ferðast í bílalestum yfir landamærin til Amerníu. Armensku börnin sem þannig hafa misst heimkynni sín munu hata Asera, rétt eins og ég hataði eitt sinn Armena fyrir það sem þeir gerðu mér. Ég var fórnarlamb fyrsta stríðsins í Nagornó-Karabak á tíunda áratugnum, þegar Armenía bar sigur úr býtum, og framdi þjóðernishreinsanir gegn Aserum á yfirráðasvæði sínu. Ég hef upp raust mína í von um að geta reynst lítil steinvala í þessari endalausu hringrás ofbeldis.

Þjóðarbrotin í Nagornó-Karabak

Fyrir fyrsta stríðið fyrirfannst innan landamæra Aserbaísjan sjálfstjórnarhéraðið Nagornó-Karabak,“ skrifar Javadov, „eins konar eyland í fjöllunum þar sem Armenar voru í meirihluta, með hið menningarlega markverða virki Susha fyrir miðju, þar sem Aserar voru í meirihluta. Sammiðja hringir ólíkra þjóðarbrota geisluðu út frá Susha: Aserar umkringdir Armenum umkringdir Aserum og aserskum Kúrdum og svo framvegis – afar óþægilegt fyrir þær þjóðernissögur sem þá voru á uppleið. Að vera Armeni og að vera Aseri varð að gagnvkæmt útilokandi andstæðum. Nágranni réðist gegn nágranna og loks ríki gegn ríki þar til herir ríkjanna lögðu þau í rúst.

Á þeim tíma mótuðust fyrstu bernskuminningar mínar. Ég man eftir því að ganga eftir moldarslóða fyrir dögun, í þorpi föður míns, þegar himinninn varð skyndilega dagbjartur og byssukúlur flugu yfir höfðinu á mér. Ég man eftir að vera við útför 18 ára frænda míns, og að vera hræddur við grafreitinn, þar sem augu hinna dauða störðu á mig frá myndum á legsteinunum. Hann hafði verið kvaddur í stríðið og dáið þar. Mér skildist á samtölum þeirra fullorðnu að hann hefði stigið á jarðsprengju og fótleggir hans þotið frá honum. Hann hafi þá skotið sig í gagnaugað áður en vinir hans komust til að stöðva hann.

Móðurfjölskylda mín, aserskir Kúrdar, er upprunnin í fjallahéraðinu Lachin. Mér var sagt að þar ættum við stórt og fallegt hús með mörgum gluggum. Móðir mín rifjaði upp með hlýju hverngi langamma mín hefði farið með hana á hestbaki upp grýttar hlíðarnar. Það var eins og að fljúga, sagði hún. Armenskar hersveitir bundu enda á tilvist ætta okkar þar, með þjóðernishreinsunum gegn öllum sem ekki voru armenskir. Ég sá aldrei húsið okkar, fékk aldrei færi á að fljúga á hestbaki, og sá aldrei Lachin, nema í fréttum, undir hinu nýja armenska nafni, „Berdzor“.

Armenum lýst sem óbótamönnum

Í skóla lærðist mér að Armenar væru glæponar sem bæru ábyrgð á öllum hörmungum okkar. Þessu var ekki erfitt að trúa í ljósi alls sem fjölskylda mín hafði gengið í gegnum. Rússneska heimsveldið, var okkur kennt, hafði flutt þau til lands okkar sem trygga, kristna íbúa frá Íran, eftir að stríðinu milli Rússa og Persa lauk árið 1828. Við lærðum að Armenar væru slóttugir svindlarar sem væri aldrei treystandi. Í sjónvarpinu heyrði ég Armenum lýst sem „hinum viðurstyggilega óvini“ og „óbótamönnum“. Hinum skelfilegu þjóðernishreinsunum sem Aserar frömdu gegn Armenum í helstu borgum okkar var afneitað, gert var lítið úr þeim eða þær skýrðar burt með þeim hætti að þær hefðu verið skipulagðar af Armenum til að láta þá líta út sem fórnarlömb, vekja samúð á alþjóðavettvangi og réttlæta nýtt stríð og hernám. Aldrei var minnst á þær þóðernishreinsanir sem Aserar og sovéskir hermenn frömdu gegn Armenum í hinum alræmdu atburðum ársins 1991. Við heyrðum heldur aldrei um hina vísvitandi og kerfisbundnu eyðileggingu armenskrar arfleifðar í Aserbaísjan.

Síðan þá hef ég gert mér grein fyrir að Armenar voru fóðraðir á sams konar skilaboðum um Asera. Við vorum kallaðir „Tyrkir“, með augljósum tengingum við áfallið af armenska þjóðarmorðinu, sem gerði okkur sek um glæp sem annað fólk framdi í öðru landi. Menningarleg, trúarleg og málræn aðgreining milli kákasískra Asera og anatólískra Tyrkja, sem höfðu í reynd háð stríð hver gegn öðrum, var ekki eitthvað sem armenska þjóðernissinna varðaði um. Við vorum ekkert nema villimannslegt innrásarlið frá Mið-Asíu, án sögu og menningar.

Eftir hin hræðilegu örlög okkar á tíunda áratugnum festi hatrið rætur í Aserbaísjan og eyðilagði okkur. Núverandi forseti, Ilham Aliyev, náði völdum árið 2003 og lagði skorður við málfrelsi, með markverðri undanþágu fyrir hatursorðræðu gegn Armenum. Aserum er alltaf frjálst að hata Armena aðeins meira og kenna þeim um allan vanda okkar. Fjölskylda forsetans hefur verið sökuð um að njóta góðs af opinberum samningum og viðskiptum ríkisins, Aliyev hefur meira að segja hagnast á þjáningu þeirra í Karabak og beitt þjáningu okkar til að réttlæta takmarkalausar kúgunaraðgerðir sínar.

Yfirgaf Aserbaísjan vegna kynhneigðar

Aliyev vill telja ykkur trú um að Armenar séu nú að hverfa frá Nagornó-Karabak af fúsum og frjálsum vilja. Það er lygi. Armenar vita vel hvaða ömrulega hlutskipti bíður þeirra ef þeir eru um kyrrt. Þetta ferli er auðvitað þjóðernishreinsanir.

Sjálfur yfirgaf ég Aserbaísjan fyrir 15 árum síðan, og var í þetta sinn ekki hrakinn brott af Armenum heldur af grimmd þeirra sem áttu að elska og vernda mig. Ég flúði heimilisofbeldi eftir að faðir minn reyndi að drepa mig fyrir að vera hommi, og engin manneskja eða stofnun í Aserbaísjan gat varið mig. Ég er jafn hrakinn burt og nokkur gæti verið og, í ljósi orða minna hér, er hugsanlegt að ég muni aldrei aftur geta heimsótt Aserbaísjan, af ótta við ofsóknir. En samviska mín knýr mig.

Ég vil að armensk börn sem eru hrakin af heimilum sínum með valdi heyri orðin sem hefðu eitt sinn haft alla þýðingu fyrir mig: Mér þykir leitt að við höfum brugðist ykkur. Einn daginn, þegar þú skilur hvað kom fyrir þig, þá mun hatrið byrja að drjúpa í hjarta þitt og þú munt vilja leita hefnda. Á þeirri stundu, taktu í hönd mína og leyfðu mér að leiða þig aftur í átt að sameiginlegri mennsku okkar. Hið eina raunverulega „við“ og „þau“ liggur á milli þeirra sem beita ofbeldi og þeirra sem hafna því.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí