Síðasta verk Þórdísar sem utanríkisráðherra var framlag til neyðaraðstoðar á Gasa

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Bjarni Benediktsson skiptust á ráðuneytum á dögunum og fóru lyklaskipti þeirra fram á mánudag. Tveimur dögum fyrir lyklaskiptin framdi Þórdís Kolbrún sína síðustu embættisathöfn sem utanríkisráðherra, með ákvörðun um 70 milljón króna framlag íslenskra stjórnvalda til neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna á Gasa, gegnum dótturstofnun SÞ á svæðinu, UNRWA. Framlagið er viðbót við reglubundið framlag Íslands til stofnunarinnar.

Ráðuneytið sendi út ilkynningu um þessa ákvörðun Þórdísar, nú fjármálaráðherra, á laugardag. Ekki er algengt að tilkynningar um ákvarðanir ráðherra birtist um helgar og ekkert annað ráðuneyti gaf út fréttatilkynningu þessa helgi. Hvort knúði fastar á um þennan hraða við ákvarðanatöku ráðherrans, ástandið á Gasa eða yfirvofandi brotthvarf Þórdísar úr ráðuneytinu, kom ekki fram í tilkynningunni.

Þar er hins vegar eftirfarandi haft eftir Þórdísi Kolbrúnu:

„Sú hryllilega atburðarás sem á sér stað á Gaza svæðinu bitnar helst á almennum borgurum. Fórnarlömbin eru hundruð þúsunda. Ísland hefur fordæmt illvirki hryðjuverkasamtakanna Hamas og ítrekað minnt Ísrael á mikilvægi þess að farið sé að alþjóðalögum, þar á meðal mannúðarrétti. Slík orð skipta máli, en með því að leggja raunverulegt fjárhagslegt framlag til að hjálpa fórnarlömbum þessa ástands leggjum við af mörkum eitthvað sem getur hjálpað til við að lina þjáningar hluta þeirra sem þjást og eru fórnarlömb aðstæðna. Ég vona að ríki heims muni standa saman um að huga að öryggi og aðstæðum almennra borgara í viðbrögðum sínum við því sem nú á sér stað.“

Þá segir að Ísland hafi átt í samstarfi við UNRWA „um áratuga skeið en stofnunin sinnir Palestínuflóttafólki á Gaza, Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem auk þeirra sem hafast við í Jórdaníu, Líbanon og Sýrlandi. Stofnunin veitir víðtæka mannúðaraðstoð og vernd, grunnmenntun, heilbrigðis- og félagsþjónustu. UNRWA er meginviðbragðsaðili Sameinuðu þjóðanna í þeirri neyð sem nú ríkir og aðstoðar jafnt flóttafólk sem aðra sem eiga um sárt að binda vegna átakanna.“

Að lokum kemur fram í tilkynningunni að utanríkisráðherra hafi undirritað rammasamning við stofnunina um áframhaldandi stuðning stjórnvalda við hana til næstu fimm ára. „Með viðbótarframlaginu sem tilkynnt var í dag verða framlög Íslands til stofnunarinnar í ár á pari við samningsbundin framlög næstu ára.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí