„Ágæta Katrín Jakobsdóttir! Við bíðum eftir að þú fordæmir þjóðarmorð Ísraela á Palestínu.“ Svo hefst opið bréf sem Sigurlín Guðmundsdóttir birtir á samfélagsmiðlum, en þar krefst hún að íslensk stjórnvöld sýni ábyrgð. Sigurlín er kvænt Palestínumanni frá Gaza, Mohammed Alkurd, en hann flúði heimaland sitt árið 2018. Í Palestínu varð hann fyrir miklu ofbeldi af hálfu Ísrael, heimili hans var sprengt, meðan fjölskylda hans var í húsinu. Hann hefur misst marga vini og ættingja, meðal annars föður sinn, vegna ofbeldis af hálfu Ísraelsríkis.
Enn hefur enginn ráðherra fordæmt stríðsglæpi Ísrael undanfarna daga og hefur Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, einungis fordæmt innrás Hamas.
Í bréfinu til Katrínar Jakobsdóttur segist Sigurlín bíða eftir viðbrögðum frá henni: „Við bíðum eftir viðbrögðum frá þér og íslenskum stjórnvöldum og stuðningi við saklausa íbúa Gaza. Við bíðum eftir að geta sagt fjölskyldunni okkar á Gaza að íslensk stjórnvöld geri allt sem í valdi þeirra stendur til að hjálpa þeim. Þau bíða en þau hafa ekki lengri tíma. Þau eiga lítinn mat eftir og það er enginn matur eftir til að kaupa. Aðgerðarleysi ykkar mun drepa þau úr hungri ef sprengjur hervaldsins verða ekki fyrri til. Þau eru hrædd, örmagna, svöng og ósofin. Við erum hrædd, áhyggjufull og reið, hvað eigum við að bíða lengi? Þau þurfa hjálp, strax í dag. Allir á Gaza þurfa hjálp, strax í dag. Katrín, gerðu eitthvað!“
Eiginmaður hennar, Mohammed, var gestur Rauða borðsins síðastliðinn nóvember. Hér fyrir neðan má sjá það viðtal.