„Ég hef sent forseta Alþingis bréf þar sem óskað er eftir því að Alþingi komi saman til fundar um utanríkisstefnu Íslands. Bréfið er sent fyrir hönd þingflokka Samfylkingar, Flokks fólksins, Pírata, Viðreisnar og Miðflokks.“
Þetta skrifar Logi Einarsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og nú þingmaður flokksins, á Facebook. Hann segir að allir stjórnarandstöðuflokkar kalli eftir því að næstkomandi fimmtudag fari fram þingfundur í stað þess að nefndir komi saman. „Við óskum þess að fimmtudagurinn 2. nóvember verði þingfundardagur í stað nefndardags og að þar verði forsætisráðherra og utanríkisráðherra til svara fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. Það teljum við áríðandi vegna atburða undanfarinna daga og stöðu utanríkismála,“ segir Logi.
Glundroði einkennir utanríkisstefnu Íslands þessa dagana, örfáum dögum eftir að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók við málaflokknum. Logi segir að það verði að ræða. „Við í Samfylkingunni lítum svo á að Ísland hefði átt að samþykkja ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust og langvarandi vopnahlé fyrir botni Miðjarðarhafs. Það var hins vegar ekki gert. Í kjölfarið hafa forsætisráðherra og þingflokkur eins af þremur stjórnarflokkum skapað óvissu á sviði utanríkismála með því að opinbera andstöðu sína við utanríkisstefnu Íslands eins og hún birtist á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þessi staða kallar á umræðu á Alþingi.“