Starfsfólkið segir svívirðilega á sér brotið

Algjör samstaða er meðal starfsfólks Grundarheimilanna sem sagt var upp störfum í síðustu viku um að krefjast þess að uppsagnir þeirra verði dregnar til baka.

Starfsfólki var boðið sem heiðursgestum á fund Trúnaðarráðs Eflingar í gærkvöldi, fimmtudaginn 5. október. Þar var samþykkt ályktun þar sem uppsagnirnar voru fordæmdar:

,,Trúnaðarráð Eflingar fordæmir harðlega fjöldauppsagnir sem beinast gegn Eflingarfélögum á starfsstöðvum Grundarheimilanna í Hveragerði. Trúnaðarráð krefst þess að uppsagnirnar verði dregnar til baka.

Þessi grimmilega aðgerð þýðir að hátt í 30 Eflingarfélagar, sumir með meira en 30 ára starfsreynslu, munu missa vinnuna. Þeir munu horfa upp á störfin sín lenda í höndum einkarekinna þrifafyrirtækja sem bjóða starfsfólki verri kjör og réttindi.

Með þessu hyggjast Grundarheimilin koma sér hjá að veita starfsfólki sínu dýrmæt réttindi tengd veikindum, orlofi og uppsagnarvernd sem verkafólk hefur barist fyrir og áunnið sér á liðnum áratugum.

Trúnaðarráð lýsir djúpri hneykslun á því að stofnanir sem reknar eru fyrir almannafé skuli brjóta með þessum svívirðilega hætti á verkafólki og stunda þannig í reynd félagsleg undirboð í sinni ógeðfelldustu mynd. Trúnaðarráð krefst þess að heilbrigðisráðherra axli ábyrgð á þessari þróun.

Trúnaðarráð styður starfsfólk Grundarheimilanna heils hugar og lýsir aðdáun á baráttu þeirra. Allar dyr félagsins standa þeim opnar og verður engu til sparað til að knýja á um þá kröfu að uppsagnirnar verði dregnar til baka.

Samþykkt einróma á fundi Trúnaðarráðs Eflingar haldinn í Félagsheimili Eflingar 5. október 2023.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí