„Bíðið með lófatakið. Eftir erindið munið þið ekki klappa,“ sagði heimspekingurinn Slavoj Žižek, þegar hann steig á svið á opnunarathöfn bókamessunnar í Frankfurt í liðinni viku, þar sem honum var falið að flytja opnunarávarp. Áhorfendur hlógu.
Það hefur borið hæst í tíðindum frá bókamessunni í ár að samtökin LitProm frestuðu verðlaunaathöfn þar sem veita átti palestínska höfundinum Adaniu Shibli LiBerature-verðlaunin svonefndu, sem fyrirhugað var að færi fram síðasta föstudag. Verðlaunin eru veitt henni fyrir bók sem kom út árið 2017 og í enskri þýðingu, undir titlinum Minor Detail, þremur árum síðar. Bókin byggir á sögulegu atviki, ofbeldisverki ísraelskra hermanna gegn palestínskri stúlku árið 1949. Athöfninni var frestað um ótilgreindan tíma, að sögn undir þrýstingi þýskra blaðamanna sem höfðu haldið því fram að bókin fæli í sér andsemitísk viðhorf. Þá sagði Juergen Boos, forseti og forstjóri bókamessunnar sjálfrar að skipuleggjendur hefðu ákveðið að skapa meira pláss fyrir ísraelskar raddir í dagskránni, eftir árás Hamas-liða á Ísrael þann 7. október.
Ákvörðunin hefur vægast sagt reynst umdeild. Þýski bókmenntagagnrýnandinn Iris Radisch er meðal þeirra sem hefur sagt að það að bendla framúrskarandi bókmenntaverk palestínsks höfundar við fjöldamorð Hamas hafi ekkert að gera með bókmenntagagnrýni.
Það er undir þessum kringumstæðum sem vill svo til að Slóvenía er heiðursgestur bókamessunnar og einum þekktasta höfundi landsins, heimspekingnum Slavoj Žižek, var boðið að flytja þar opnunarávarp. Að segja að heimspekingnum og áheyrendum hans hafi verið heitt í hamsi er ekki orðum aukið.
Nokkur orð um alræði hunangsflugna
Eftir aðvörunarorðin sem áheyrendur hlógu að hélt Žižek áfram og las af blaði:
„Ég er hreykinn af því að vera hér á bókamessunni, því eins og við heyrum aftur og aftur í dag er meiri þörf fyrir bækur nú en nokkru sinni. Án þeirra er engin lausn á hinu hræðilega Gasa-stríði. Hvers vegna? Ég fordæmi skilyrðislaust árásir Hamas á Ísraela í grennd við landamærin að Gasa, án „ef“ og „en“. Og ég viðurkenni rétt Ísraela til að verjast og eyða ógninni. Eftir sem áður tek ég eftir svolitlu undarlegu. Um leið og maður minnist á þörfina á að greina hinn flókna bakgrunn ástandsins er maður sakaður um að styðja eða réttlæta hryðjuverk Hamas. Gerum við okkur grein fyrir hversu undarlegt það er, þetta bann við greiningu, við því að sjá flækjustigið? Í hvaða samfélagi á þetta bann heima? Hér kemur fyrsta ögrun mín: í samfélagi sem hefur formgerð hunangssarps“ – með skírskotun til einkunnarorða Slóveníu á bókamessunni þetta ár, sem eru: hunangssarpur orðanna – „Hvaða fífl valdi þessi einkunnarorð? Vitið þið hvernig hunangsflugur lifa? Það er mesta alræðissamfélag sem þið getið ímyndað ykkur. Yfir 80% þeirra eru kvenkyns og eru í reynd geldar, ekki leyft að taka út kynþroska, þær vinna bara. Síðan ertu með eina drottningu sem einu sinni á ævinni makast við 10 karldýr og þegar þeir ljúka sér af gleypir hún getnaðarlimi þeirra umsvifalaust. Nei, takk, ég vil ekki lifa í þessa háttar samfélagi.“
„„Allt hér er okkar“ – skýrt og ógeðslegt“
Að því sögðu vék höfundurinn aftur að hinu ritaða ávarpi sínu.
„Titillinn á nýlegu samtali um andsemítisma og BDS-hreyfinguna í Der Spiegel var á þýsku: Wer Antisemit ist, bestimmt der Jude und nicht der potenzielle Antisemit – ég þýði: Það eru gyðingar sem ákveða hver er gyðingahatari, en ekki hinn mögulegi gyðingahatari sjálfur. Ókei, það virðist rökrétt. Þolandinn ætti sjálfur að ákveða hvort hann er í reynd þolandi. En á það sama ekki líka við um Palestínumenn, sem ættu að geta ákveðið hver er að stela landi þeirra og ræna þá grundvallarréttindum sínum?“
Žižek leit upp og bætti við:
„Ég vil beina athygli ykkar að fallegu smáatriði hér í dag: ég held að það hafi verið allra síðasta orðið í ræðu forseta Slóveníu – leiðréttið mig ef ég fer rangt með – en að það hafi verið í eina skiptið sem orðið Palestínumaður heyrðist sagt hér í dag. Annars hefur það bara verið Hamas á móti Ísrael. Afsakið en það þarf, í þessari stöðu, að telja milljónir Palestínumanna með.“
Að því sögðu, og að loknu lófaklappi, sneri hann aftur að þörfinni á greiningu:
„Með því að greina bakgrunninn á ég ekki við algjöra heimsku sem er klædd upp í búning djúprar visku, eins og viðkvæðið að „óvinur sé bara einhver sem þú hefur ekki heyrt segja sögu sína.“ Afsakið en ég las Mein Kampf eftir Hitler. Ég heyrði sögu hans. Og ég elska ekki nasisma meira heldur enn minna fyrir vikið.
Hér eru meginsögurnar tvær um Ísrael í dag. Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, sem býr auðvitað notalega á fimm stjörnu hóteli í Dubaí, sagði daginn sem árásin var gerð: „Við höfum aðeins eitt að segja við ykkur“ – Gyðinga: „Hypjið ykkur af landi okkar. Látið ykkur hverfa. Þetta er okkar land. Al Quds“ – þeirra orð yfir Jerúsalem – „er okkar. Allt hér er okkar. Enginn öruggur staður bíður ykkar.“ Skýrt og ógeðslegt.
En sögðu ekki ísraelsk stjórnvöld eitthvað svipað, þó auðvitað með langtum siðmenntaðra yfirbragði? Hér er fyrsta opinbera grundvallaratriði núverandi ríkisstjórnar Ísraels, tilvitnun úr opinberri heimild: „Gyðingar hafa einir óafturkræfan rétt til allra landshluta Ísraels. Ríkisstjórnin mun styðja og þróa landnám allra landshluta Ísraels – í Galíleu, Negev, Golan, Júdeu og Samaríu.“
Eða eins og Benjamin Netanyahu sagði: „Ísrael er ekki ríki allra borgara sinna. Það er ríki þjóðar Gyðinga og aðeins hennar.““
„Getið þið ímyndað ykkur jafn ærlega yfirlýsingu í dag?“
„Kemur þetta grundvallarviðmið ekki í veg fyrir allar alvöru sáttaumleitanir?“ spurði Žižek næst. „Komið er fram við Palestínumenn eingöngu sem vandamál. Ísraelsríki býður þeim enga von um jákvætt hlutverk innan ríkisins sem þeir lifa í. Undir öllu karpinu um hvor er meiri hryðjuverkamaður liggja dimm og þung ský, eða öllu heldur mýri: sá fjöldi palestínskra Araba sem áratugum saman er haldið í limbói, berskjölduðum fyrir daglegri áreitni landnema og ísraelska ríkisins. Hverjir eru þeir? Hvaða land er það sem þau búa í? Landnemabyggðir, Vesturbakkinn, Júdea og Samaría – eða Palestínuríki, sem er nú viðurkennt af 139 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna?
Fyrsta kynslóð leiðtoga Ísraels, frá Ben Gurion til Moshe Dayan – ég vil lofa þá hér – þeir töluðu á allt öðrum, heiðarlegum nótum. Þeir játuðust því opinskátt að krafa þeirra til lands í Palestínu gæti ekki grundvallast á neinu almennu réttlæti. Mjög raunverulegt dæmi: Þann 29. apríl 1956 varð atvik sem varðaði Gasa. Hópur Palestínumanna frá Gasa hafði farið yfir landamærin til að ræna uppskeru af ökrum þorpsins Nahel-Oz. Roy, ungur gyðingur í þorpinu sem gætti akranna, reið til þeirra á hesti sínum til að fæla þá burt. Palestínumennirnir fönguðu hann og þegar Sameinuðu þjóðirnar endurheimtu líkið höfðu augu hans verið skorin úr honum. Hér er viðbragð Moshes Dayan – hann flutti þessa minningarræðu við útför þessa Gyðings, sem var drepinn, næsta dag. Hlustið. „Ásökum ekki morðingjana í dag. Hvaða kröfu höfum við gegn banvænu hatri þeirra í okkar garð? Þau hafa lifað í flóttamannabúðum á Gasa undanliðin átta ár á meðan við, undir augliti þeirra, höfum umbreytt landinu og þorpunum þar sem þau og forverar þeirra áður bjuggu, í okkar eigin erfðagóss.“
Getið þið ímyndað ykkur jafn ærlega yfirlýsingu í dag? Hversu langt erum við frá þeirri stöðu jafnvel, fyrir nokkrum áratugum síðan, þegar við töluðum um samkomulag um land fyrir frið, tveggja ríkja lausn, eða þegar jafnvel römmustu stuðningsmenn Ísraels þrýstu á það um að reisa ekki landtökubyggðir á Vesturbakkanum. Árið 1994 reisti Ísrael múr sem skildi Vesturbakkann frá landamærum Ísraels frá 1967 en viðurkenndi þar með, hvað sem öðru leið, Vesturbakkann sem tiltekna einingu. Allt þetta er nú gufað upp.“
„Maður ætti að fara út í öfgar í báðar áttir“
„Einkennismerki ísraelskra stjórnvalda í dag er Itamar Ben-Gwir. Hann steig inn í stjórnmál í gegnum ungliðahreyfingu Kach og Kahane Chai flokksins, sem var útnefndur sem hryðjuverkasamtök og gerður útlægur – af hverjum? Af ísraelskum stjórnvöldum sjálfum. Þegar Ben-Gwir náði aldri til að skrá sig í herinn var honum haldið frá þjónustu vegna öfga-hægri-bakgrunns síns í stjórnmálum. Og þess háttar manneskja, fordæmd af Ísrael sjálfu fyrir rasisma og tengsl við hryðjuverk, er núna, já, getið hvað? Ráðherra þjóðaröryggismála landsins, sem ætlað er að standa vörð um réttarríkið. Munið þið átökin sem klufu Ísrael síðustu mánuði? Í ummælum um tillögur Netanyahu-stjórnarinnar sagði Yuval Harari afdráttarlaust: „Þetta er valdarán. Ísrael er á leiðinni að verða einræðisríki.“ Ísrael var klofið á milli þjóðernissinnaðra ofstækismanna sem vildu afnema lykilþætti í lagagrunni ríkisins og þeirra meðlima borgarlegs samfélags sem báru kennsl á þessa ógn.
Með árás Hamas – og þetta er það sem ég álít raunverulegan harmleik – er krísunni lokið og andi þjóðareiningar ríkir. Þetta er alltaf harmræn stund, þegar sigrast er á innri klofningi, frammi fyrir utanaðkomandi óvini.
Svo kannski er það fyrsta sem þarf að gera að viðurkenna fullum fetum þá miklu örvæntingu og ringulreið sem getur alið af sér illvirki. Í stuttu máli verður enginn friður í Mið-Austurlöndum án þess að leysa spurninguna um Palestínu. Ég las þetta á síðustu dögum í ísraelskum dagblöðum.“
Hér klöppuðu áheyrendur, þá leit Žižek upp af pappírnum og undirstrikaði:
„Ég er ekki á neinn hátt að réttlæta – þetta er glæpsamlegt athæfi. Já, Ísrael hefur allan rétt á að gera árás til baka. En ekki gleyma þessum dimma, vandséða bakgrunni. Palestínumönnum.“
Að því sögðu hélt hann lestrinum áfram.
„Í öðru lagi: lausnin felst ekki í málamiðlun, í hinum subbulega skilningi meðalhófs á milli tveggja öfga. Þið vitið, margir vina minna halda þessu fram, þeir segja annars vegar: já, Palestínumenn hafa rétt á að vera svolítið andsemitískir, sjáið hvað Ísraelar eru að gera þeim, og hins vegar: Ísraelar hafa rétt á að vera svolítið ofbeldisfullir, sjáið hvað við gerðum þeim í helförinni. Ég held að hér sé ekkert til að sýna skilning. Maður ætti að fara út í öfgar í báðar áttir, til varnar réttindum Palestínumanna og í baráttu gegn andsemítisma.“
Framíkall: „Þú getur ekki borið saman …“
Það er hér sem heyrist kallað fram úr salnum: „Þú getur ekki borið hryðjuverk Hamas saman við það sem gert er Ísraels megin!“ Og í salnum er klappað.
„Ég er ekki,“ segir Žižek og leggur áherslu með handahreyfingu: „Ég er ekki að bera saman!“
„Þetta er afstæðishyggja!“ heldur kallarinn í salnum áfram.
„Nei, þetta er ekki afstæðishyggja!“ svarar Žižek.
Önnur rödd úr salnum svarar: „Leyfðu honum að tala, leyfðu honum að tala til enda!“
„Já!“ segir Žižek. „Sjáið þarna hvað er í reynd átt við með að leggja sig eftir fjölbreytni, inngildingu …. Þetta er slaufunarrökvísin. Að til að haga fjölbreytninni eftir okkar höfði þarf auðvitað fyrst að útiloka sumt fólk. Ég er að tala um tugi Palestínumanna sem ég þekki. Og fyrirgefið ef ég spring aðeins núna. Ef það er einhver hér inni sem gerði meira í þágu friðsamlegs samstarfs milli Palestínumanna og Ísraela, þá beygi ég mig. En það er ekki tilfellið. Hvað geturðu gert meira en þetta? Með vinum mínum skipulagði ég, í Ramallah, stóra ráðstefnu til heiðurs Walter Benjamin. Gyðingi. Það var enginn vandi að eiga í rökræðum þar. Í Ramallah skipulagði ég líka kvikmyndaskóla, í samstarfi við prófessor sem er gyðingur og svo framvegis og svo framvegis. Um þetta „þú getur ekki borið saman“ – auðvitað geturðu ekki borið það saman sem ofbeldisathæfi. Ég meina, árás Hamas er algjörlega miskunnarlaus, grimmdarleg og svo framvegis og svo framvegis. En ætti ég að leggjast svo lágt hérna að vitna í – og ég er sammála honum hér – Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem sagði: já, Ísrael hefur allan rétt á að ráðast til baka. En hvernig það gerir það varðar okkur öll. Það er ekki bara Ísrael á móti Hamas.
Svo aftur, um leið og þú fellst á að þetta sé ekki mögulegt, að berjast fyrir báðar hliðar samtímis, þá hefurðu glatað sál þinni.“
„Andsemitískur zíonismi“
Að því sögðu hóf Žižek aftur lestur ávarps síns:
„Sérstaklega í dag þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem ég get ekki kallað annað en andsemitískan zíonisma. Vitið þið hvers vegna evrópska hægrið styður svona fúslega við Ísrael? Lítum aftur á upphafið. Lítið á síðustu bókina mína, þar finnið þið heila tilvitnun. Vitið þið hver er einn upphafsmanna þessa? Reinhard Heydrich. Árið 1936 skrifaði – já, sá Heydrich! – bréf, yfirlýsingu, þar sem hann segir: Ísraelar eru dásamleg þjóð. Við erum fúsir að eiga samstarf við þau, en ekki hér í Þýskalandi. Þau ættu að fara þangað. – Breivik, þið munið eftir honum, brjálaða norska garunum sem … – hann var með sama: fullkomlega andsemitískur hér en „við styðjum þau heilshugar þar“, svo ég hafi ekki listann lengri.“
– Nú var aftur kallað úr sal, frá sama stað og áður: „Þetta er hneisa, á degi þegar fólk er myrt og tekið af lífi …“
– „Hvar?“ spurði Žižek og bætti við: „Líka í Gasa.“
Andmælandinn úr salnum hélt áfram: „Að bera saman báðar hliðar og gera lítið úr því sem gerðist …“
„Ég geri ekki lítið úr því,“ áréttar Žižek. „Það var hræðilegur glæpur. Ég lít ekki á það sem afstætt á neinn hátt. Ég held því aðeins fram að með því að tala eins og þú gerðir núna séu milljónir Palestínumanna umsvifalaust sett í ómögulega stöðu, sem mun fóðra frekari andsemítisma. En leyfið mér samt að klára.“
Hneykslið að fresta verðlaunum Adaniu Shibli
„Arthur Koestler,“ las hann áfram, „færði bitran sannleika í orð: „Ef vald spillir er það öndverða líka satt, að ofsóknir spilla þolendunum, þó að þær geri það hugsanlega á fínlegri og harmrænni hátt.“ Þetta á við um báðar hliðar í stríðinu sem nú stendur yfir.
Æðsta hetja mín, fullkomlega, á 20. öld, er Marek Edelmann, pólskur gyðingur sem sá þetta skýrt. Árið 1943 tók Edelmann þátt í uppreisninni í Varsjárgettóinu. Og hann tók líka þátt í uppreisninni í Varsjá allri, 1944. Eftir stríðið, þegar kona hans og börn fluttu burt, undan uppgangi herferðarinnar gegn gyðingum í Póllandi árið 1968, ákvað hann að vera eftir í Póllandi. Hann bar sjálfan sig saman við rústir búðanna í Auschwitz og sagði: „Einhver þurfti að dvelja hér, með öllum þeim sem fórust hér, eftir allt saman.“ Frá áttunda áratugnum átti hann í samstarfi við Varnarráð verkamanna, sem meðlimur Samstöðu. Hann tók þátt í pólsku hringborðsviðræðunum (1989). Undir lok ævi sinnar varði Edelmann opinberlega andspyrnu Palestínumanna og sagði að sjálfsvörn Gyðinga, sem hann hafði átt þátt í, ætti á hættu að fara yfir mörk og verða að kúgunarafli.
Að afskrifa Edelmann sem sjálfhatandi Gyðing væri, að mínu mati, fullkomlega skammarlegt. Hvers vegna segi ég þetta hér, á bókamessunni í Frankfurt? Vegna þess að aðeins með lestri bóka – og hér er ég sammála þeim sem töluðu á undan mér – getum við gert okkur grein fyrir stöðunni. Bókmenntir hafa forskot sem miðill til að gera áþreifanlega þá djúpu margræðni og flækju sem felst í hlutskipti okkar.“
Þetta var af blaði – en aftur leit Žižek upp til að koma hinu öndverða að um leið, hefðbndnum fyrirvara hans við ljóðlist: „Ég ætla ekki að tala um ljóðlist sem eitthvað dulúðugt. Hins vegar hef ég að tilgátu, svo ég valdi ykkur öðru áfalli, að það séu engar þjóðernishreinsanir án ljóðlistar. Lítið til Rúanda. Það var stórt ljóðskáld þar. Lítið til fyrrum Júgóslavíu, Radovan Karadzic, ljóðskáld sem naut umtalsverðrar virðingar fyrir stríðið, svo ekki sé minnst á fólk eins og Maó Zedong og svo framvegis.“
Að því sögðu hélt hann áfram lestrinum: „Þess vegna var ég sleginn þegar ég frétti að verðlaunaafhendingu Adaniu Shibli hefði verið frestað, ákvörðun sem ég lít á sem hneyksli. Hryðjuverk gegn Ísrael – já – standa í andstöðu við öll gildi Frankfurt-bókamessunnar – já. Það gerir líka hóprefsing milljóna á Gasa og það gerir einnig slaufun Adaniu Shibli.“
Þverstæða slaufunarmenningar
„Þið vitið, hér erum við að nálgast þverstæðu slaufunarmenningar. Opinbera framsetningin er: „já“ við inngildingu og fjölbreytileika – en allt sem slaufunarmenning gerir síðan er að útiloka þá sem falla ekki að hugmynd þinni um inngildingu og fjölbreytileika. Þess vegna er ég ekki aðeins hreykinn af því að vera hérna, ég skammast mín líka svolítið.
Reynið að ímynda ykkur hvað Marek Edelmann myndi segja ef hann væri á lífi í dag. Og aftur, til að endurtaka – ég er að verða búinn: Nei, á engan hátt styð ég eða geri lítið úr því sem Hamas gerði. Það var ófyrirgefanlegt, grimmdarlegt fjöldamorð. Haniyeh segir það skýrt: það snýst ekki bara um að setja Ísrael mörk heldur að afmá ríkið. En kringumstæðurnar sem ég lýsti gera á engan hátt lítið úr þessum glæp. Þær leiða okkur aðeins í ljós þann bakgrunn ósættis sem slíkir glæpir – það réttlætir þá ekki á neinn hátt – geta sprottið úr. Ef við leiðum það hjá okkur, ef við leiðum hjá okkur það sem er nú að gerast á Vesturbakkanum, þá getum við ekki áttað okkur á stöðunni.
Ég viðurkenni fullkomlega – alfarið – tilverurétt Ísraelsríkis. Ég er líka alfarið gagnrýninn á yfirvöld Palestínu. Ég held til dæmis að Arafat hafi verið réttilega lýst sem manninum sem missti aldrei af tækifæri til að fara á mis við tækifæri. Það var fádæma heimskulegt af honum að hafna samkomulaginu við Ehud Barak stjórnina sem Clinton kom í kring. Svo ég er ekki að lofsyngja Palestínumenn, ég er bara að segja: sjáið stöðu þeirra á Vesturbakkanum. Þau eru í limbói, það er harmleikur. Ef við …“
Að bera saman hið ósambærilega
Og hér var aftur gripið fram í úr sal, en á upptöku heyrist ekki vel hvað viðkomandi sagði. Žižek svarar:
„Já, ef þú hefðir sagt þetta við þá sem töluðu á undan mér líka, hefði það verið fínt.“ Nokkur hluti áheyrenda klappar.
„Þið sjáið,“ segir Žižek „um leið og ég sagði bara: þetta er ekki einfalt, þá ber ég saman hið ósambærilega. Nei, ég held að við ættum að bera það saman. Takk.“
Žižek steig af sviðinu undir dynjandi lófaklappi og voldugu búi áhorfenda. Hvort tveggja virðist enn hafa staðið yfir þegar Juergen Boos, áðurnefndur forstjóri og forseti bókamessunnar, steig á svið til að lýsa því yfir að svona væri tjáningarfrelsið, sér þætti mikilvægt að raska því ekki, en hann gerði ráð fyrir að hann tjáði sig fyrir hönd allra viðstaddra, „þessa samfélags,“ þegar hann segði: „Við fordæmum hryðjuverk. Við erum manneskjur og við hugsum á mennskum forsendum.“ Þá sagðist hann hryggur yfir því sem „hér hefði gerst,“ feginn því að gripið hefði verið fram í fyrir ræðumanni, feginn því líka að hann hefði lokið máli sínu, „þó að okkur hafi ef til vill ekki líkað það.“
Ræðuna alla, ásamt viðbrögðum forstjórans, má sjá og heyra hér.
Um bókamessuna í Frankfurt
Hin árlega bókamessa í Frankfurt er stærsti markaðsviðburður útgáfuheimsins, þar sem þúsundir útgefenda og dreifingaraðila sýna sig og sjá hver aðra, stinga saman nefjum og gera samninga. Viðburðir eru þó ekki aðeins ætlaðir fagaðilum, á milli 200–300 þúsund gestir mæta á viðburði messunnar ár hvert.
Sagt er að hefðin teygi sig aftur til 500 ára, þegar markaðurinn í Frankfurt var vettvangur viðskipta með handritaðar bækur, en bókaviðskiptin fengið byr undir báða vængi eftir að Gutenberg þróaði prentvélina í Mainz, ekki langt þar frá.
Í núverandi mynd hefur bókamessan í Frankfurt verið haldin frá árinu 1949. Á hverju ári hlotnast einu landi að vera heiðursgestur hátíðarinnar, og er þá bókum og höfundum þess lands veitt sérstök athygli á viðburðum hennar. Árið 2011 var það Ísland. Heiðursgestur hátíðarinnar nú í ár er Slóvenía.