Hvort sem þú notar Apple eða Android síma, sem eru lykill þinn að hugbúnaðinum sem þú notar til samskipta við vini, fjölskyldu og ókunnuga, þá lítur út fyrir að milli forritanna sem þú velur ríki samkeppni. Og það er að vissu leyti satt en í veigameiri skilningi bara ásýnd, bara sjónarspil, því að baki býr alltaf sama búðin, App Store eða Play Store, á vegum sama stórfyrirtækisins, Apple eða Google, sem tekur ýmist 15 eða 30 prósent af allri veltu, allri sölu forritanna. Bæði fyrirtækin hafa aðgang að einkalegustu upplýsingunum um sjálf(t/an/n) þig, þekkja þig betur en þú gerir sjálf(t/ur), og koma þessum upplýsingum í verð með einum eða öðrum hætti. Gagnvart þeim, gagnvart Facebook, og handfylli annarra fyrirtækja ert þú í svipuðu hlutverki og þý eða vinnufólk á býlum fyrir daga iðnbyltingarinnar, gegnum miðaldir: þú framleiðir verðmætin þeirra án þess að fá borgað fyrir það. Vettvangurinn sem þau starfa á, þar sem þú hefst við, er kallaður ský. Þú ert skýjaþý. Skýþý. Segir Yanis Varoufakis. Og þess vegna muni engin uppreisn verkafólks gegn auðvaldinu, í hefðbundnum skilningi, duga til að hrinda hinu nýja valdi. Skýþýið þurfi að rísa upp gegn tæknirisunum, heimta þjóðnýtingu á samfélagsmiðlum, gervigreindarlausnum og efnislegum undirstöðum þeirra í gagnaverum og nettengingum.
Hver er Varoufakis?
Nú rétt undir mánaðamót, í lok september, kom út bók eftir Varoufakis, þingmann, hagfræðing, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands og eiginmann listakonunnar Danae Stratou. Varoufakis er sósíalisti og tók sem slíkur við embætti fjármálaráðherra í Grikklandi eftir efnahagshrunið 2008. Miklar vonir voru bundnar við stjórnina sem hann tilheyrði, sem fann hins vegar að endingu ekki flöt á því að standa upp í hárinu á lánadrottnum, ríkjum þeirra og ríkjabandalögum, eða ekki upp að því marki sem stjórnin sjálf hafði sett sér og vinstrimenn um víða veröld stutt. Varoufakis komst hins vegar óskaddaður gegnum þá rimmu og hefur áfram notið nokkurs trausts sem bæði pólitískur og efnahagslegur greinandi, jafnvel hugsuður, ekki síst í ljósi þess hve berorður hann hefur verið, í ræðu og riti, um þann þjösnaskap sem hann upplifði af hálfu fulltrúa annarra Evrópuríkja í embættistíð sinni. Leðurklæddur sósíalisti á mótorhjóli, mælskur, vöðvastæltur og með kvikmyndastjörnubros, nýtur hann að einhverju leyti annars konar hylli og annars konar tortryggni en gengur og gerist í þeim geira. Eftir líkamsárás sem hann varð fyrir síðasta vor, þar sem kinnbein og nef hans voru brotin á sex stöðum af mönnum sem segir hafa verið ráðna til verksins, bað hann fólk að hafa hugann heldur við það sem skipti máli og vísaði til banvænna afleiðinga niðurskurðar og einkavæðingar í Grikklandi, í ljósi lestarslyss sem þá hafði nýorðið 57 manns að bana.
Hinir nýju lénsherrar
Bókin sem nú er nýkomin út heitir Technofeudalism: What Killed Capitalism – eða Tæknilénsveldi: Hvað drap kapítalismann? Meginhugmynd bókarinnar er þessi: kapítalisminn er dauður en það vorum ekki við sem drápum hann, ekki vinstrið, heldur hann sjálfur og við tók annað verra. Rétt eins og kapítalisminn tók við af lénsveldum fyrri alda með því að ágóði fyrirtækja í samkeppni varð veigameiri þáttur í hagkerfum heims en rentur landeigenda af jörðum sínum, þannig hefur nú í reynd nýtt kerfi tekið við af kapítalismanum, í hérumbil sama skilningi og um leið þveröfugum: þeim sama að því leyti að það er ekki þannig að fyrirtækin og ágóði þeirra leggist af, heldur verða þau aukaatriði andspænis hinni nýju rökvísi. En yfirstandandi stórbreytingar eru andstæðar tilkomu kapítalismans að því leyti að hina nýja rökvísi er hin gamla rökvísi: lénsherrar og lénsveldi snúa nú aftur, segir hann, í heimi þar sem stórfyrirtæki hafa náð yfirráðum yfir netinu. Rekstrarhagnaður er ekki lengur fremsti drifkraftur þessara fyrirtækja eða hagkerfanna í heild heldur renta, eins og sú sem áður var innheimt af landareignum, en er nú sótt til neteigna, léna í skýinu.
Þessi umdæmi, hin nýju lénsveldi, eru ekki undirorpin samkeppni, segir Varoufakis, eða að minnsta kosti ekki í sama skilningi og þau markaðsform sem við höfum átt að venjast. Allt það í veröldinni sem er ekki Facebook, Twitter, Apple, Google, Amazon – eða í Kína: Tencent, Alibaba, Baidu – allur annar, hefðbundinn rekstur og fólk almennt, eru nú, að hluta eða í heild, undirsátar hinna nýju lénsherra í hinu nýja tæknilénsveldi, ýmist sem leiguliðar á jörðum þeirra (t.d. öll þau fyrirtæki sem þurfa vettvang Amazon, Alibaba, Apple eða Google til að koma vörum á framfæri) eða vinnufólk á býlum leiguliðanna (starfsólk þessara fyrirtækja). Að auki hefur þessi tilfærsla orðið til að skapa nýja stöðu fólks sem utan vinnustunda framleiðir verðmæti fyrirtækjanna, til dæmis með framleiðslu efnis og þátttöku í samskiptum á samfélagsmiðlum, alfarið launalaust, og hefur svipaða stöðu og þý höfðu í hinum fyrri lénsveldum. Öll eða flest erum við að einhverju leyti orðin þý í þeim skilningi. Skýþý.
Mikilvægi orðanna
Gott og vel, en þetta vitum við allt saman, eru þetta ekki bara nokkur ný orð yfir þekktar stærðir? Varoufakis segist skrifa bókina sem svar við spurningu sem faðir hans spurði hann þegar þeir fengu fyrst internettengingu heim til sín, með mótaldi og símasnúru, árið 1993: Nú þegar tölvur geta talað hvor við aðra, spurði pabbi hans, verður það þá kapítalismanum að falli eða verður kapítalisminn nú loks ósigrandi? Faðirinn sem spurði son sinn þessarar spurningar var nýfallinn frá þegar Yanis hófst handa við svarið. Í bókinni ávarpar hann föður sinn stundum beint, getur sér jafnvel til um hvað hann myndi segja. Og þetta myndir þú áreiðanlega segja, pabbi, skrifar Yanis. Þú myndir áreiðanlega spyrja mig hvort þetta sé ekki bara nýr kafli í sögu kapítilismans, sem stendur auðvitað í stöðugri umbreytingu, hvers vegna ætti þessi staða að útheimta nýtt orðfæri, frekar en allt hitt sem hefur áður gengið á?
Því svarar Varoufakis með skírskotunar til hliðstæðunnar sem er nefnd að ofan: þegar sú sögulega tilfærsla átti sér stað að kapítalismi tók við af lénsveldum fyrri alda, þá höfðu menn fyrst í stað ekki annað orðfæri til að takast á við hann en það sem tilheyrði lénsveldunum, og hefðu getað haldið áfram að tala um verksmiðjulénsherra, verksmiðjuþý og svo framvegis. En þá hefðu þau farið á mis við, annars vegar, hversu djúpstæð og umfangsmikil breytingin var og, hins vegar, tækifæri til að greina nýmælin á þeirra eigin forsendum. Nú er þörf á hliðstæðri aðgerð, segir hann, hliðstæðri nýsköpun hugtaka.
Þegar fjárfestar fagna tapi
Þó að hin nýju tæknilén eða skýjalén, þau stærstu fyrirtæki og ríkustu auðkýfingar heims sem við erum bæði háð og fóðrum með ýmissi daglegri virkni okkar, séu forsenda þessa hugtaks, þá eru þau aðeins önnur meginforsendan. Hin forsendan eru lykilákvarðanir í hagstjórn síðustu áratuga. Nánar til tekið, ákvarðanir sem stjórnvöld í Evrópu og Bandaríkjunum tóku í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Að sögn Varoufakis voru þeir opinberu styrkir sem fjármálakerfi heimsins naut í kjölfar hrunsins nógu veigamiklir til að taka úr sambandi þá hagnaðarvon sem áður var meginafl kapítalismans. Í stað þess að leggja sig fram um að hafa vöru eða þjónustu til að bjóða sem nógu margir vildu kaupa til að fyrirtækin gætu grætt á því, segir Varoufakis, þá hafi fjármálageirinn lært að þegar allt fer í hönk, þá komi ríkin til bjargar, enda séu innviðir fjármálakerfanna ómissandi. Afleiðingar þessara nýju viðmiða hafi loks sýnt sig snemma í heimsfaraldrinum: daginn sem tölur birtust um hræðilega afkomu lykilfyrirtækja, verri en spáð hafði verið, hafi hlutabréfamarkaðir tekið kipp – upp á við. Ekkert fær skýrt þann kipp, segir Varoufakis, nema trú fjárfesta á innspýtingu opinbers fjár þegar annað gefst ekki. Sem hafi líka orðið raunin, í faraldrinum rétt eins og í efnahagshruninu.
Þær trilljónir dala sem ríki heims hafa dælt í fjármálageirann síðan 2008 – hvert fóru þær? Í netfyrirtækin, segir Varoufakis. Nýsköpunarfyrirtækin og tæknigeirann, í að byggja upp innviði þeirra, hvort sem er með lagningu ljósleiðara, uppbyggingu gagnavera eða annað sem skýið þarfnast. Hinir nýju lénsherrar hafi fengið það allt á silfurfati og komist í þá stöðu að allur annar rekstur er nú meira eða minna, á einn eða annan veg, háður þeim, skýeigendum sem heimta til sín rentu af allri veröldinni án þess að þurfa að basla í samkeppni í neinum þeim skilningi sem lagður var í hugtakið í sögu kapítalismans hingað til.
Skilningur sem forsenda framkvæmda
Ef maður fellst á þetta, að tilfærslan sem hefur átt sér stað sé nógu veigamikil til að verðskulda nýtt orðfæri, gagn geti verið að því að hugsa ekki lengur um meginvirkni hagkerfa heimsins sem kapítalisma heldur sem lénsveldi, hvað leiðir þá af því? Í fyrsta lagi skarpari skilning á stöðu okkar, segir Varoufakis. Hann segir að einmitt með því að bera kennsl á það hvernig hinir nýju lénsherrar ríki yfir veröldinni og jafnvel stórfyrirtæki af gamla toganum verði undirsátar þeirra, leiguliðar á þeirra jörð, megi skilja ákvarðanir sem annars virðast fáránlegar, til dæmis hvers vegna Elon Musk lagði svo mikið að veði til að kaupa samfélagsmiðilinn Twitter, greiddi 44 milljarða dala fyrir fyrirtæki sem hann virðist síðan í óða önn að leggja í rúst. Hann var þegar orðinn ríkasti maður heims fyrir þessi kaup, en hann vantaði enn aðgang að þessari lykilstöðu hvers sem vill vera á toppi tilverunnar um þessar mundir: til þess að verða einn af lénsherrum heimsins hafi hann vantað samfélagsmiðil eða eitthvað annað sem gerði sama gagn, net sem veiti töluverðum hluta mannkyns persónukennsl (identity, hér í skilningi sem liggur nær skilríkjum en sjálfsmynd) og velti ekki síður upplýsingum en fjármunum. Frá sama sjónarhóli megi skilja hvers vegna Bandaríkjunum liggur svo á að halda kínverska samfélagsmiðlinum TikTok í skefjum, hvers vegna þau leggja svo ríka áherslu á að takmarka getu Kína til uppbyggingar á sviðinu yfirleitt, og svo framvegis.
Hins vegar brýnir Varoufakis fyrir vinstrinu að gera sér grein fyrir þessari nýju stöðu, af því að af henni leið margt um hvaða barátta eða uppreisn sé möguleg, þörf og hafi þýðingu. Hefðbundin barátta verkafólks eins sér hefði enga þýðingu í dag, segir hann, heldur verður hún að fara hönd í hönd við baráttu þeirra annarra hópa sem eru í undirsettri stöðu í hinu nýja tæknilénsveldi. Skýþýið. Til að nokkur barátta geti skilað árangri þurfi að því leyti breiðari samstöðu nú en áður.