320 fræðimenn við HÍ heita stuðningi við Palestínu og sniðgöngu fræðimanna í Ísrael

„Við undirrituð, starfsfólk við Háskóla Íslands, lýsum yfir stuðningi við palestínsku þjóðina, baráttu hennar fyrir tilvistarrétti sínum gegn ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði.“ Á þessum orðum hefst yfirlýsing 320 starfsmanna Háskóla Íslands, prófessora, dósenta, lektora, nýdoktora, doktorsnema og verkefnastjóra, sem birtist á mánudag, 13. nóvember.

„Við neitum að standa hljóð hjá á meðan ísraelsk stjórnvöld fremja þjóðarmorð á Palestínu,“ segir í yfirlýsingunni, „og tökum ákallinu frá starfsfólki Birzeit háskólans um að uppfylla akademíska skyldu okkar um að afhjúpa óréttlæti með því að leita ávallt sannleikans, halda fjarlægð frá ríkisstyrktum áróðri og að gera þá sem standa fyrir þjóðarmorði, sem og þá sem það styðja, ábyrga fyrir gjörðum sínum.“

Fræðimennirnir segjast viðurkenna „frelsisbaráttu Palestínu sem hluta af stærri baráttu gegn kúgun, kerfisbundnu ofbeldi og nýlenduhugafari sem hefur endurskapað sig í samtímanum í nýrri birtingarmynd eins og eftirlendufræði hafa afhjúpað.“ Þá hvetja þau „íslensk stjórnvöld, sem og alþjóðasamfélagið, til þess að beita sér fyrir því að framferði ísraelskra stjórnvalda verði stöðvað og neyðaraðstoð komið inn á Gaza sem fyrst.“

Loks víkja fræðimennirnir að sniðgöngu sem þau segja friðsamlega leið „til þess að lýsa yfir vanþóknun á framferði ísraelskra stjórnvalda og styðja palestínsku þjóðina.“ Þau heita því, „sem akademískt starfsfólk,“ að „sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk sem starfar fyrir stofnanir sem eru samsekar þjóðarmorði þar til stjórnvöld þar í landi láta af stríðsglæpum og aðskilnaðarstefnu og hætta þjóðernishreinsunum á Gaza og Vesturbakkanum.“

Þessu heiti fylgir sá fyrirvari, neðanmáls, að það eigi ekki við um „akademískt starfsfólk eða stofnanir sem hafa hafnað nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu, landráni og þjóðernishreinsunum ísraelska ríkisins á Palestínu og taka þátt í akademískri sniðgöngu.“ Fræðimennirnir heita því á móti að leggja sig fram við að „styðja og auka samvinnu við akademískt starfsfólk í Palestínu.“

Yfirlýsingin í heild

Yfirlýsing frá starfsfólki Háskóla Íslands til stuðnings Palestínu

Við undirrituð, starfsfólk við Háskóla Íslands, lýsum yfir stuðningi við palestínsku þjóðina, baráttu hennar fyrir tilvistarrétti sínum gegn ísraelskri nýlendustefnu og þjóðarmorði. Með þessari stuðningsyfirlýsingu bregðumst við ákalli frá Birzeit háskólanum í Palestínu um viðbrögð alþjóðlega háskólasamfélagsins við þeim þjóðernishreinsununum sem nú eiga sér stað.

Við neitum að standa hljóð hjá á meðan ísraelsk stjórnvöld fremja þjóðarmorð á Palestínu og tökum ákallinu frá starfsfólki Birzeit háskólans um að uppfylla akademíska skyldu okkar um að afhjúpa óréttlæti með því að leita ávallt sannleikans, halda fjarlægð frá ríkisstyrktum áróðri og að gera þá sem standa fyrir þjóðarmorði, sem og þá sem það styðja, ábyrga fyrir gjörðum sínum.

Með þessari yfirlýsingu göngum við til liðs við akademískar stofnanir um allan heim sem styður frelsisbaráttu Palestínu, fordæmir þjóðarmorð og lítur ekki undan á meðan ísraelsk stjórnvöld slátra þúsundum almennra borgara fyrir allra augum.

Við syrgjum alla almenna borgara sem hafa verið drepnir. Okkur hryllir við þeim ítrekuðu fjöldamorðum og stríðsglæpum sem hafa átt sér stað á Gaza síðustu vikur og hafa haft skelfilegar afleiðingar á líf almennra borgara. Við verðum nú vitni að skipulögðum þjóðernishreinsunum og stigvaxandi þjóðarmorði ísraelskra hersins á Gaza. Á sama tíma hefur ofbeldi í garð Palestínufólks á Vesturbakkanum, jafnt af hálfu ísraelska hersins sem og landtökufólki, vaxið til muna á síðustu dögum og vikum.

Við tökum undir með aðalritara Sameinuðu þjóðanna þegar hann segir að rót ofbeldisins sé samfellt og sívaxandi ólöglegt hernám ísraelskra stjórnvalda á palestínsku landi. Ofbeldi landtöku- og nýlenduveldis Ísraels í 75 ár er vel skjalfest og flokkast undir stríðsglæpi samkvæmt Sameinuðu þjóðunum. Það sama á við um aðskilnaðarstefnu (apartheid) Ísraelsríkis (sjá einnig hér) sem brýtur gegn Genfarsáttmálanum og alþjóðlegum mannúðarlögum.

Ólöglegt hernám, landrán ísraelskra stjórnvalda og glæpir þeirra gegn mannkyni hafa verið studdir af vestrænum leiðtogum, hinu vestræna alþjóðasamfélagi sem og alþjóða- og fjármálastofnunum þess, og nú sjáum við þessa valdhafa koma markvisst í veg fyrir vopnahlé á Gaza. Á sama tíma sjáum við vestrænt alþjóðasamfélag halda áfram að endurskapa og halda uppi ríkjandi orðræðu sem afmennskuvæðir palestínsku þjóðina og skapar réttlætingu fyrir ítrekuðum fjöldamorðum á saklausum borgurum.

Sem starfsfólk akademíkskrar stofnunar vitum við hversu mikið vald fylgir þekkingu og orðræðu. Við erum meðvituð um skyldu okkar til að iðka þekkingarsköpun af ábyrgð. Við teljum það vera hlutverk okkar að stuðla að réttlátari heimi og nota vettvang okkar til þess að tala gegn heimsvaldastefnu, nýlendustefnu og þjóðarmorði og bregðast við þegar við verðum vitni að slíku. Við viðurkennum frelsisbaráttu Palestínu sem hluta af stærri baráttu gegn kúgun, kerfisbundnu ofbeldi og nýlenduhugafari sem hefur endurskapað sig í samtímanum í nýrri birtingarmynd eins og eftirlendufræði hafa afhjúpað.

Við hvetjum íslensk stjórnvöld, sem og alþjóðasamfélagið, til þess að beita sér fyrir því að framferði ísraelskra stjórnvalda verði stöðvað og neyðaraðstoð komið inn á Gaza sem fyrst. Við hvetjum alþjóðasamfélagið til þess að samþykkja ekki óbreytt ástand (e. status quo) og viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu, styðja afnýlenduvæðingu hernuminna palestínskra svæða sem og orðræðu og þekkingar, og að beita sér fyrir því að enda aðskilnaðarstefnuna.

Óbreytt ástand þýðir fyrir palestínsku þjóðina að búa áfram við nýlendustefnu ísraelskra stjórnvalda og herkví sem hefur verið um Gaza síðustu 16 ár. Herkví sem er stjórnað úr lofti, á landi og frá sjó af ísraelskum stjórnvöldum sem geta slökkt á rafmagni, gasi, vatni og matvælasendingum þegar þeim hentar. Óbreytt ástand þýðir fyrir palestínsku þjóðina áframhaldandi fjöldamorð og stríðsglæpir, landrán og landtökubyggðir, skemmdir á palestínskum innviðum, mannréttindabrot, óréttlæti og valdbeiting sem hefur verið réttætt með lýðræðisorðræðu.

Palestínska þjóðin hefur kallað eftir sniðgöngu á akademískum stofnunum í Ísrael og ákall Birzeit felur í sér slíka hvatningu. Það er þekkt að akademískar stofnanir í Ísrael eru virkir þátttakendur og þar af leiðandi samsekar í nýlendustefnu, landráni, þjóðernishreinsunum og aðskilnaðarstefnu Ísraelsríkis. Þær taka meðal annars þátt í þróun vopna og tækni í hernaðarlegum tilgangi sem og þróun á hernaðaraðgerðum og -kenningum. Þar að auki taka akademískar stofnanir þátt í hvítþvotti og réttlætingu á stríðsglæpum stjórnvalda, kúgun á gagnrýnendum á Ísraelsríki, skerðingu á tjáningarfrelsi nemenda og kerfisbundinni mismunun í garð palestínskra nemenda.

Sniðganga er friðsamleg leið til þess að lýsa yfir vanþóknun á framferði ísraelskra stjórnvalda og styðja palestínsku þjóðina. Fyrirmynd hins alþjóðlega ákalls um sniðgöngu eru þær aðferðir sem beitt var gegn Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar þar í landi og eru taldar hafa átt ríkan þátt í að fella hana að lokum.

Sem akademískt starfsfólk munum við sniðganga akademískar stofnanir í Ísrael og afþakka samstarf við ísraelskar menntastofnanir og akademískt starfsfólk** sem starfar fyrir stofnanir sem eru samsekar þjóðarmorði þar til stjórnvöld þar í landi láta af stríðsglæpum og aðskilnaðarstefnu og hætta þjóðernishreinsunum á Gaza og Vesturbakkanum. Við munum hins vegar leggja okkur fram við að styðja og auka samvinnu við akademískt starfsfólk í Palestínu.

*https://www.birzeit.edu/sites/default/files/upload/openletterfrombirzeituniversity-final.pdf

**Þetta á ekki við um akademískt starfsfólk eða stofnanir sem hafa hafnað nýlendustefnu, aðskilnaðarstefnu, landráni og þjóðernishreinsunum ísraelska ríkisins á Palestínu og taka þátt í akademískri sniðgöngu.“

Yfirlýsinguna ásamt undirskriftum má finna á slóðinni fyrirpalestinu.wordpress.com.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí