ASÍ segir Íslandi stillt upp með ríkjum sem heimila Ísrael að stunda þjóðernishreinsanir

Hernaður 2. nóv 2023

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fordæmir þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að sitja hjá í atkvæðagreiðslu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé í Ísrael og Palestínu. Með þessari ákvörðun hafa þau stillt Íslandi upp með þeim ríkjum sem heimila ísraelskum stjórnvöldum að hafa alþjóðalög að engu í hernaðaraðgerðum sínum, stunda þjóðernishreinsanir, drepa almenna borgara, hrekja þá frá heimilum sínum og svipta þá lífsnauðsynjum. Ákvörðunin samræmist ekki stefnu Íslands um að viðurkenna og virða sjálfstæði Palestínu.

Miðstjórn tekur undir með ályktunum alþjóða verkalýðssambandsins (ITUC) frá 9. og 20. október sl. þar sem kallað er eftir tafarlausu vopnahléi og fordæmir hryðjuverk Hamas-samtakanna gegn almennum borgurum og hefndaraðgerðir Ísraela sem hafa leitt til fjöldamorða og flokkast undir stríðsglæpi. Sprengjuárásir Ísraelshers á Gaza hafa nú staðið linnulaust í tæpar fjórar vikur.  Í skugga þeirra hafa Ísraelar auk þess veitt landtökumönnum, sem eru studdir af her og lögreglu, leyfi til að hrekja Palestínumenn af landi sínu og heimilum á Vesturbakkanum. Hér fer fram fullvalda ríki með einn öflugasta her heims gegn íbúum lands sem hefur búið við hernám þess sama ríkis í áratugi.

Hjálparsamtök eiga í miklum erfiðleikum með að koma nauðsynjavörum til fólks og alvarlegur skortur er á vatni, mat og lyfjum. Almennir borgarar geta ekkert farið og yfir þrjú þúsund og fimm hundruð börn hafa látið lífið í átökunum.

Vopnahlé er eina leiðin til þess að bregðast við þessu ástandi – og það er skylda ríkja heims að þvinga Ísrael að samningaborðinu áður en það er um seinan. Þess í stað hafa sum valdamestu ríki heims réttlætt aðgerðir Ísraela undir þeim formerkjum að þeir eigi rétt á því að verja sig. En sá réttur veitir engum leyfi til að brjóta alþjóðalög og skeyta engu um mannfall almennra borgara. Með afstöðuleysi sínu hafa íslensk stjórnvöld veitt ofbeldisverkum blessun sína. Svonefnt „mannúðarhlé“ sem stjórnvöld hafa gert að lykilatriði í málflutningi sínum er pólitískt fegrunaryrði sem er til þess eins fallið að gera skammvinnt hlé á hernaðaraðgerðum í þeim tilgangi að koma nauðsynjum til fólks.  Með því er ekki verið að krefjast vopnahlés og að árásum á almenna borgara linni.

Með viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu skipaði Ísland sér í hóp þeirra ríkja sem vilja vekja athygli á því óréttlæti sem íbúar Palestínu hafa mátt búa við í meira en hálfa öld: hernámi Ísraela, daglegu ofbeldi, skertu ferðafrelsi og aðskilnaðarstefnu. ASÍ krefst þess að íslensk stjórnvöld fylgi eigin stefnu og beiti sér af fullum þunga fyrir tafarlausu vopnahléi og endalokum hernáms Ísraels í Palestínu.

Frétt af vef Alþýðusambandsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí