Réttindasamtökin Miðstöð stjórnarskrárvarinna réttinda eða Center for Constitutional Rights (CCR) hafa lagt fram kæru á hendur Joe Biden Bandaríkjaforseta fyrir að aðild að „þjóðarmorði“ á Gasa. Kæruna lögðu samtökin fram á mánudag, fyrir hönd mannréttindasamtaka í Palestínu og bandarískra ríkisborgara sem eiga ættingja á Gasa.
„Fjöldi leiðtoga ísraelskra stjórnvalda hafa tjáð skýran ásetning um þjóðarmorð og beitt lýsingum á Palestínumönnum til afmennskunar, þar á meðal með ummælum um „skepnur í mannsmynd“, stendur í kynningartexta sem samtökin létu fylgja kærunni. Þau segja að slíkar „yfirlýsingar um ásetning,“ í samhengi við dráp á fjölda Palestínumanna, feli í sér sönnunargögn um framvindu glæpsins þjóðarmorð.
Í umfjöllun Al Jazeera um málið kemur fram að fjöldi lögfræðinga, réttindasamtaka og mannúðarsinna hafi einnig kallað aðgerðir Ísraelsríkis á Gasa þjóðarmorð.
Í kærunni er tilgreint að Bandaríkin séu nánasti bandamaður Ísraels og veiti ríkinu mesta hernaðaraðstoð: frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafi Ísrael tekið við meira magni hergagna frá Bandaríkjunum en nokkurt annað ríki. Þess vegna „gætu Bandaríkin haft fælandi áhrif á þá ráðamenn í Ísrael sem nú leitast við að fremja þjóðarmorð gegn íbúum Palestínu.“
Þess í stað segja samtökin að Biden, ásamt utanríkisráðherranum Antony Blinken og varnarmálaráðherranum Lloyd Austin hafi „hjálpað hinum alvarlegasta glæp áleiðis“ með því að halda áfram að veita Ísrael skilyrðislausa aðstoð á sviði hernaðar og utanríkismála, og grafa samtímis undan viðleitni alþjóðasamfélagsins til að stöðva sprengjuárásir Ísraels á Gasa.