Breskur blaðamaður lýsir því hvað hann sá og hvað ekki í myndefni Ísraelshers

Ísraelsk stjórnvöld hafa í fórum sínum myndefni frá árásum Hamas á Ísrael þann 7. október síðastliðinn. Sum myndskeiðanna voru tekin af árásarmönnunum sjálfum, með smáum myndavélum sem þeir báru á höfði eða búk, önnur koma úr öryggismyndavélum á svæðum árásanna. Alls eru þetta sagðar þúsundir klukkustunda af myndefni. Sumt af því er eða hefur verið í dreifingu meðal almennings eða þeirra sem leggja sig eftir að sjá það, á samfélagsmiðlum og lokuðum rásum, annað ekki. Úr þessu myndefni hefur Ísraelsher látið klippa 43 mínútna langa mynd sem sýnd hefur verið fulltrúum stjórnvalda og fjölmiðla á lokuðum sýningum.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er á meðal þeirra sem hafa verið viðstaddir sýningu þessarar myndar, en hann situr fyrir Íslands hönd í flóttamannanefnd Evrópuráðsins. Í blaðagrein sem hann skrifaði og birtist í Vísi í liðinni viku skrifaði hann meðal annars: „Ég gat ekki horft á það allt sökum hryllings. Má þar nefna þegar barnshafandi kona var skorin lifandi á kvið, fóstrið tekið og afhöfðað. Nokkrir þingmenn horfðu á það. Kornabarn var sömuleiðis afhöfðað og hefur höfuð þess ekki fundist. Unglingur var afhöfðaður með garðyrkjuverkfæri.“

Breski blaðamaðurinn Owen Jones hefur nú séð sama myndefni, á lokaðri sýningu á vegum Ísraelshers í síðustu viku. Hann greindi frá þessu á YouTube í gær, mánudag, í 25 mínútna löngu myndbandi þar sem hann segir frá því hvað bar þar fyrir augu og hvað ekki. Vert er að vara lesendur við myndrænum lýsingum ofbeldisverka í eftirfarandi frásögn.

Staðfestir stríðsglæpi

Áður en Jones greinir frá innihaldi myndarinnar segist hann hafa hugsað sig vandlega um hvor thann myndi þiggja boð um að sjá hana, þar sem hann sé, „eins og fólk almennt … frábitinn því að horfa á manneskjur þola skelfilegt ofbeldi.“ Hann hafi hins vegar litið svo á að sem blaðamanni færi betur á því að hann sæi myndefnið fyrst honum bauðst það.

Þá segir hann að tilgangur hersins með sýningu efnisins hafi verið ljós frá upphafi: að honum, eins og öðrum viðstöddum, væri ætlað að „bera vitni um hryllinginn sem hefði verið framinn af Hamas en einnig að færa fram réttlætingar á árásum Ísraels á Gasa.“

Jones segir að myndefnið hafi verið átakanlegt á að horfa, eins og hann hafi búist við. Hann sagðist þegar hafa séð nokkurn hluta þess, sem finna megi á almannafæri á netinu. Efnið staðfesti það sem hann hafi vitað og talað skýrt um frá upphafi: að Hamas hafi framið stríðsglæpi. Í því samhengi tekur hann fram að enginn málstaður réttlæti að óbreyttir borgarar séu drepnir.

Loks segir Jones ljóst að hið 43 mínútna langa myndband sem herinn sýnir sé ekki valið af handahófi heldur megi ætla að þar sjáist versta ofbeldið sem ísraelsk yfirvöld hafa myndir af. Hann segist ekki meina það sem gagnrýni, þannig mætti búast við að hvaða ríki sem er ynni úr efninu, „en raunverulega sjálfstæðir blaðamenn eða sagnfræðingar myndu ekki álykta að þeir geti lagt nákvæmt mat á allt eðli þess sem átti sér stað þann 7. október út frá þessu úrvali.“

Versta augnablik myndarinnar

Í upphafi myndbandsins segir, að sögn Jones, að 900 óbreyttir ísraelskir borgarar og 300 ísraelskir hermenn hafi verið drepin þann 7. október.

Hann segir að versta augnablikið í myndskeiðinu hafi sér þótt vera að horfa á tvo litla drengi og föður þeirra hlaupa í átt að skjóli þar sem Hamas-liði henti síðan handsprengju að þeim. Hann hafi þannig drepið föðurinn en sært drengina: „Þú sérð þá í áfalli, þú sérð þá kjökrandi, spyrjandi hvers vegna þeir eru enn á lífi, og síðan sérðu Hamas-liðann kæruleysislega taka kókflösku úr ísskáp fyrir framan þá …“ Jones segir að atriðið muni dvelja með honum það sem hann á ólifað.

Hann nefnir fleiri átakanleg dæmi um stríðsglæpi sem sjá megi á myndskeiðunum. Hamas hafi þannig framið skelfilega glæpi „en sumar háværar ásakanir eru ekki studdar af þessu myndefni,“ segir hann. „Okkur var sagt að framdar hefðu verið víðtækar afhöfðanir, að því meðtöldu að 40 smábörn hefðu verið afhöfðuð. Í myndefninu sjáum við látinn hermann afhöfðaðan, sem var nógu grimmdarlegt, ég leit undan, gat ekki horft. En það er ekki það sama og afhöfðun sem aðferð við aftöku. Hin augljóslega afar ónotalega undantekningin er misheppnuð tilraun til að afhöfða deyjandi verkamann úr hópi innflytjenda, með garðáhaldi. Hryllingur á að horfa. Ef einhverjar aðrar lifandi manneskjur voru afhöfðaðar sést það ekki í þessu myndefni. Ef pyntingar fóru fram eru ekki heldur neinar sannanir fyrir því á þessum upptökum. Ef nauðganir og kynferðisofbeldi átti sér stað þá sjáum við það ekki á þessum upptökum heldur.“

„Við sjáum engin börn drepin“

Jones segir staðfastlega: „Við sjáum engin börn drepin. Hamas drap ekki þessa veslings tvo litlu drengi, til dæmis, sannarlega ekki fyrir framan myndavél, og ég ímynda mér að okkur hefði verið greint frá því ef þeir hefðu verið drepnir.“

Jones segist hins vegar vita að einhver sem var viðstaddur sýninguna hafi haldið því fram að þar mætti sjá börn drepin. Hann segir það hafa komið sér á óvart „vegna þess að ef það er eitthvað sem ég myndi áreiðanlega muna eftir er það barnsdráp.“ Hann segist því hafa spurt viðkomandi um þetta. Sá hafi svarað að sést hafi myndskeið af hryðjuverkamönnum Hamas gera hróp að ungri stúlku, um tíu ára gamalli, þar sem hún faldi sig undir skáp eða borði, og síðan skjóta til hennar. Jones segist ekki muna eftir slíku atviki. Hann segist hafa spurt aðra blaðamenn sem geri það ekki heldur.

Jones segir að í myndefninu hafi sannarlega sést lík barna. Dráp þeirra sjáist hins vegar ekki og því staðfesti myndefnið ekki að þau hafi verið skotmörk Hamas-liða. „Það þýðir ekki að ekkert slíkt hafi átt sér stað, aðeins að það er ekki í myndefninu sem ísraelsk yfirvöld hafa fært fram,“ segir hann.

Þá segir Jones að einn skelfingu lostinn „djammari“ í bíl sé spurður, á einu myndskeiðanna: „Ertu hermaður?“ Hann segir þetta sýna að einhverjar tilraunir hafi þó verið gerðar til að greina á milli óbreyttra borgara og hermanna. Hversu umfangsmiklar þær tilraunir voru sé þó ekki gott að segja.

Jones greinir frá hljóðupptöku sem hafi verið skeytt við myndefnið, sem hann segir óstaðfesta á þessu stigi. Sá kvalalosti sem sú tiltekna hljóðupptaka gefi til kynna sé því ekki víst að hafi verið til staðar. Hins vegar birtist „viðurstyggilegur kvalalosti“ í myndefni sem engin ástæða sé til að draga í efa. Jones nefnir til dæmis að árásarmennirnir hafi vísað til látinna óbreyttra borgara sem hunda og beðið skelfingu lostnar, særðar manneskjur um að taka „selfie“, í þann mund sem er ekið með þær burt. Hann nefnir önnur dæmi, um meðferð líkamsleifa hinna látnu, sem séu aðgengileg þeim sem bera sig eftir þeim.

Að dýpka mennskuna eða deyfa hana

Blaðamaðurinn segist líta svo á að markmið Ísraelshers með sýningunni hafi verið að sjá til þess að þegar áhorfendur sjá hvað á sér stað á Gasa, hugsi þeir „aftur til þess sem við sáum á þessari kvikmyndasýningu, munum veslings, særðu litlu drengina sem hrópuðu á föður sinn, dáinn – þurrkum svo út hryllinginn og angistina sem við finnum til vegna saklausra á Gasa, þannig að við getum haldið áfram að styðja hernaðarárásir sem munu kosta fjölda lífa enn. Þetta hefur gerst í gegnum söguna, að fólk er hvatt til að brjóta niður samkennd sína með þjáningu annarra, með því að velja að einblína aðeins á þjáningu sumra. Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki að gera það. Þessir tveir drengir sem ég er alltaf að nefna eru í mínum huga á engan hátt frábrugðnir krökkunum sem Ísraelsríki drepur vitandi vits.“

Undir lok pistilsins dregur Jones saman þann lærdóm sem hann segist vilja draga af því að horfa á myndefnið, og svarar um leið þeirri gagnrýni sem hann hefur sætt fyrir einarða afstöðu sína gegn árásum Ísraels á Gasa:

„Þú stendur frammi fyrir vali, þegar þú gerir þér grein fyrir hryllingnum sem manneskjur eru færar um að valda hver annarri. Annað hvort leyfirðu þessum hryllingi að dýpka mennsku þína eða þú notar hryllinginn til að deyfa hana, þannig að þú getir verið samsekur í öðrum og oft jafnvel meiri hryllingi.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí