Hafnarverkamenn í Barcelona tilkynntu á þriðjudag að þeir neiti þeim skipum um hafnarþjónustu sem bera hergögn, að þeir hafni ofbeldinu sem Ísrael beitir á hernumdu svæðunum og að þeir saki Sameinuðu þjóðirnar um bregðast hlutverki sínu.
Verkamennirnir sögðu í sameiginlegri yfirlýsingu til stéttarfélags síns að það sé skylda þeirra að lúta og verja Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, á tímum þegar löndin sem undirrituðu hana hafa gleymt henni.
Í yfirlýsingu þeirra má lesa: „Við ákváðum í sameiningu að leyfa ekki skipum sem flytja hergögn neina starfsemi í höfn okkar, með það eitt að augnamiði að verja hvaða óbreyttu borgara sem er, óháð staðsetningu þeirra, þar sem ekkert réttlætir að óbreyttum borgurum sé fórnað.“
Í yfirlýsingunni var kallað eftir tafarlausu vopnahléi á Gasa, að leitað verði friðsamlegra lausna á átökunum og að Sameinuðu þjóðirnar láti af samsekt sinni og gáleysi og verji alþjóðalög.
Stéttarfélög í Belgíu taka sömu afstöðu
Í frétt Middle East Monitor um málið kemur fram að viku fyrr hafi stéttarfélög verkafólks í flutningastarfsemi í Belgíu skorað á félagsmenn sína að taka ekki þátt í flutningum hergagna á leið til Ísraels. Í sameiginlegri yfirlýsingu sögðu belgísku stéttarfélögin: „Á meðan þjóðarmorð á sér stað í Palestínu annast verkamenn á fjölda flugvalla í Belgíu vopnaflutninga til vígvallarins.“
Talsmaður belgískra stjórnvalda neitaði að svara spurningum um hvort vopn væru flutt gegnum landið til átakasvæðisins.