Suli heitir ungur maður frá Gasa-svæðinu, sem fékk viðurkenningu réttinda sinna sem flóttamaður á Íslandi á síðustu árum. Systir hans, Asil, er 17 ára gömul. Eftir að Ísraelsher hóf loftárásir á Gasa, þann 7. október síðastliðinn, leitaði hún skjóls í borginni Khan Yunis á suðurhluta Gasa, ásamt foreldrum þeirra, annarri systur og þremur frændum á aldrinum tveggja til fimm ára. Í loftárás sem Ísraelsher gerði á svæðið þann 17. október dóu fjögur úr fjölskyldunni: móðir og faðir Sulis, önnur systranna og einn litlu frændanna, fimm ára.
Eftir lifa systirin Asil og tveir frændur, tveggja og fimm ára gamlir. Þetta kemur fram í færslu sem Aron Bergmann Magnússon birti á Facebook nú á þriðjudagskvöld. Þar kemur fram að Asil er komin til Egyptalands.
Í færslunni lýsir Aron Suli sem „ótrúlega indælum strák,“ sem hafi loksins fengið hæli á Íslandi, en hann hafi sótt um það árið 2019. Íslensk stjórnvöld hafi þá viljað senda hann aftur til Grikklands, þar sem þau „viðurkenndu ekki að ástandið á Gaza væri lögmætt til að réttlæta stöðu hans sem flóttamaður.“ Aron segir að ef ekki hefði verið fyrir þrýsting frá vinum sínum á Íslandi hefði Suli, eins og margir aðrir flóttamenn, verið handtekinn og sendur úr landi um miðja nótt. Hann hafi nú fasta búsetu hér, þar sem hann býr og starfar.
„Á meðan hefur ástandið á Gaza sýnt hversu rangt þetta upphaflega mat var,“ skrifar Aron, „þar sem flestir í fjölskyldu Suli féllu nýlega í loftárás Ísraelshers. Eini eftirlifandi af nánustu fjölskyldu Suli er 17 ára systir hans Asil, sem brenndist illa og hefur verið skorinn af vinstri fæti fyrir ofan hné.“
Tjónið sem Suli varð fyrir í árásinni er tilefni færslu Arons, sem spyr hvort einhver geti hjálpað stúlkunni, mögulega með aðkomu stoðtækjafyrirtækis.