Valdið hefur nú varið sig í brottflutningsmálum með opinberum kerfum sér til stuðnings og Jón Gunnarsson aðalhöfundur ómannúðlegrar stefnu í útlendingamálum vill ekki tjá sig hvorki um mál palestínsku móðurinnar né lögin almennt. Honum eru forréttindi sín til friðhelgi og ferðafrelsis efst í huga.
Í nótt þegar enn sást hvorki tangur né tetur af palestínsku móðurinni sem var líklega brottflutt með börnin sín í morgun var Jón Gunnarsson fyrrum dómsmálaráðherra að koma úr flugi. Jón var m.a. spurður hvort honum þætti nýju útlendingalögin sem hann kom á vera mannúðleg. Hann vék sér undan spurningum blaðamanns.
Starfsmenn ISAVIA mættu síðar á vettvang og bönnuðu blaðamanni að taka myndir á flugstöðinni án leyfis. Þegar spurt var um hvert væri hægt að sækja um leyfi var svarið að það væri á skrifstofutíma en nú væru allir heima sofandi. Þegar blaðamaður minnti á réttinn til fréttaflutnings og upplýsingaskyldu til almennings og minnti á mál Hussein fjölskyldunnar fyrr á árinu var hann sakaður um hótanir í garð ISAVIA. Lögreglan af Suðurnesjum var mætt á vettvang skömmu síðar. Þar fengust þær upplýsingar að innan flugstöðvarinnar væri tveggja herbergja íbúð sem líklega væri notuð í brottflutningstilfellum sem þessum.
Athygli vekur að nú er ekki nokkur leið fyrir fjölmiðla eða fulltrúa mannréttindasamtaka að fylgjast með brottvísunum sem þessum og tryggja að ekki sé brotið á fullorðnu fólki, fötluðu fólki og veiku, hvað þá börnum. Valdið hefur varið sig og opinberir starfsmenn taka þátt í ómannúðlegum aðgerðum.