Konur bera meiri þunga af vinnuálagi vegna heimilisstarfa og barnauppeldis en karlar

Verkalýðsmál 29. nóv 2023

Haldinn var blaðamannafundur í BSRB-húsinu í morgun þar sem kynntar voru rannsóknarniðurstöður Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs á íslenskum vinnumarkaði. Varða var stofnuð í maí 2020 af Alþýðusambandi Íslands og BSRB. Framkvæmdastjóri Vörðu Kristín Heba Gísladóttir fór yfir niðurstöður spurningakönnunarinnar meðal foreldra barna á aldrinum 12 mánaða til 12 ára.

Kristín Heba sagði að með þessari fyrstu rannsókn af þremur á íslenskum vinnumarkaði vill stofnunin kortleggja stöðu barnafjölskyldna á aldursbilinu 12 mánaða til 12 ára á Íslandi. Hún sagði að þetta verkefni væri hluti af stærra rannsóknarverkefni sem Varða stendur fyrir – að rannsaka alla þætti vinnumarkaðarins með tilliti til samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þá tilkynnti Kristín Heba á fundinum að Varða hafi hlotið styrk frá VOR vísindasjóði Orkuveitu Reykjavíkur til að klára annan og þriðja hluta þessa rannsóknarverkefnis sem kynnt verður síðar þegar því er lokið. Markmkiðið væri að hjálpa barnafjölskyldum og varpa ljósi á stöðu foreldra í íslensku samfélagi.

Í máli hennar kom fram að konur fara lengur út af vinnumarkaði en karlar, þær eru á lægri launum en karlar, þurfa almennt að vera fleiri daga frá vinnu en karlar vegna veikinda barna, þær eru í mun meiri mæli en karlar í hlutastörfum sem leiðir til þess að þeim gefast færri tækifæri en karlar til að þróast í starfi og fjárhagsstaða einstæðra foreldra er mun verri en þeirra sem eru gift eða í sambúð. Hún sagði að það mætti skrifast á hvernig styrkjakerfin hafa verið skorin niður sem bitnar á þeim foreldrum sem eiga ekki bakland.

Krefjast þarf aðgerða til þess að útrýma misrétti og launamun kynjanna
Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB sagði á fundinum að það væri mjög mikilvægt og dýrmætt að hafa aðgang að rannsóknum Vörðu sem sýna annan raunveruleika en almennt er haldið fram. Sérstakar aðgerðir þurfi fyrir einstæða foreldra þegar kemur að ummönnun barna.


Sonja ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, á blaðamannafundi Vörðu í morgun.

„Það er svo ótrúlega dýrmætt að hafa aðgang að þessum tölum því það er mjög margt nýtt í þessari rannsókn. Ekki síst hvað varðar það að við búum í samfélagi þar sem gjarnan er litið svo á að við séum komin miklu lengra í jafnrétti kynjanna heldur en við erum mögulega. Við finnum þetta líka í umræðunni um sex tíma gjaldfrjálsa leikskóla sem þýðir hækkun á tímum þar sem fólk er með börnin sín lengur en sex tíma. Þegar við og reyndar verkalýðshreyfingin öll hefur verið að benda á að það eru frekar konur sem draga úr störfum sínum vegna þess að þær hafa ekki næga peninga til að greiða fyrir leikskólavist. Ef sex tímarnir verða gjaldfrjálsir þurfa þær síður að draga úr störfum sínum. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þessar tölur í rannsókninni eru meira afgerandi varðandi stöðuna en ég átti von á.“

Þá sagði Sonja Ýr að stjórnvöld væru ekki að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að stuðla að breytingum hvað varðar jafnrétti kynjanna á vinnumarkaðnum. Það sem kæmi líka fram í skýrslunni, er að þriðjungur kvenna sem væri í hlutastarfi sögðu meginástæðuna vera vegna fjölskylduábyrgðar. Hún sagði það vera staðreynd, að þetta hlutfall hafi ekki breyst í áratug, allt frá því samnorræn könnun var gerð á vinnumarkaðnum 2014.

„Eitt af stóru vandamálunum í þessu er, að erum við mótuð af samfélagi sem er ennþá með þær ómeðvituðu hugmyndir um fyrirvinnuhlutverk karla, og að konur eigi að bera meginábyrgðina, sem sumir telja jafnvel ennþá, hvort sem þeir séu meðvitaðir um það eða ekki, að konum sé eðlislægara að sjá um börn. Í samfélagi nútímans er ekkert er fjarri sanni í þeim efnum. Þegar kemur að því að reyna að eyða misrétti kynjanna þarf að stofna til aðgerða sem beinast að hverri ástæðu fyrir sig. Við skulum ekki láta annan áratug líða án aðgerða. Við þurfum að krefjast aðgerða til þess að útrýma þessum ástæðum fyrir misrétti kynjanna og launamun kynjanna,“ sagði Sonja Ýr.

Einblína á í komandi kjarasamningum á kynjamisrétti
Forseti ASÍ, Finnbjörn A. Hermannssonm, tók til máls og sagði að það skiptir miklu máli að Varða sé með samtímarannsóknir á því hver staða kynjanna er á vinnumarkaðnum.


Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ á blaðamannafundinum í morgun.

„Ég vil líta á þessa rannsókn úr frá sjónarmiðum íslenskra heimila, en líka út frá því hvernig þróunin er milli karla og kvenna á vinnuarkaðnum. Eins og Sonja nefndi áðan eru aðgerðir stjórnvalda, eins og við sjáum í sveitarfélögunum ekki samkvæmt raunveruleikanum. Stundum finnst mér að raunveruleikinn og óskir um hvað maður langar til að hann sé krefjist samtals. Það sem við getum gert í kjarasamningum er að setja kastljósið á vandann en það er líka annar vandi sem blasir við, og það er að breyta hugarfarinu í þessum efnum. Ég vil segja að frá því að ég var ungur maður hefur orðið mikil hugarfarsbreyting. En við verðum að gera betur. Við viljum að það sé val hver tekur þriðju vaktina en ekki að það sé gert í neyð vegna þess að sá sem er með lægri tekjurnar, oftast konan fer út af vinnummarkaðnum. Þarna eigum við langt í land og þessu þarf að breyta. Við eigum að einblína í komandi kjarasamningum á það að jafna þennan mun og kynbundinn launamun. Við getum alltaf stefnt í rétta átt með reglubundnum rannsóknum á vinnumarkaðnum eins og þessari hjá Vörðu,“ sagði forseti ASÍ.

Frétt af vef Sameykis.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí