Ráðamenn í Ísrael virðast logandi hræddir um að sagan endurtaki sig og að sniðganga á útflutningsvörum þeirra verði þeim af falli, líkt og í Suður-Afríku. Í það minnsta hefur allt verið reynt til að berja niður BDS-hreyfinguna svokölluðu síðan hún var stofnuð árið 2005. Svo langt hefur það gengið að í Bandaríkjunum er nánast ólöglegt að ræða þetta. En hér á Íslandi eru margir sem vilja styðja Palestínu í verki en það vill oft stranda á því að oft er ekki einfalt að sjá hvort vara sé frá Ísrael.
Íslandsdeild BDS er með lausn fyrir það fólk. Einfaldast sé að skoða strikamerkið og ef það byrjar á 729, þá er varan líklega frá Ísrael. Hreyfingin bendir á í færslu á Facebook að allir geti lagt sitt að mörkum, með því einu að skoða strikamerkin á því sem maður verslar. Hér fyrir neðan má lesa pistil samtakanna í heild sinni.
Hvað er sniðganga fyrir Palestínu?
Sniðganga (e. boycott) er einn hluti af BDS, hinu alþjóðlega ákalli um sniðgöngu (B), afturköllun fjárfestinga (D) og þvinganir og refsiaðgerðir (S) gegn Ísrael þar til ísraelsk stjórnvöld fylgja alþjóðalögum og viðurkenna mannréttindi palestínsku þjóðarinnar.
Ákallið, sem hófst árið 2005 að frumkvæði palestínsku þjóðarinnar, felur meðal annars í sér hvatningu til einstaklinga um allan heim til þess að sniðganga framleiðslu og fyrirtæki, jafnt ísraelsk sem og alþjóðleg, sem hagnast á hernámi, kúgun og aðskilnaðarstefnu ísraelskra stjórnvalda gagnvart palestínsku þjóðinni.
Fyrirmynd ákallsins eru þær aðferðir sem beittar voru gegn Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar og eru sagðar hafa átt ríkan þátt í að fella hana að lokum.
Ein af sniðgönguherferðunum snýr að sniðgöngu á ísraelskum vörum. Hver sem er getur tekið þátt í því að sniðganga ísraelsk fyrirtæki og framleiðslu sem og fyrirtæki sem styðja, styrkja og/eða hagnast á landráni og stríðsglæpum ísraelskra stjórnvalda með því kaupa ekki vörur sem eru framleiddar af ísraelsku fyrirtæki eða alþjóðlegu vörumerki sem tengist Ísrael með einhverjum hætti.
Með því að svara ákallinu um sniðgöngu geta einstaklingar um allan heim stutt palestínsku þjóðina í baráttu sinni fyrir tilverurétti sínum, frelsi og réttlæti.
Helstu viðskipti sem eiga sér stað á milli Íslands og Ísrael eru með matvæli, íhluti, vélbúnað og tæknibúnað. Á Íslandi má því finna nokkuð magn af ísraelskri framleiðslu, meðal annars í matvörubúðum, apótekum, á hárgreiðslustofum, raftækjaverslunum og öðrum sérverslunum.
Vegna fjölda fyrirspurna um hvaða vörur eigi að sniðganga til stuðnings Palestínu mun BDS Ísland birta dæmi um ísraelska framleiðslu sem er til sölu á Íslandi í nokkrum póstum á næstu dögum.
Í millitíðinni viljum við benda á að besta leiðin til þess að sniðganga ísraelska framleiðslu er að skoða strikamerkið á vörunni, en ísraelsk framleiðsla er oftast með vörumerkið 729. Það er þó ekki algilt og því er mikilvægt að skoða líka hvaða upprunaland er skráð á vöruna (ekki sama og pökkunarland) og ef það er ekki augljóst, þá skal spyrja starfsfólk.
Þá viljum við hvetja fólk til þess að taka myndir og senda okkur ef það rekst á ísraelska framleiðslu svo við getum komið því áfram.