Forsætisráðuneytið boðaði í dag, mánudag, til málþings í samvinnu við þrjá háskóla, undir yfirskriftinni „Er þörf á breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar?“ Málþingið fór fram í húsnæði Háskólans í Reykjavík, og er raunar enn í gangi þegar þetta er skrifað. Á málþinginu er rætt um greinargerð Róberts Spánó, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands og fv. forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, og Valgerðar Sólnes, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, um hvort þörf sé á breytingum á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.
Ólafur Ólafsson, Salvör Þórarinsdóttir og Margrét Blöndal voru á meðal fundargesta. Á málþinginu, undir ræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, réttu þau og fleiri upp rauðmálaðar hendur, eins og mótmælendur hafa gert á fundum ráðamanna í Bandaríkjunum, til áminningar um blóðbaðið á Gasa og kröfugerðar um vopnahlé. Að sögn viðstaddra tóku einhverjir úr hópi fundarmanna undir mótmælin og klöppuðu fyrir aðgerðinni.
Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík og fundarstjóri á málþinginu sussaði á mótmælendur og sagði fundinn snúast um annað. Róbert Spánó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, „kunni sig betur“, sagði heimildamaður blaðamanns, „og tók undir með því að segja að rétturinn til að mótmæla sé mikilvægur og að hann sé virtur eða að við höfum hann.“