Musk tekur undir gyðingahatur og boðar „kjarnorku-málsókn“ gegn samtökum sem benda á það

Þann 15. nóvember, eða á miðvikudag í síðustu viku, birti einn notandi samfélagsmiðilsins X, sem áður hét Twitter, færslu þar sem hann sagði að „samfélög Gyðinga“ hafi „verið að kynda undir boðskap um hatur í garð hvíts fólks“. Færslunni svaraði Elon Musk, eigandi X, forstjóri Tesla og flesta daga um þessar mundir ríkasti maður heims, með ummælunum: „You have said the actual truth“ – Þar hittirðu naglann á höfuðið.

Samsæriskenningin sem Musk tók þarmeð undir, að Gyðingar standi í sameiningu á bakvið undirróður gegn fólki með ljósan húðlit er vel þekkt og skýrt dæmi um andsemítisma eða gyðingahatur. Fjöldi hægriöfgahópa í Evrópu og Bandaríkjunum ala á þessari hugmynd.

Færslan kostaði 2.600 milljarða – fyrir helgi

Hlutabréf í Tesla tóku dýfu í kjölfarið, úr tæpum 240 dollurum hvert bréf við upphaf fimmtudags í 234 við lokun markaða á föstudag. Þessi sex dollara mismunur jafngildir tæplega 19 milljörðum dollara í verðmæti eða 2.600 milljörðum króna. Líta má svo á þá fjárhæð sem verðmiðann á ótta fjárfesta við mögulegar afleiðingar af ummælum Musks í augnablikinu.

Óttinn er ekki tilhæfulaus eins og sýndi sig á föstudag þegar Apple og IBM, meðal annarra fyrirtækja, tilkynntu að þau myndu stöðva birtingu auglýsinga á X. Lionsgate, Disney, Paramount, Warner Bros og Discovery eru á meðal fyrirtækja sem gáfu út hliðstæða yfirlýsingu.

Musk kennir réttindasamtökum um

Musk kennir aftur á móti réttindasamtökum á við Anti-Defamation League (ADL) og the Center for Countering Digital hate um viðbrögð auglýsenda við ummælunum. Á laugardag lét hann vita af því að um leið og dómstólar opna nú á mánudag hyggist hann hefja lögsóknir með afli kjarnorkusprengja – „thermonuclear lawsuit“ gegn þeim samtökum sem hann segir hafa beitt sér gegn miðlinum eftir undirtektir hans við gyðingahatrið.

Þegar í september höfðu auglýsingatekjur X í Bandaríkjunum dregist saman um 60% á því ári sem þá var liðið frá því að Musk eignaðist miðilinn. Þá kenndi Musk einnig samtökum á við ADL um samdráttinn.

Sniðgangan nú að frumkvæði fyrirtækjanna

Í umfjöllun fréttamiðilsins AXIOS segir að fyrri herferðir um auglýsingasniðgöngu samfélagsmiðla á við Facebook og YouTube hafi ekki varað lengi. Það sem greini þetta tilfelli frá þeim flestum sé hins vegar að stórir auglýsendur á við Apple sniðgangi í þetta sinn ekki X til þátttöku í samræmdri herferð heldur hafi með hraði ákveðið að færa peningana sína annað til að verja eigið orðspor. „Það er auðveldara að stöðva birtingar en hefja þær á ný,“ hefur miðillinn eftir Ruben Schreurs, stjórnanda innan greiningarfyrirtækisins Ebiquity, sem segist gera ráð fyrir að fyrrnefnd stórfyrirtæki fari líklega mjög varlega í að hefja birtingar auglýsinga á X að nýju.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí