Þann 15. nóvember, eða á miðvikudag í síðustu viku, birti einn notandi samfélagsmiðilsins X, sem áður hét Twitter, færslu þar sem hann sagði að „samfélög Gyðinga“ hafi „verið að kynda undir boðskap um hatur í garð hvíts fólks“. Færslunni svaraði Elon Musk, eigandi X, forstjóri Tesla og flesta daga um þessar mundir ríkasti maður heims, með ummælunum: „You have said the actual truth“ – Þar hittirðu naglann á höfuðið.
Samsæriskenningin sem Musk tók þarmeð undir, að Gyðingar standi í sameiningu á bakvið undirróður gegn fólki með ljósan húðlit er vel þekkt og skýrt dæmi um andsemítisma eða gyðingahatur. Fjöldi hægriöfgahópa í Evrópu og Bandaríkjunum ala á þessari hugmynd.
Færslan kostaði 2.600 milljarða – fyrir helgi
Hlutabréf í Tesla tóku dýfu í kjölfarið, úr tæpum 240 dollurum hvert bréf við upphaf fimmtudags í 234 við lokun markaða á föstudag. Þessi sex dollara mismunur jafngildir tæplega 19 milljörðum dollara í verðmæti eða 2.600 milljörðum króna. Líta má svo á þá fjárhæð sem verðmiðann á ótta fjárfesta við mögulegar afleiðingar af ummælum Musks í augnablikinu.
Óttinn er ekki tilhæfulaus eins og sýndi sig á föstudag þegar Apple og IBM, meðal annarra fyrirtækja, tilkynntu að þau myndu stöðva birtingu auglýsinga á X. Lionsgate, Disney, Paramount, Warner Bros og Discovery eru á meðal fyrirtækja sem gáfu út hliðstæða yfirlýsingu.
Musk kennir réttindasamtökum um
Musk kennir aftur á móti réttindasamtökum á við Anti-Defamation League (ADL) og the Center for Countering Digital hate um viðbrögð auglýsenda við ummælunum. Á laugardag lét hann vita af því að um leið og dómstólar opna nú á mánudag hyggist hann hefja lögsóknir með afli kjarnorkusprengja – „thermonuclear lawsuit“ gegn þeim samtökum sem hann segir hafa beitt sér gegn miðlinum eftir undirtektir hans við gyðingahatrið.
Þegar í september höfðu auglýsingatekjur X í Bandaríkjunum dregist saman um 60% á því ári sem þá var liðið frá því að Musk eignaðist miðilinn. Þá kenndi Musk einnig samtökum á við ADL um samdráttinn.
Sniðgangan nú að frumkvæði fyrirtækjanna
Í umfjöllun fréttamiðilsins AXIOS segir að fyrri herferðir um auglýsingasniðgöngu samfélagsmiðla á við Facebook og YouTube hafi ekki varað lengi. Það sem greini þetta tilfelli frá þeim flestum sé hins vegar að stórir auglýsendur á við Apple sniðgangi í þetta sinn ekki X til þátttöku í samræmdri herferð heldur hafi með hraði ákveðið að færa peningana sína annað til að verja eigið orðspor. „Það er auðveldara að stöðva birtingar en hefja þær á ný,“ hefur miðillinn eftir Ruben Schreurs, stjórnanda innan greiningarfyrirtækisins Ebiquity, sem segist gera ráð fyrir að fyrrnefnd stórfyrirtæki fari líklega mjög varlega í að hefja birtingar auglýsinga á X að nýju.