Kolbrún Birna Hallgrímsdóttir Bachman, persónuverndarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segist hafa verið tvístígandi þegar henni var boðið að halda ræðu á samstöðufundi fyrir Palestínu, sem fór fram í Háskólabíó í dag. Hún segist hafa fyrst verið hrædd um að með því setti hún starf sitt í hættu, því það væri of mikil pólitík fyrir opinberan starfsmann.
„Þegar mér var boðið að koma og segja nokkur orð á samstöðufundinum fyrir Palestínu sem haldinn var í dag (VOPNAHLÉ STRAX!), þá hugsaði ég fyrst að það væri skynsamlegra fyrir mig að halda mig utan þess. Ég er í opinberu starfi hjá borginni og ég var hrædd um að það kæmi ekki nógu vel út ef ég færi að skipta mér af einhverri pólitík svona opinberlega. Eftir því sem ég hugsaði það meira því verr sat það í mér að sitja hjá og segja ekki neitt,“ segir Kolbrún Birna á Facebook.
Það varð til þess að hún komst að þveröfugri niðurstöðu. „Ég hugsaði með mér – Er það virkilega pólitískt að óska eftir því að saklaus börn séu ekki myrt fyrir það eitt að hafa fæðst á ákveðnu svæði? Er það virkilega pólitískt að benda á það hversu ómannúðlegt og hryllilegt það er að sprengja upp heilu spítalana, skólana, sjúkrabílana og flóttamannabúðirnar? Er það virkilega pólitískt að óska eftir vopnahléi á Gaza í þágu mannúðar? Er það virkilega pólitískt að vera á móti útrýmingu á heilli þjóð? Niðurstaða mín var sú að svo sé ekki. Þessir hlutir ættu ekki að vera pólitískir,“ segir Kolbrún Birna og heldur áfram:
„Það á ekki að vera pólitískt að segjast vera á móti því að þúsundir barna séu tekin af lífi. Það á ekki að vera pólitískt að benda á það að alþjóðalög skulu virt og að það sé rangt að sprengja upp heilbrigðisstofnanir, skólastofnanir og flóttamannabúðir. Það á ekki að vera pólitískt að vilja stöðva þjóðarmorð sem er að eiga sér stað í beinni útsendingu. Ef þessi grundvallarréttindi, lífið sjálft, eru orðin að pólitísku álitaefni – þá erum við sem samfélag komin á vondan stað og ég einfaldlega veit ekki hvort ég vil vera hluti af slíku samfélagi.“
Hún telur að hjáseta Íslands þegar kosið var um vopnahlé hafi í raun verið pólitísk hrossakaup. „Þegar fréttir bárust af því að Ísland hefði setið hjá í atkvæðagreiðslu á aukafundi Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé á Gaza þá hljómuðu allar þær eftiráskýringar sem við fengum að heyra einmitt á þann veg að fólk væri að forðast það að blanda sér í einhverja pólitík. Ráðamenn Íslands skiptust á að bera fyrir sig eitthvað ákveðið orðalag sem þótti ýmist of einfalt eða ekki nógu einfalt en ályktunin var eftirfarandi:
“Ályktun Jórdaníu var samþykkt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust og langvarandi vopnahlé á Gaza. Einnig var þess krafist að farið væri eftir alþjóðlegum mannréttindalögum og að nauðsynjar ættu greiða leið inn í Gaza. Eins var kallað eftir því að öllum almennum borgurum sem teknir voru í gíslingu yrði tafarlaust sleppt úr haldi.”
Orðalagið á þessari samþykkt hugnaðist ekki íslensku ríkisstjórninni. Orðin sem ég las upp rétt í þessu, voru einhvern veginn ekki nógu góð til að Ísland gæti staðið með framangreindri ályktun og skrifað sig réttu megin í sögubækurnar. Við sátum því hjá, til að stugga ekki við einhverri “pólitík”.“
Hún bendir svo á að þegar staðan sé svo alvarlegt þá sé ekki sæmandi fyrir fulltrúa þjóðarinnar að láta allt snúast um orðalag. „Utanríkisráðherra þjóðarinnar leyfir sér svo að fara í fjölmiðla í framhaldinu og mótmæla því að um sé að ræða árásir á flóttamannabúðir, þrátt fyrir að ísraelski herinn hafi sjálfur gengist við því. Hann hélt svo áfram að réttlæta aðgerðir Ísraels en vísar þó til þess að það þurfi að huga að meðalhófi í þessu samhengi. Ég verð að vera ósammála háttsettum utanríkisráðherra Bjarna Benediktssyni í því að þjóðarmorð geti farið fram með hliðsjón af einhversskonar meðalhófi – þegar aðgerðirnar eru komnar svo langt fram úr hófi að þær eiga sér engin takmörk lengur,“ segir Kolbrún Birna.
Í raun sé einhver furðuleg pólitík að valda því að ráðamenn vilja sitja aðgerðarlausir, fyrir utan að leiðrétta orðafar, þegar þjóðarmorð stendur yfir. „Samtökin Barnaheill fullyrða að barn deyi nú á Gaza á tíu mínútna fresti vegna loftárása og annarra aðgerða Ísraelsmanna, sem þýðir að á meðan að samstöðufundurinn stóð yfir í dag þá voru allavega níu palestínsk börn sem kvöddu þessa jörð til viðbótar við þau 4000 börn sem látið hafa lífið síðasta mánuðinn. Á meðan að heilu fjölskyldurnar þurrkast út í Palestínu, þá sitja Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hjá aðgerðarlaus með öllum sínum ráðherrum – allt út af orðalagi og pólitík,“ segir Kolbrún Birna.
„Ég er einfaldlega ósammála því að hægt sé að réttlæta mannfallið sem við höfum orðið vitni af með einhverjum orðaflækjum um það að málið sé svo pólitískt og flókið. Því stóð ég fyrir framan öll þau sem mættu í Háskólabíó í dag og endurtek það hér að þessi ákvörðun var ekki í mínu nafni og að fólkið sem stjórnar landinu fyrir okkar hönd ætti ekki að mega skýla sér bak við orðalag, þegar um er að ræða morð á heilli þjóð.
Lengi lifi frjáls Palestína og hættum að afsaka aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda með formsatriðum, orðalagi og pólitík.“