„Þú ert ekki löglegur hérna. Þú getur ekki hringt í lögregluna“

Salahadin heitir hann, ungur maður frá Eritreu, sem kom til Íslands í september árið 2022. Það var eftir viðkomu í Lettlandi, þangað sem yfirvöld gera nú ráð fyrir að brottvísa honum. Er hann að flýja ofsóknir eða kom hann hingað „aðeins“ í leit að betra lífi? Mér láðist að spyrja hann. Yfirvöld láta sig þann greinarmun varða, og láta eins og hann sé einfaldur, augljós. Annað hvort eða. Í samtali milli manneskja virðast spurningar af eyðublöðum hins opinbera oft heldur óforskömmuð hnýsni. En í þetta sinn hugsaði ég ekki einu sinni út í það. Erindi mannsins við mig var brýnna en svo. Hann vildi segja sögu síðustu vikna og daga og þó fyrst og fremst sögu síðasta föstudags. Fleiri spurningar af eyðublöðum gera fyrst vart við sig eftir að við kveðjumst. Hver er aftur munurinn á þrældómi og nauðungarvinnu? Er þetta mansal? Getur það heitið launaþjófnaður ef vinnan var ólögleg?

Maðurinn var í öllu falli, segir hann mér, barinn þennan föstudag. Nánar tiltekið: Fyrrum vinnuveitandi Salahadins kom með menn með sér til að lúskra á honum. Tilefnið virðist vera að hann hafði þá leitast eftir því að fá greidd laun fyrir vinnu síðustu tveggja mánaða, 850 þúsund krónur sem hann segir að vinnuveitandinn skuldi sér. Vinnuveitandinn, verktaki í byggingariðnaði, neitar að borga. Samkvæmt frásögn Salahadins kemst hann upp með það í krafti þeirra laga sem gera Salahadin sjálfan réttlausan á landinu. Þetta er saga af einum sólarhring í ástandi réttleysis.

Launalaus vinna í tvo mánuði

Við mæltum okkur mót fyrir utan verslunarmiðstöð og komum okkur fyrir á nálægum bekk. Fyrst bað ég Salahadin um grunnupplýsingar. Hann sagði til nafns, hvaðan hann kemur og hélt síðan áfram:

„Ég kom til Íslands 12. september 2022. Ég fékk tvær synjanir – þú þekkir nýju lögin um flóttafólk? Eftir að nýju lögin tóku gildi flutti ég frá Keflavík til Reykjavíkur. Ég fann mann sem sagðist geta gefið mér stað að dvelja á og vinnu. Ég vann fyrir hann í júlí, ágúst, september og október. Ég veit að ég braut lögin, skilurðu. En ég gerði það vegna þess að ég vil fara, ég vil fara og annast sjálfan mig. Nýja kerfið frá stjórnvöldum – það atti mér út í þetta. Ég gerði það, ég braut lögin. En þau þrýsta á mann eins og maður sé ekki mennskur.

Þessi maður greiddi mér ekki laun í tvo mánuði. Hann skuldar mér 850 þúsund krónur fyrir september og október. Á hverjum degi sagði hann: á morgun, eða í næstu viku. Á morgun, í næstu viku.“ Nú á föstudagskvöld var Salahadin loks nóg boðið. Hann sagði vinnuveitandanum „að ég þyrfti peninginn og ef hann greiddi mér ekki myndi ég leita til lögreglunnar. Hann svaraði: þú nýtur engra réttinda hér. Þú hefur engin mannréttindi, þannig að lögreglan hjálpi þér að fá peningana þína. Og hann hafði rétt fyrir sér. Ég fór til lögreglunnar og þau sögðu mér nákvæmlega það sama og hann.“

Þú fórst til lögreglunnar?

„Já, í Keflavík. Og ég varð fyrir áfalli. Ég hringdi í lögregluna til að ræða þetta mál en þeir vildu bara tala við mig um hælisumsóknina. Þessi maður stal peningunum mínum, hann vill ekki greiða mér laun eftir að ég starfaði fyrir hann. Það er vandinn sem ég hef að fást við. Þeim var alveg sama. Okkur er sama, sögðu þeir einfaldlega. Okkur er alveg sama. Við höfum annað að gera.“

Hvernig getið þið sagt að ég sé í felum?

Hælisumsóknin og allt það ferli er ekki einfalt mál. Eins og Salahadin nefndi í upphafi samtalsins hefur hann þegar fengið tvær synjanir, sem þýðir væntanlega að synjun Útlendingastofnunar hafi verið staðfest af kærunefnd útlendingamála. Fulltrúar yfirvalda svara spurningum um einstök mál að jafnaði aðeins á þann veg að þau svari ekki spurningum um einstök mál, og hafa fyrir því gildar ástæður. Fyrir vikið er hér aðeins við frásögn Salahadins að styðjast. Að hans sögn líta stjórnvöld svo á að hann sé í felum, sem hann segir af og frá:

„Þegar fyrir þremur vikum síðan sagði lögfræðingurinn minn mér: við þurfum að opna málið þitt en Útlendingastofnun segir að þú sért í felum. Ég sagði: ég er ekki í felum. Hann sagði að ég þyrfti að hringja í lögregluna og lét mig fá númer. Ég gerði það, ég hringdi í lögregluna og sagði þeim hvað lögfræðingurinn minn hefði sagt. – Hvernig getið þið sagt að ég sé í felum? spurði ég. – Enginn hefur haft samband við mig. Númerinu mínu hefur þegar verið lokað, af fyrirtækinu, Símanum, ég nota það ekki. Hvernig getið þið sagst hafa haft samband ef síminn minn virkar ekki?“

Að sögn Salahadins sagði lögreglumaðurinn gott og vel, en þeir þyrftu að hittast fyrir því. „Ég sagði ekkert mál, ekkert mál, hittumst,“ segir hann, og að þeir hafi mælt sér mót í Hafnarfirði, síðdegis þennan föstudag.

„Ég þarf bara launin mín“

Það var að morgni þess sama föstudags sem Salahadin hélt á lögreglustöðina í Keflavík í allt öðrum erindagjörðum, ekki vegna hælisumsóknarinnar heldur launanna sem hann var svikinn um. Hann segir að þar hafi starfsfólk hins vegar aðeins beint athygli sinni að hælisumsókninni og stöðu hans í kerfinu en ekki viljað heyra um tilefni þess að hann hafði samband, það er um launaþjófnaðinn og líkamsárásina.

Þegar hann stóð frammi fyrir þessu segist Salahadin hafa hringt í lögreglumanninn í Hafnarfirði til að greina honum frá stöðunni: að hann væri kominn til að greina lögreglunni í Keflavík frá brotum sem hann hefði orðið fyrir, en lögregluþjónar þar vildu aðeins að hann skrifaði undir skjal sem hann hefði ekki komið til að gera. Salahadin segir að lögreglumaðurinn í Hafnarfirði hafi sagt honum að gera ekki veður yfir því og útskýrt að hann hefði það sama í hyggju: ef yrði af fyrirhuguðum hittingi þeirra myndi hann reyna að fá Salahadin til að undirrita þetta sama skjal. Salahadin svaraði að ef svo væri, þá yrði ekki af fyrirhuguðu stefnumóti þeirra þennan dag. Hann ítrekaði þó, segir hann, að þar með hefði hann engan hug á að fara í felur:

„Ég er ekki á leið í felur, útskýrði ég, ég er ekki að blekkja þig, ég ætlaði að koma og hitta þig, ég læt þig fá heimilisfangið mitt, ég er ekki að forðast þig. En þetta er annað mál. Ég er kominn hingað til að ná í peningana mína. Þessi maður tók peninginn minn og ég þarf á honum að halda. Svo getið þið brottvísað mér eða hvað sem er, ég þarf bara launin mín.“

Við lögregluna í Keflavík sagði Salahadin það sama, og var svarað, segir hann: „Okkur er sama um launin þín, við getum ekki hjálpað þér. Það verðurðu að sjá um sjálfur, við þurfum bara að þú skrifir undir þetta skjal.“ Það sagðist hann ekki ætla að gera og fór við svo búið.

Aðspurður hvaða skjal þetta var svaraði Salahadin: „Að maður þurfi að mæta á lögreglustöð á hverjum virkum degi fyrir hádegi og sýna á sér andlitið. Sýna að ég sé hér á Íslandi. Eins og ég sé glæpamaður.“

Reynir sjálfur að innheimta

Eftir þessa árangurslausu tilraun til að leita liðsinnis lögreglunnar sneri Salahadin aftur á vinnusvæðið þar sem hann áður starfaði, til að freista þess að innheimta laun sín sjálfur. „Ég fann gaurinn. Ég fann bílinn hans og þá hringdi ég aftur í lögregluna. Þeir spurðu: er þetta Salahadin? Ég sagði já. – Þú varst hjá okkur fyrir korteri síðan? – Já. – Hvað viltu núna? Við sögðum að við gætum ekki hjálpað þér með þetta mál. – Gott og vel, sagði ég, en ég sé manninn, ég sé bílinn hans, ætlar enginn að hjálpa mér að sækja rétt minn? – Nei, við gerum ekki neitt, við erum ekki á leiðinni, var mér svarað. – Ókei, en ef ég færi að slást við hann, þá kæmuð þið? Og þá loksins sagði hann ókei, ókei, við komum.“

Fimm mínútum síðar kom lögreglan á vinnusvæðið, segir Salahadin. „Lögreglumaðurinn spurði hvar fyrrverandi yfirmaður minn væri. Ég sagði að hann væri inni, gætuð þið komið með hann? Ég ætla ekki að slást við hann, bara fara fram á að hann borgi mér. Lögreglan svaraði: ég get ekki hjálpað þér með það, þá væri ég að brjóta lög. Jæja, ókei, ég bað hann þá um að segja manninum bara að ég vildi tala við hann. Það er allt og sumt. Ég ætla ekki að slást við hann til að ná í peningana mína, ég vil bara tala við hann sjálfur. En lögreglumaðurinn sagðist ekki geta gert það. Ég spurði: hvers vegna komuð þið þá? – Við héldum að þú myndir kannski slást við hann, þess vegna komum við.“

Salahadin segist hafa útskýrt fyrir lögreglunni að hann væri ekki kominn til að slást, heldur hefði aðeins komið til að tala við manninn og fá launin sín. Við svo búið hafi lögreglan farið burt. Hálftíma síðar hafi þeir komið aftur til að gá hvort hann væri enn á svæðinu. Í það sinn hafi þeir staldra í fimm mínútur. „Hringdu fullt af símtölum. Þeir skoðuðu bíl mannsins og tóku niður númerið. Síðan fóru þeir aftur.“

„Henti fötunum mínum út og barði mig“

Seinna þennan sama föstudag skilaði viðleitni Salahadins þó loks þeim árangri að yfirmaðurinn hafði samband. „Hann sagðist vera í Reykjavík ef ég vildi koma. Hann sendi mér heimilisfang. Þegar ég kom þangað þá blokkaði hann númerið mitt. Nú get ég ekki náð á hann lengur.“

Salahadin sneri þá aftur á dvalarstað sinn, þann sem yfirmaðurinn hafði skaffað honum samhliða starfinu. Og þar var hann staddur á föstudagskvöld þegar hann heyrði yfirmanninn koma á svæðið og standa þar fyrir utan „með fólk til að berja mig. Ég heyrði gaurinn koma að neðan, upp stigann. Ég heyrði hann tala í símann á rússnesku. Ég skil svolitla rússnesku. Hann er frá Litháen. Ég sagði við vin minn: þetta veit ekki á gott. Þegar hann kemur muntu sjá hvað hann gerir. Og maðurinn kom inn og barði mig. Hann henti fötunum mínum út og hann barði mig hérna.“ Saladin bendir á sköflunginn á sér. „Og hér í andlitið. Veistu hvað hann sagði áður en hann fór? Hann sagði: þú ert ekki löglegur hérna. Þú getur ekki hringt í lögregluna eða gert neitt af þeim toga. Skilurðu, ég hef ekki mannréttindi í þessu landi. Ef einhver gerir eitthvað við mig. Ég hringdi samt í lögregluna. Og þeir komu. Þegar þeir sáu öll fötin mín, sem hafði verið kastað af annarri hæð, spurðu þeir hvað hefði gerst.“

Lögreglumenn söfnuðu fötum Salahadins saman og fylgdu honum með þau aftur inn. „Og þar var mér sagt að ég gæti ekki verið þar, ég væri ekki með neinn samning um leigu á herberginu, nú yrði það notað í annað. Þú verður að fara, sögðu þeir. Hann hefur rétt á að sparka þér út. Þeir töluðu bara um hans rétt, ekki minn rétt. Ekki einu orði. Þetta er eini staðurinn sem ég hef til að dvelja á. Ég hef engan annan stað að vera á. Lögregluþjónninn sagði að ég yrði að yfirgefa húsið strax.“

Nótt á biðstofu sjúkrahúss

Langt var nú liðið á kvöld þessa föstudags í nóvember. Lögreglan ók Salahadin á sjúkrahús og skildi við hann þar. „Og ég sat þar og ekkert gerðist. Frá rétt eftir hálftólf í gærkvöldi til sjö í morgun. Ekkert. Læknarnir gerðu ekkert. Enginn spurði mig einu sinni hvað amaði að mér. Ég dottaði á stól og það var allt og sumt. Svo fór ég. Og ég er enn aumur í fótleggnum. Loks kom ég hingað til að hringja í vin minn. Ég sagði honum að ég vildi bara hvílast í tvo eða þrjá tíma. Síðan hringdi ég í þig. Það er sagan mín.“

Salahadin segist ekki vilja fara aftur á fyrri dvalarstað að sækja föggur sínar, hann sé of skelkaður. „Ég veit ekki hvað mun gerast. Kannski sendir hann fleira fólk á mig.“ Miðað við fyrri viðbrögð lögreglu, eins og hann greinir frá þeim, virðist hann í öllu falli ekki geta gert ráð fyrir að yfirvöld verji hann eða bregðist við slíku framferði.

Það var vinur Salahadins sem vissi af símanúmeri blaðamanns og miðlaði því til hans. „Ég hringdi í þig,“ segir Salahadin mér, „af því að ég vil ekki að nokkur manneskja, hvorki flóttafólk né venjulegt fólk, lendi í sömu stöðu og ég. Ég veit að það mun ekkert gagnast sjálfum mér en ég vona að í framtíðinni geti það gagnast fólki eins og mér. Mér er sama hvort þeir brottvísa mér eða ekki. Það er ekki það sem ég er að hugsa um núna. Ég er bara með hugann við þessar aðstæður. Ég vil ekki að neinn lendi í þeim aftur. Það er allt og sumt. Hvað heldurðu að verði ef fleira flóttafólk lendir í minni stöðu? Hvaða land verður þetta? Hvert er það á leiðinni?“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí