Stjórnvöld breiða yfir aðgerðaleysi með ódýrum aðfinnslum um málnotkun

Nú að morgni mánudags birtist á vef Menningar- og viðskiptaráðuneytisins tilkynning um auglýsingaherferð stjórnvalda í því sem þau kynna sem „viku íslenskunnar“. Vika íslenskunnar er framundan og markmiðið með vikunni er sagt að „auka meðvitund um íslenska tungu og umræðu um málefni hennar en einnig að fagna því sem vel er gert í þágu tungumálsins.“

Mörgum virðist þó brugðið yfir fyrstu dæmunum um inntak þessarar herferðar, þau sem birtast með tilkynningu ráðuneytisins. Með hvítu letri á svörtum bakgrunni, í eins konar talblöðrum, birtast setningarnar „Hlíðin er slay“ og „Ég literally meika þetta ekki,“ og undir þeim spurningin: Er þetta málið? Þannig virðist athyglinni sérstaklega beint að máláhrifum úr ensku og vika íslenskunnar, samkvæmt þessum fyrstu vísbendingum, snúast um aðfinnslur vegna slíkra áhrifa.

Ekki endilega til þess fallið að fá fólk sem slettir í lið með sér

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, hefur á undanliðnum árum lagst gegn þeirri áherslu og anda í málrækt að hún snúist helst um að vanda um fyrir fólki. Aðspurður sagðist hann ekkert hafa heyrt um þessa tilteknu herferð fyrr en nú og kynningin segi frekar lítið eins og er. Andinn virðist ekki skemmtilegur við fyrstu sýn en hann vilji þó lítið tjá sig um það út frá þessum dæmum. Og þó bætti hann við, í samtali við blaðamann: „Ég held að eitthvað svona sé nú ekki endilega til þess fallið að fá fólk sem slettir ensku í lið með sér.“

Eiríkur vék hins vegar talinu að þeirri þingsályktunartillögu sem minnst er á í tilkynningu ráðuneytisins, um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026, „sem er margboðuð,“ sagði hann. „Það átti að leggja hana fram í mars, svo birtist hún á þingmálaskrá haustsins á dagskrá í október, en er ekki komin ennþá. Þetta er aðgerðaáætlun 2023–2026, og það er ekki mikið eftir af 2023, sem virðist svolítið dæmigert.“

Ágæt áætlun svo langt sem hún nær – sem er ekki langt

Drög að aðgerðaáætluninni voru birt í Samráðsgátt stjórnvalda í sumar, bendir Eiríkur á. „Þetta er ágæt áætlun svo langt sem hún nær, hún bara nær ekkert langt. Ég sendi inn athugasemdir við hana og meginathugasemdin var sú að hún er ekkert fjármögnuð. Það er ekkert kostnaðarmat á einstökum liðum, sem ég er voða hræddur um, í ljósi reynslunnar, að þýði það að það komi ekkert út úr þessu. Það er svo auðvelt fyrir þingmenn að samþykkja svona tillögu sem þeir vita ekkert hvað kostar – eða sem er sett þannig upp að það kemur ekki fram að hún kosti eitthvað, réttar sagt. Hver ætlar að greiða atkvæði gegn eflingu íslenskrar tungu?“

Í þeim skriflegu athugasemdum sem Eiríkur gerði við málið á Samráðsgátt má lesa í eilítið lengra máli:

„Aðgerðaáætlunin er metnaðarfull á margan hátt og í henni er að finna fjölda góðra áforma um aðgerðir sem örugglega munu efla íslenskuna verulega ef þeim verður hrint í framkvæmd. En þessar aðgerðir kosta fé – mismikið vissulega, en verulegar upphæðir þegar allt er talið. Það er megingalli aðgerðaáætluninnar að henni fylgja engar fjárveitingar, og fjármálaáætlun næstu fimm ára gefur litlar vísbendingar um að ríkisstjórnin áformi að verja verulegu fé til eflingar íslenskunnar á næstu árum. Auðvitað er ljóst að fé er ekki veitt með þingsályktun og allar fjárveitingar þurfa að vera á fjárlögum, en það hefði verið mikill kostur ef einstökum liðum áætlunarinnar hefði fylgt kostnaðarmat þótt slíkt mat geti aldrei orðið annað en vísbending.“

Vantar siðferðilega skuldbindingu um fjárveitingar

Athugasemdir Eiríks við áætlunina eru ítarlegar en hér verður aðeins staldrað við það sem snýr að fjármögnun. Þar heldur Eiríkur áfram:

„Það er auðvelt að samþykkja tillögu um eflingu íslenskunnar ef hvergi kemur fram að henni fylgi einhver kostnaður, en kostnaðarmat auðveldar alþingismönnum að taka upplýsta afstöðu til tillögunnar og meta hvort þeim finnist væntanlegur ávinningur réttlæta kostnaðinn við aðgerðirnar. Það er mikilvægt að samþykkt þingsályktunartillögunnar feli í sér siðferðilega skuldbindingu um að styðja fjárveitingar til að framfylgja henni og hugmynd um líklegan kostnað er forsenda þess. Þess vegna er nauðsynlegt að áður en tillagan verður lögð fyrir Alþingi verði reiknaður út líklegur kostnaður á hvern lið, líkt og gert var við aðgerðaáætlun stjórnvalda í íslenskri máltækni sem unnið var eftir á árunum 2019-2022 og gafst mjög vel.“

Í samtalinu tekur Eiríkur það allt saman í stuttu máli: „Eins og ég segi, svo þegar kemur að því að ýta þessum aðgerðum í framkvæmd, þá kostar það peninga og hvar eru þeir?“

Þegar leið á mánudag kom í ljós að vika íslenskunnar er hafin og auglýsingaherferð stjórnvalda rúllar af stað: á samfélagsmiðlum tóku almenningi að birtast skilaboð frá stjórnvöldum, í sama dúr og þau sem fylgdu fréttatilkynningunni: „Á íslensku má beisikklí alltaf finna svar – er þetta málið?“ og svo framvegis.

– Þá er kannski ódýrast að henda í eina auglýsingaherferð og skamma fólk? spyr blaðamaður.

„Það er svolítið það sem manni sýnist kannski,“ svaraði Eiríkur.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí