Á laugardaginn kemur er haldið upp á „Armistice Day“, dag vopnahlésins, í Bretlandi og Veterans Day eða dag fyrrum hermanna, í Bandaríkjunum, eins og 11. nóvember ár hvert, til að minnast endaloka fyrri heimsstyrjaldar þann sama dag árið 1918. Boðað hefur verið til mótmæla þann dag, eins og alla laugardaga frá árásum Hamas 7. október sl., til að krefjast vopnahlés á Gasa. Fulltrúi breskra stjórnvalda hefur nú sagt að ríkisstjórnin líti svo á að mótmælin séu vanvirðing við daginn.
Rishi Sunak forsætisráðherra hefur áður lýst yfir andstöðu sinni við mótmælasamkomu þennan dag og farið fram á það við lögreglustjóra Lundunaborgar að samkoman verði bönnuð. Lögreglustjórinn, Mark Rowley, hefur hins vegar til þessa neitað að verða við þeirri ósk forsætisráðherrans, og krefst þess að stjórnvöld virði sjálfstæði lögreglunnar í því mati.
Á þriðjudag lét lögreglustjórinn frá sér tilkynningu þar sem hann gekkst við því að ráðamenn hefðu krafist þess að lögreglan banni gönguna. Í tilkynningunni sagði hann að enn sem komið er gæfu upplýsingar ekki til kynna að ógn við allsherjarreglu stafaði af göngunni, og brýndi mikilvægi þess að lögreglan einbeitti sér að „lögunum og staðreyndunum fyrir framan okkur.“
Sú fullyrðing talsmanns stjórnvalda í dag, miðvikudag, að mótmælin feli í sér vanvirðingu við vopnahlésdaginn, virðist meðal annars vera sett fram sem svar við andmælum lögreglustjórans, það er að samkoman þurfi ekki að fela í sér ógn við allsherjarreglu heldur byggi stjórnvöld kröfu sína um bann við mótmælunum á þeirri upplifun að þau feli í sér vanvirðingu.