„Frá heimsfaraldrinum hafa tekjur launafólks í Evrópu dregist saman þrátt fyrir að hagnaður fyrirtækja hafi aukist. Forstjórar og hluthafar hafa orðið ríkari á meðan fólk sem vinnur langan vinnudag í erfiðum störfum berst við að brauðfæða fjölskyldur sínar og hita heimili sín. Þrátt fyrir það hafa margir stjórnmálamenn látið vinnandi fólk taka á sig allar byrðar þessara lífskjarakreppu.“
Þetta er haft eftir Esther Lynch, framkvæmdastjóra Evrópusambands verkalýðsfélaga (ETUC) í tilkynningu sem ASÍ lét frá sér í dag, miðvikudag.
Í tilkynningu ETUC segir Lynch að Evrópukosningarnar framundan verða að marka þáttaskil: Stjórnmálaflokkar í Evrópu verði að tryggja að öfga-hægri hreyfingar geti ekki fært sér vaxandi reiði fólks í nyt. „Eina leiðin til að gera það,“ segir Lynch, „er að tryggja raunverulegar lausnir á lífskjarakreppunni og hefja uppbyggingu Evrópu á grundvelli frábærra starfa og hárra lífsgæða fyrir öll.“
Raunlaun lækka en hagnaður fyrirtækja eykst
Í tilkynningunni er haft eftir nýbirtri rannsókn ETUC að raunlaun hafi haldið áfram að lækka í löndum Evrópusambandsins þrátt fyrir að hagnaður fyrirtækja hafi verið umfram verðbólgu það sem af er ári.
Þar segir að raunlaun hafi lækkað á meðan raunhagnaður fyrirtækja hafi aukist í níu aðildarríkjum ESB, þar á meðal í Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Í tíu aðildarríkjum til viðbótar sé aukning raunhagnaðar fyrirtækja meiri en hækkun launa.
Mesta aukning raunhagnaðar var í Slóvakíu og Rúmeníu (+8% og +7%), á meðan kaupmáttur launa dróst þar saman. Mest lækkun á kaupmætti launa var í Tékklandi (-5%) og og Ítalíu (-2%), á sama tíma og hagnaður fyrirtækja þar jókst að raunvirði.
Vinnandi fólk látið axla verðbólguna
Í tilkynningu ASÍ segir að greining ETUC sýni að vinnandi fólki sé gert að bera byrðar kreppu af völdum verðbólgu sem stafi fyrst og fremst af því að fyrirtæki „notfæra sér truflanir í aðfangakeðjum til að hækka verð og auka þannig hagnað sinn.“
ETUC hvetur stjórnmálamenn til að styðja þrjú stefnumál til að vinna gegn þessari þróun: hvalrekaskatt á umframhagnað fyrirtækja; að aðgengi fyrirtækja að samningum við opinberar stofnanir séu háðar því að réttur til kjarasamninga sé virtur; og loks „metnaðarfulla innleiðingu á tilskipun um viðunandi lágmarkslaun á landsvísu, sem miðar að 80% þekju kjarasamninga í hverju aðildarríki.“