Hópur íslensks listafólks boðaði til mótmæla við Hörpu í dag, laugardag, í tilefni hins umdeilda viðburðar sem er ráðgert að hefjist nú kl. 16 síðdegis, þar sem Hillary Clinton, glæpasagnahöfundur og fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er væntanleg á svið.
Tugir þátttakenda, sveipaðir hvítum klæðum, komu saman kl 15:30, lögðust á gólfið í anddyri Hörpu, og lágu þar kyrr til að minna á mannfallið á Gasa, undir árásum Ísraelshers. Skömmu síðar stóðu þau upp og hófu hefðbundnari mótmæli, hrópuðu þau slagorð sem heyrst hafa um allan heim undanliðnar vikur: Free free Gaza, Ceasefire Now, Boycott Clinton, ásamt slagorðum á íslensku: Vopnahlé strax og Frjáls Palestína.
Icelandic Artists for Palestine eða Íslenskir listamenn fyrir Palestínu er heitið á hópnum sem stóð að mótmælunum og virðist hafa verið stofnaður nú í haust. Hópurinn hefur áður staðið fyrir hliðstæðum mótmælaaðgerðum í Kringlunni.
Svipmyndir frá mótmælunum



