Á tíunda tímanum nú í morgun, þriðjudag, fór fram friðsamleg mótmælastaða við Ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu á meðan ríkisstjórnin fundaði. Fjöldi mótmælenda var þar samankominn, hélt á fánum og mótmælaspjöldum. Krafa mótmælendanna var einföld og skýr: Að ríkisstjórnin sendi einföld og skýr skilaboð til Ísrael um vopnahlé.
Samkvæmt heimildamanni Samstöðvarinnar á staðnum voru baul og hróp gerð að þeim ráðherrum sem mættu á ríkisstjórnarfundinn en tveir þeirra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, fóru að sögn sjónarvotta bakdyramegin inn í ráðherrabústaðinn. Minntist einn mótmælenda þess þegar Bjarni Benediktsson, afi utanríkisráðherra skreið bakdyramegin út úr Alþingishúsinu í óeirðunum á Austurvelli 1949.
„Ísrael er að fremja þjóðarmorð“
„Ísrael er að fremja þjóðarmorð í Palestínu. Síðustu vikur hafa hátt í 12.000 almennir borgarar verið myrtir í Palestínu, þar af meira en 5000 börn“ segir í fréttatilkynningu um mótmælaviðburðinn sem dreift var á samfélagsmiðlum.
Þar var einnig ítrekað að hvers konar diplómatískt samstarf við ísraelsk stjórnvöld sendi þau skilaboð til Ísraelsríkis að þjóðernishreinsanir þeirra séu ásættanlegar. Einnig er ítrekað að viðskipti við Ísrael teljist til fjárhagslegs stuðnings við landrán þeirra, hernám og stríðsglæpi. Því er verið að þrýsta á íslensk stjórnvöld að slíta ekki eingöngu stjórnmálasambandi við Ísrael á meðan árásum sé ekki hætt, heldur einnig að ríkið sniðgangi hvers kyns viðskipti á meðan ekki næst fram krafa um vopnahlé og frið.
Því næst er ríkisstjórnin minnt á afleiðingar aðgerðarleysis síns, á meðan Ísland taki ekki skýra afstöðu og fylgi ályktun sinni með kröfum um vopnahlé og hlýðni við alþjóðalög séum við öll gerð samsek stríðsglæpum og Ísland verði þá óbeinn aðili að þjóðarmorði.
Mótmælendur sem stóðu fyrir utan ráðherrabústaðinn á meðan ríkisstjórnin fundaði ítrekuðu ádrepnuna til ráðamanna: „Við neitum að vera gerð samsek í þjóðarmorði. Krafan er skýr. Við krefjumst þess að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael og setji viðskiptabann á ríkið án tafar!“