Í gær, miðvikudag, kynnti UNICEF nýja skýrslu um fátækt barna í 39 löndum. Meðal helstu niðurstaðna sem samtökin vekja athygli á er að þrátt fyrir að fátækt barna hafi minnkað víðast hvar í heiminum, frá 2014 til 2021, þá jókst hún verulega, eða um yfir 10%, í fimm löndum: í Frakklandi, Bretlandi, Sviss, Noregi – og á Íslandi. Aukning fátæktar á Íslandi var raunar sú næstmesta í heiminum á tímabilinu.
Í skýrslunni kemur fram að í Póllandi, Slóveníu, Lettlandi og Litháen hafi náðst merkilegur árangur í að draga úr fátækt barna á undanliðnum árum. Sömu sögu megi segja, utan Evrópu, um Kóreu, Kanada og Japan. Í mörgum löndum hafi hins vegar fátækt barna því miður staðið í stað. Og í örfáum hafi hún aukist verulega. Þar ber hæst fyrrnefnd fimm lönd, þar sem fátækt barna jókst um 10% á tímabilinu: mest í Bretlandi, næstmest á Íslandi.
Fátækt er útbreiddari meðal barna á Íslandi en í Noregi, Finnlandi og Danmörku: 12,4% íslenskra barna teljast fátæk, en 9,9% í Danmörku, 10,1% í Finnlandi og 12,0% í Noregi. Svíþjóð sker sig úr meðal Norðurlandanna að þessu leyti, en þar mælist barnafátækt nú 18,0%. Þar fer hún aftur á móti lækkandi. Það er að því leyti sem sérstaða Íslands er algjör á Norðurlöndunum og nokkur þó víðar væri leitað: að hér eykst fátækt meðal barna, hratt. Nánar til tekið hækkaði hlutfall fátækra barna hér á landi um 11% milli rannsókna. Aðeins í einu landi jókst fátækt barna meira, eins og nefnt er að ofan: í Bretlandi, um 19,6%.
Í skýrslunni kemur fram að á Íslandi er barn sem býr með aðeins einni forráðamanneskju yfir sexfalt líklegra til að lifa í fátækt en önnur börn. Víða er munur á kjörum barna eftir fjölskyldugerð en óvíða meiri en hér.
„Fátækt meðal barna er mjög háð áhrifum af aðgerðum stjórnvalda,“ segir í inngangsorðum skýrslunnar. „Mikilvægur lærdómur sem dreginn var af efnahagslægðinni 2008–2010 var að með réttri tegund aðgerða til að draga úr fátækt má verja börn frá skaðlegum kreppuáhrifum.“
Heimild: skýrsla UNICEF um fátækt barna.