Í sömu mund og Washington Post greinir frá því að Biden forseti fái nú ekki flúið mótmæli gegn áframhaldandi árásum Ísraels á Gasa, hvar sem hann stígur niður fæti bíði hans mótmælasamkoma, segir Democrocy Now! frá mótmælum sem beindust að leiðtogum allra ríkja heims á mánudag: við ráðstefnusvæði loftslagsráðstefnunnar COP28, sem nú stendur yfir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, komu á annað hundrað manns saman á mánudag þrátt fyrir harðar takmarkanir sem mótmælasamkomum hafa verið settar á svæðinu.
Í frétt miðilsins kemur fram að mótmælendum hafi verið bannað að hrópa slagorðin „from the river to the sea“ og „Free Palestine“, auk þess sem þeim var bannað að nefna „Gasa,“ „Palestínu,“ „Ísrael“ eða yfirleitt nokkra þjóð á nafn. Þar segir að nokkrir mótmælenda hafi gert það eftir sem áður.
Palestínski fáninn var ekki leyfður, þess í stað báru sumir mótmælenda myndir af vatnsmelónusneiðum, en saga þeirrar táknnotkunar nær aftur til sex daga stríðsins 1967.
Á mótmælasamkomunni voru lesin upphátt nöfn af lista heilbrigðisráðuneytis Gasa yfir þau sem hafa verið drepin á Gasa frá 7. október síðastliðnum.