Spotify hagnast um milljarða en greiðir tónlistarfólki frá 0 til hálfrar krónu á hlustun

Stórar tónlistar-streymisveitur mala gull en ganga á lagið og skerða enn hlut listamanna af þeirri veltu, skrifar bandaríski tónlistarmaðurinn og ljóðskáldið Damon Krukowski í The Guardian. Heppnir tónlistarmenn fá hálfa krónu á hlustun. Frá og með næsta ári færi stór hluti þeirra alls ekki neitt. Og bandarísk vinnulöggjöf meinar tónlistarfólki að taka höndum saman í stéttabaráttu – sem í þeirra tilfelli væri skilgreind sem ólöglegt samráð.

Hálf króna á hlustun – ef þú ert heppin/n

Notendur streymisveitunnar Spotify fá þessa dagana árlega samantekt fyrirtækisins á því hvaða tónlist þeir hlustu mest á yfir fyrstu ellefu mánuði ársins sem brátt er á enda. Tónlistarmenn sem eiga efni á streymisveitunni fá að sama skapi gögn í hendurnar um hversu margir hlustuðu á tónlistina þeirra. Allt er það sett fram með gáskafullu líkingamáli – Damon Krukowski skrifar að streymisveitan hafi tjáð honum að fólk hafi hlustað nógu mikið á tónlist gömu hljómsveitarinnar hans, Galaxie 500, á þessu ári „til að ganga fram og aftur milli jarðarinnar og tunglsins fjórum sinnum.“

Eitthvað á þann veg hefst greinin sem Krukowski skrifaði og birtist í The Guardian í gær, fimmtudag. Þessi skemmtilegheit streymisveitunnar eru þó ekki inntak greinarinnar, heldur hitt sem þau dylja: hversu rýrar hlut tónlistarmenn bera frá borði í þessum viðskiptum.

Að sögn Krukowskis er hæsta greiðsla sem listamaður getur gert ráð fyrir á hverja hlustun 0,3 sent eða tæplega hálf króna. Krukowski bendir á það augljósa: á því geta fæstir listamenn lifað.

Tekjurnar verða beinlínis núll

Að streymisveitur eru nokkurs konar alþjóðlegar ryksugur fjármagnseigenda á ágóðann af listaverkum eru ekki ný tíðindi. Hvernig þessi tiltekna streymisveita færir sig upp á skaftið virðist aftur á móti í frásögur færandi: frá og með næsta ári mun Spotify hætta að greiða listamönnum nokkuð yfirleitt fyrir um tvo þriðju hluta af öllum lögum sem þar eru á lista. „Það er að segja, hvaða lag sem fær færri en þúsund hlustanir á ári. Lög sem falla undir þetta handahófskennda lágmark munu halda áfram að safna höfundarlaunum, en þeim verður endurúthlutað upp á við, til stærri listamanna, frekar en til þeirra eigin rétthafa,“ skrifar Krukowski.

Þetta hljómar ótrúlega, bætir Krukowski við, en ekkert getur stöðvað það. „Og stærstu viðskiptafélagar þeirra, stóru tónlistarútgefendurnir þrír, hvetja til breytingarinnar, sem þýðir að meira fé ratar í þeirra vasa.“

Fyrir okkur hin, skrifar Krukowski, „eru þetta hljóðlát endalok á fjölda fyrirferðarmikla hugmynda um að listafólk af verkalýðsstétt og miðstétt gæti hagnast á örgreiðslum í vettvangs-hagkerfinu: „langi halinn“, „lýðræðisvæðing innihaldsins“, „endalok hliðvörslunnar“. Við höfum heyrt þessi slagorð síðustu áratugi á meðan við höfum séð tekjur af skapandi starfi okkar lækka og lækka þar til nú loksins, fyrir mörg okkar á Spotify, að þær verða beinlínis engar. Það er á meðan þau á toppi pýramídans – vettvangurinn sjálfur, og það handfylli rétthafa sem hagnast mest – halda áfram að gleypa stærri og stærri hlut af veltu iðnaðarins.“

Í greininni skorar Krukowski á áheyrendur tónlistar að láta í sér heyra: tónlistarfólk og smærri útgefendur þurfi á stuðningi þeirra að halda, þar sem þau hafi enga samningsstöðu gagnvart Spotify eða hinum stóru streymisveitunum, Apple og Amazon.

Stéttabarátta listafólks? – Ólöglegt samráð

Hvers vegna hafa þau enga samningsstöðu gagnvart streymisveitunum? Í Bandaríkjunum er það meðal annars vegna vinnulöggjafar sem meina listamönnum að grípa til sameiginlegra aðgerða. Í vinnulöggjöfinni eru tónlistarmenn skilgreindir sem framleiðendur. Hver og einn tónlistarmaður er frjáls að því við hvern hann semur en taki þeir höndum saman á þann máta sem verkafólki er unnt í verkalýðsfélögum, til dæmis um að sniðganga tiltekinn miðil og neita að láta honum tónlist sína í té, þá er hægt að kæra listamennina fyrir ósanngjarna viðskiptahætti, nánar tiltekið fyrir ólöglegt samráð. „Þegar framleiðendur taka höndum saman er það ólöglegt samráð, ekki stéttabarátta, eins og það væri ef störf okkar væru skilgreind sem launavinna,“ skrifar Krukowski.

„Launavinna,“ skrifar hann loks. „Forvitnilegt hugtak. Mér skilst að það feli í sér að fá greitt fyrir vinnuna sína. Hvernig ætli það sé? Ef ég vissi það myndi ég kannski skrifa lag um það, en það myndi víst aðeins fóðra vasa annarra.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí