Jimmy Åkesson foringi sænska öfgaflokksins Svíþjóðardemókrata nýtur meira fylgis meðal kjósenda hægriflokkanna til að gegna embætti forsætisráðherra en Ulf Kristersson forsætisráðherra, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna. Könnunin var birt í síðustu viku og sýndi 41% fylgi við Åkesson á móti 37% sem Kristerson fékk. Það er samt leiðtogi sósíaldemókrata Magdalena Andersson fyrrum forsætisráðherra sem fær mestan stuðning til að gegna embætti forsætisráðherra þegar allir kjósendur eru spurðir. Hún fær 43% atkvæða, Åkesson 18% og Kristerson 17%.
Rúmt ár er liðið síðan minnihlutastjórn hægriflokkanna undir forsæti Kristerssons tók við völdum í Svíþjóð með stuðningi Svíþjóðardemókrata. Samtals hefur stjórnin 103 þingmenn á bak við sig (Hægriflokkurinn Moderater (M): 68 þingmenn, Kristilegir demókratar (KD) 19 og Frjálslyndir (L) 16. Sósíaldemókratar eru stærri en allir stjórnarflokkarnir samtals með 107 þingmenn. Stjórnin styðst við Svíþjóðardemókrata (SD) sem hefur 73 þingmenn og er þannig næst stærsti flokkurinn í sænska þinginu. Stjórnin styðst þannig við 176 þingmenn af 349. Við stjórnarmyndunina eftir kosningarnar haustið 2022 gerðu stjórnarflokkarnir málefnasamning við Svíþjóðardemókrata sem þykir bera mjög sterkan keim af baráttumálum Svíþjóðardemókrata. Hefur stjórninni verið líkt við strengjabrúðu sem Svíþjóðardemókratar stjórna.
Stjórnin og Svíþjóðardemókratar gáfu ýmis loforð í upphafi stjórnartímabilsins um að taka skyldi á ýmsum málum sem fyrri ríkisstjórn ekki hafði sinnt. Í fyrsta lagi átti að taka með föstum tökum á glæpahópunum, morðum og sprengingum. Þá átti að taka innflytjendamálin föstum tökum. Byggja skyldi ný kjarnorkuver til að lækka raforkuverð. Og minnka átti íblöndun náttúrulegra efna í bensín og olíur og lækka þannig verð á eldsneyti bifreiða. Ekkert af þessu hefur þó komist í framkvæmd. Og það eru margir kjósendur sem telja sig illa svikna af kosningaloforðum stjórnarflokkanna.
Nýleg könnun á fylgi stjórnarflokkanna sýnir mikið tap þeirra. Hægriflokkurinn mælist með 16,1% fylgi, tapar 3% frá kosningunum 2022, Kristilegir demókratar fá 2,9%, tapa 2,4%, nærri því helmingi fylgis síns, og frjálslyndir fá 2,3%, tapa 2,3% sem er helmingur fylgisins sem flokkurinn fékk í kosningunum 2022. Bæði kristdemókratar og frjálslyndir myndu falla út af þingi ef þetta yrðu niðurstöður kosninga þar sem 4% fylgi þarf til að fá fulltrúa kjörna á þing.
Svíþjóðardemókratar bæta hins vegar við sig fylgi og fá 22%, bæta við sig tæplega 2% frá niðurstöðum kosninganna.
Miðjuflokkurinn Centerpartiet (C), „framsóknarflokkur“ Svíþjóðar, stendur utan stjórnarsamstarfsins en er ekki að sækja í sig veðrið, fær 3,8% fylgi í könnuninni sem þýðir að hann myndi einnig falla út af þingi ef þetta væru niðurstöður kosninga.
Það yrðu þannig einungis 5 flokkar á þingi ef þetta væru kosningaúrslit: Sósíaldemókratar lang stærstir með 37,9% fylgi og 150 þingmenn, Vinstriflokkurinn með 8,1% fylgi fengi 29 þingmenn og umhverfisflokkurinn Miljöpartiet (MP) fengi 4,8% og 17 þingmenn, samtals 196, en 175 þingmenn þarf til að ná meirihluta í þinginu. Hægri blokkin fengi samtals 153 þingmenn, það er að segja hægriflokkurinn fengi 64 þingmenn og Svíþjóðardemókratar 89.
Kosningar verða næst í Svíþjóð 13 september 2026. Það getur því margt gerst á þeim tæplega þremur árum sem til stefnu eru. En greinilegt er at svíþjóðardemókratar eru að sækja í sig veðrið á kostnað stjórnarflokkanna. Og sósíaldemókratar eru að auka fylgi sitt verulega og formaðurinn Magdalena Andersson nýtur mikils fylgis og meira fylgis en flokkurinn. Vinstriflokkurinn bætir örlítið við sig en er ekki áð ná neinu flugi. Og umhverfisflokkurinn er á svipuðu róli, rétt ofan við 4% mörkin, sem er reyndar undarlegt þar sem langstærsta mál samtímans eru umhverfismálin.
Nýleg könnum meðal stjórnenda sænskra fyrirtækja sýnir að stuðningur við Åkesson eykst frá 32% til 38% samtímis sem stuðningur við Kristersson minnkar úr 69% í 63%. Þetta á jafnframt við um stuðning stjórnenda fyrirtækjanna við flokkana: Svíþóðardemókratar bæta við fylgi sitt frá 8% og fá 14% en hægriflokkurinn fellur úr 60% í 53%.
Svíþjóðardemókratar stefna leynt og ljóst að ríkisstjórnarþátttöku eftir kosningarnar 2026. Og Jimmy Åkesson er forsætisráðherraefni flokksins. Mönnum þykir það kannski fjarlægt að stjórnmálamaður sem gekk til liðs við flokk sem á rætur að rekja til nazistahreyfinga í Svíþjóð skuli vera líklegur næsti forsætisráðherra Svíþjóðar. Einstaklingur sem reynir ekki að fela andúð sína á islam og hefur nýlega talað um nauðsyn þess að hefta útbreiðslu islam og rífa moskur. Sem er ekkert annað en brot á stjórnarskrá Svíþjóðar um trúfrelsi. En það skiptir Åkesson engu máli.
Það er því ljóst að Svíþjóð dagsins í dag er orðið allt annað samfélag en var fyrir aðeins 40 árum þegar Olof Palme var forsætisráðherra. Svíþjóð sem var hlutlaust land í forystu fyrir þær vestrænu þjóðir sem studdu einlægt baráttu kúgaðra þjóða um allan heim bíður eftir að komast í NATO og er komið upp að hlið Bandaríkjanna og Ísrael þar sem óbreyttir borgarar eru almennt hataðir utan heimalands síns. Er skemmst að minnast þegar tveir stuðningsmenn sænska landsliðsins í fótbolta voru skotnir til bana í Brussel af þeirri ástæðu eini að þeir báru fótboltatrefla í sænsku fánalitunum.
Myndin er af Jimmy Åkesson.