Samkvæmt Carl-Oskar Bohlin, varnamálaráðherra Svíþjóðar, þá er það ekki Svíþjóð sem stendur á bak við brennurnar á Kóraninum sem átt hafa sér stað þar í landi undanfarið. Þetta ítrekaði hann margoft á blaðamannafundi í gær. Blaðamannafundurinn var haldinn í kjölfar gríðarlegra mótmæla í Mið-Austurlöndum vegna brenna á Kóraninum í Svíþjóð. Í Írak var til dæmis nýlega ráðist inní sænska sendiráðið og kveikt í því, ásamt því að sænska sendiherranum var vísað úr landi.
Bohlin ítrekaði að Svíþjóð stæði ekki á bakvið brennurnar, og að Svíþjóð væri land þar sem trúfrelsi ríkti. Ennfremur tilkynnti hann að samkvæmt rannsókn einnar af varnamálastofnunum Svíþjóðar, MPF, þá er búin að vera upplýsingaóreiðuherferð í gangi gegn Svíþjóð. Þessi herferð fer aðallega fram á samfélagsmiðlum, og samkvæmt sænsku ríkisstjórninni þá er það Rússland sem stendur á bakvið þessa herferð.
Mikael Östlund, yfirmaður samskipta innan MPF tók einnig til máls á blaðamannafundinum og bætti við að upplýsingaóreiðuherferðin miði t.d. að því að sannfæra stóran hóp fólks í Mið-Austurlöndum og víðar um hluti eins og að sænska ríkisstjórnin standi á bakvið brennurnar, og að Kóraninn sé eina heilaga ritið sem leyfilegt sé að brenna í Svíþjóð.
Östlund sagði svo að lokum að tilgangurinn hjá Rússum væri augljós: að grafa undan samstarfi Svíþjóðar við NATO.