Finnar hafa nú lokað öllum landamærastöðvum sínum, á landamærunum að Rússlandi. Um þetta var tilkynnt á þriðjudag. Á opinberum vettvangi segja finnsk stjórnvöld það gert til að sporna við áformum erlendra aðila um að ógna þjóðaröryggi og allsherjarreglu. Á sama tíma deilir Riikka Purra, varaforsætisráðherra landsins og formaður öfga-hægriflokksins Finnar, bröndurum og öðrum færslum á samfélagsmiðlum um mikilvægi þess að halda innflytjendum frá landinu, almennt, og umsækjendum um alþjóðlega vernd sérstaklega.
Rökstuðningur finnskra stjórnvalda
Í Finnlandi búa fimm og hálf milljón manns, eða tæplega fjórtán-falt fleiri en á Íslandi. Þær 900 manneskjur sem hafa ferðast gegnum Rússland til Finnlands og sótt þar um alþjóðlega vernd frá því í ágúst, jafngilda, miðað við mannfjölda, um 70 manns á Íslandi. Dreift yfir umrædda fjóra mánuði jafnast fjöldinn á við 15–20 manns á mánuði hér. En höfðatala segir auðvitað ekki allt, manneskja er manneskja, 900 manneskjur eru 900 manneskjur, og hvað sem líður hlutföllum segja finnsk stjórnvöld að þessar 900 manneskjur sem hafa komið frá Rússlandi, yfir landamærin til Finnlands, síðan í ágúst, séu ógn við allsherjarreglu ekki aðeins Finnlands heldur alls Schengen-svæðisins. Hér á Schengen-svæðinu, sem Ísland er hluti af, búa alls yfir 430 milljónir.
Finnsk stjórnvöld hafa miðlað þeim skilningi undanliðnar vikur að flóttafólkinu sé, ef ekki stýrt af rússneskum stjórnvöldum, þá að minnsta kosti hleypt að landamærunum, með það að augnamiði að setja öryggismál Schengen-svæðisins úr skorðum. Það var ástæðan sem finnsk stjórnvöld tilgreindu er þau tilkynntu um miðjan þennan mánuð að frá og með 18. nóvember yrði flestum landamærastöðvum milli landanna lokað og aftur þegar þau tilkynntu nokkrum dögum síðar, á miðvikudag í síðustu viku, að þau hygðust loka öllum stöðvum nema einni, Raja-Jooseppi-stöðinni, þeirri nyrstu og afskekktustu, norðarlega á Lapplandi.
Það var á þeim tímapunkti sem embætti umboðsmanns gegn mismunun varaði við því að lokunin stefndi réttindum umsækjenda um vernd í alvarlega hættu.
Enginn flóttamaður inn
Afar fáir komu til landamærastöðvarinnar frá Rússlandi í leit að vernd undanliðna viku og enginn á þriðjudag, samkvæmt fréttamiðlinum The Barent Observer, þegar finnsk stjórnvöld tilkynntu eftir sem áður að í ljósi ógnarinnar sem steðjaði að allsherjarreglu og þjóðaröryggi myndu þau, frá og með þeim degi, loka umferð um þá landamærastöð líka. Ákvörðunin stendur í tæpan mánuð, eða til 23. desember næstkomandi.
Í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar segir að ljóst sé að „stjórnvöld í öðru landi, ásamt fleiri aðilum, gegna hlutverki í að auðvelda komu manneskja sem hafa farið yfir landamæri Finnlands.“ Þeirri staðhæfingu fylgir önnur, enn óljósari: „Fyrirbærið er einnig tengt alþjóðlegum glæpum.“ Loks ítreka þau: „Fyrirbærið og ógnin sem frekari útvíkkun þess myndi valda, fela í sér alvarlega ógn við þjóðaröryggi og allsherjarreglu í Finnlandi og annars staðar á Schengen-svæðinu.“
Fólki sem leggur leið sína frá Rússlandi eða gegnum Rússland til Finnlands verður aðeins unnt að sækja um alþjóðlega vernd, segir í tilkynningunni, á flugstöðvum og skipahöfnum. Þar sem engar samgöngur eru milli Rússlands og Finnlands með flugi eða siglingum hafa stjórnvöld með öðrum orðum útilokað móttöku flóttafólks frá Rússlandi eða gegnum Rússland, til næstu vikna.
Innflytjendastefna Finna
Flokkurinn Finnar er einn af fjórum flokkum samsteypustjórnarinnar sem mynduð var um mitt síðasta sumar. Flokkurinn nefndist áður Sannir Finnar. Andúð við innflytjendur, einkum umsækjendur um vernd, er kjarnaatriði í stefnu flokksins. Formaður flokksins, Riikka Purra, deildi nú á mánudag brandara á X/Twitter, í samhengi við aðgerðir stjórnarinnar á landamærunum við Rússland. Brandarinn virðist kominn frá bandarískum hægrimönnum og er svohljóðandi á ensku: „Heaven has strict immigration laws; Hell has open borders“ eða: Himnaríki hefur stranga innflytjendalöggjöf, helvíti er með opin landamæri.
Flokkurinn Finnar fer með lykilráðuneyti í samhengi málaflokksins: ekki aðeins fjármálaráðuneytið og efnahagsráðuneytið, sem færir þeim umtalsvert vald á hvaða sviði sem er, heldur og, innanríkisráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, ráðuneyti alþjóðasamstarfs og viðskipta, auk félagsmála- og heilbrigðisráðuneytinu, og ráðuneyti samgöngu- og samskiptamála.
Á meðan engin gögn hafa komið fram sem styðja opinberan málflutning ríkisstjórnarinnar, er það undir hverjum og einum komið að gera upp við sig hvort virðist sennilegra: að rússnesk stjórnvöld hafi hrint af stað þolinmóðri áætlun um að velta Vesturlöndum úr sessi með því að hleypa að landamærum Schengen-svæðisins, í hverjum mánuði, einum aðkomumanni á hverjar tvær milljónir íbúa svæðisins; eða að öfgahægriflokkurinn Finnar, sem áður áður nefndist Sannir Finnar, og situr nú í ríkisstjórn, sé einfaldlega að efna kosningaloforð sitt, gera það sem þeir sögðust ætla að gera, og hindra komu flóttafólks til landsins, undir hvaða formerkjum sem er.
Að því sögðu hefur verið bent á að annað útilokar ekki hitt og vel hugsanlegt að stjórnvöld beggja landa dvelji nú handan ráðs og rænu.