Þetta er yfirlýsing þeirra sem köstuðu yfir Bjarna glimmer: „Skammist ykkar!“

Fyrr í dag, upp úr hádegi, köstuðu mótmælendur rauðu glimmeri yfir Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra á fundi í Háskóla Íslands. Bjarni var þar til að halda ræðu til að minnast þess að 75 ár eru liðin frá því mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var samþykktur. Ekkert varð úr því hins vegar. Í staðinn héldu mótmælendur stutt erindi, en þar kallað eftir því að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael strax.

Katrín Jakobsdóttir átti að vera á fundinum en afboðaði komu sína á síðustu stundu.

Yfirlýsinguna má lesa hér fyrir neðan.

Á Gaza er verið að fremja þjóðarmorð! Gagnvart þeim ólýsanlega hryllingi sem þar á sér stað hafa íslensk stjórnvöld aðeins sýnt það af sér í verki að að þau virða ekki Mannréttindayfirlýsinguna, sem þið þykist fagna í dag og engin mannréttindi í raun.

Íslendingar viðurkenndu Palestínu sem sjálfstætt ríki árið 2011 en ríkisstjórnin aðhefst ekkert nú þegar börnum og fjölskyldum þeirra er slátrað fyrir augum þeirra! Ríkisstjórnin gerir ekkert, segir ekkert! Annað var uppi á teningnum þegar Rússland réðst inn í Úkraínu! Hvers vegna ekki nú er spurning sem íslenskur almenningur KREFST SVARA VIÐ! Katrín Jakobsdóttir, þú sem æðsti valdhafi þjóðarinnar VERÐUR að svara fyrir gjörðir þínar , ekki aðeins gagnvart almættinu þegar þar að kemur heldur gagnvart þeirri þjóð sem þú stendur í forsvari fyrir! Þið Bjarni Benediktsson þurfið að standa reikningsskil á aðgerðarleysi ykkar þegar þið horfið aðgerðarlaus á slátrun Ísraelsstjórnar á palestínsku þjóðinni. Ykkur mun aldrei fyrirgefið annað!

Með aðgerðarleysi ykkar samþykkið þið þjóðarmorð. Sinnuleysi ríkisstjórnar ykkar gagnvart þjáningum Palestínufólks er svo yfirgengilegt og ógeðfellt að ykkar einu viðbrögð eru á sama tíma og þau fordæmalausu fjöldamorð eru framin, fleygið þið flóttafólki frá Palestínu frá Íslandi eins og hverju öðru rusli. Þar samsamið þið ykkur fyrirlitlegum kúgunartilburðum þeirra sem þið styðjið! Nýlega var átta barna palestínskri móður brottvísað frá Íslandi. Þið grýtið fjölskyldum og fötluðum úr landi miskunnarlaust, ef ekki tekst í fyrstu tilraun þá bara aftur! Og nú viljið þið vísa tveimur fylgdarlausum 12 og 14 ára drengjum á götuna í Grikklandi. Botninum virðist aldrei náð!

Við krefjumst þess að:

1. Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael strax

2. Að viðskiptabann verði sett á Ísrael

3. Að palestínsku flóttafólki á Íslandi verði tafarlaust veitt alþjóðleg vernd og möguleika á fjölskyldusameiningu. Að þið svarið fyrir ykkar gjörðir á opinberum vettvangi.

4. Að sendiherra Ísrael verði sendur heim.

Þið sitjið aðgerðarlaus, horfandi á loftárásir á spítala, flóttamannabúðir, skóla, fjöldamorð á óbreyttum borgurum, misþyrmingar og áður óséðum fjöldamorðum á fjölmiðlafólki, heilbrigðisstarfsfólki og fulltrúum alþjóðastofnanna. Hvílík fordæmalaus hræsni það er að þið skuluð leyfa ykkur að sitja hér til að fagna mannréttindasáttmála! Skammist ykkar!

Að á Íslandi sé starfandi utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, sem hefur opinberlega réttlætt fjöldamorð, talað fyrir MEÐALHÓFI í þjóðarmorði er einfaldlega óásættanlegt! Það gengur ekki hjá siðaðri þjóð. Þín eftirmæli munu ætíð verða: “Sagðirðu árás? MUNDU ÞAÐ!

Og forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sem eitt sinn kvakaði um að „Þegar börn væru stráfelld gæti alþjóðasamfélagið ekki setið hjá“ Þú munt aldrei geta skorast undan því að hafa lýst yfir stuðningi við Ísraelsríki og horft þegjandi á mörg þúsund börn og fjölskyldur þeirra drepin, sprengd í loft upp og nú þegar ástandinu á Gaza er ekki lýst sem helvíti á jörð heldur einhvers konar ÓLÝSANLEGU INFERNO af öllum hjálparsamtökum, heilbrigðisstarfsmönnum sem og alþjóðlegum stofnunum sem alvön eru að starfa á stríðshrjáðum svæðum, þá er EKKERT að frétta af þrýstingi frá íslensku ríkisstjórninni!

Sé íslenskum stjórnvöldum einhver alvara um mikilvægi mannréttinda eða mikilvægi andstöðu við stíðsglæpi ættuð þau þegar í stað að slíta stjórnmálasambandi og viðskiptasambandi við Ísrael.

Lifi frjáls Palestína!

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí