Um fátt er meira rætt norðan heiða þessa dagana en húmoríska ádrepu til Akureyringa sem birtist í nafnlausum pistli í héraðsfréttablaðinu Vikublaðinu.
Þar er meðal annars beint spjótum að ýmsum grundvallareinkennum í umferðarmenningu Akureyringa.
Skrifari segist vera aðkomumaður. Kann þar að vera vísað til svara lögreglu fyrr á tímum sem gjarnan enduðu mál sitt í viðtölum við blaðamenn þegar glæpur hafði verið framinn í bænum á eftirfarandi kennisetningu: „Talið er að um aðkomumann hafi verið að ræða.“
Aðkomumaðurinn segir að rígurinn milli íþróttafélaganna KA og Þórs setji skemmtilegan brag á bæinn. Verra þykir honum að bærinn hafi verið byggður þannig að í miðbænum sjái enginn til sólar lengur nema á litlum reit norðan við pylsuvagninn í Hafnarstrætinu.
En þegar kemur að greiningu aðkomumanns á umferðarmenningu Akureyringa hitnar í kolunum:
„Á Akureyri notar enginn maður stefnuljós. Venni í Austurhlíð hefur haft samband við nýja framkvæmdastýru Drifts EA um að stofna nýsköpunarfyrirtæki um útflutning á ónotuðum stefnuljósarofum úr akureyrskum bílhræjum. Akureyringar kunna heldur ekki að nota hringtorg. Þeir halda að þeir eigi ekki bara að víkja fyrir þeim sem eru á hringtorginu, heldur líka öllum sem eru að koma að því og ætla inn á það. Þetta er drepfyndið. Þegar þeir mætast í umferðinni veifa þeir hver öðrum eða stoppa fyrirvaralaust og ræða saman. Fyndnast er þó hvernig þeir nota umferðarljós þar sem þeir bíða auðmjúkir eftir græna ljósinu sínu. Þegar það kviknar bíða þeir enn um sinn en fara svo af stað nokkrum sekúndum áður en gult ljós kviknar á ný. Þannig gæta þeir þess að enginn annar noti græna ljósið þeirra. Það tekur smá tíma að venjast þessu,“ segir skrifari sem segist nýfluttur í bæinn.
Þá segir aðkomumaðurinn að Akureyringar hati háhýsi. Ef einhverjum dettur í hug að byggja hús sem er hærra en 6 hæðir verði allt vitlaust.
„Að sama skapi elska þeir lítil og ónýt einnar hæða hús. Gamla BSO húsið situr sem fastast eins og graftarbóla á andliti unglingspilts hálft úti á fjölförnustu gatnamótum bæjarins eins og síðasta vígi sólargeislans í þröngum, gráum og sólarlausum miðbæ.“
Frítt er í strætó á Akureyri. Það er þó skammgóður vermir að mati aðkomumanns.
„Leiðakerfið er reyndar þannig að það er ekkert hægt að nota strætó og foreldrar aka börnum sínum milli skóla og íþróttahúsa fram og til baka allan liðlangan daginn meðan strætisvagnarnir dóla mannlausir um bæinn eftir óskiljanlegu kerfi sem enginn skilur en allir vita þó að má hvorki fara á flugvöllinn né á tjaldstæðið á Hömrum.“
Er þá aðeins fátt eitt nefnt sem kemur fram í drápunni. Hún hefur vakið mikla athygli og misjafna umræðu norðan heiða. Flestir kíma. Á samfélagsmiðlum hafa þó sumir innfæddir farið í vörn.
Hér má lesa allan pistilinn:
Götuhornið – Aðkomumaður skrifar! | Vikublaðið (vikubladid.is)