Það er óhætt að segja að saga Asil J. Suleiman Almassri hafi snert einhverja taug hjá flestum Íslendingum. Einungis 17 ára gömul lá hún á sjúkrahúsi, þar sem búið var að fjarlægja af henni vinstri fótinn og hún munaðarlaus. Það var þó ekkert slys sem lá þar að baki, heldur sprengjuregn Ísraelsmanna, sem nú fremja þjóðarmorð meðan flest Vesturlönd ýmist styðja það eða standa hjá.
En Asil verður loksins örugg á morgun, klukkan þrjú. Þá lendir flugvél hennar í Leifsstöð.
Hér hefur hún ríkisborgararétt og þarf því ekkert að óttast að hún verði send aftur til morðingjanna í Ísrael eða á götu einhverrar stórborgar Evrópu. Vonandi mun hún þó einn daginn geta heimsótt æskuslóðirnar í frjálsri Palestínu.
Það má með sanni segja að það hafi bjargað henni að nánasti aðstandandi hennar, bróðir hennar Suli, hafði búið á Íslandi. Hann gat því barist fyrir því að hún kæmi hingað. Þegar hún lá á spítalanum var hún í Egyptalandi en það stóð til að flytja hana svo til Gaza. Það þarf ekki mörgum blöðum um það að fletta til að sjá hvernig það hefði endað.