Undir kvöld í gær veittu vegfarendur í Melasveit sendiferðabíl athygli með Taxa-hjálm á toppnum. Var bílnum ekið mjög hratt og gáleysislega.
Samkvæmt vitnum sem rætt hafa við Samstöðina fór ökumaður bílsins, sem ætla má að sé atvinnubílstjóri, a.m.k. í tvígang fram úr öðrum bílum við blindhæðir. Þurftu þeir sem á eftir komu að bremsa og hægja verulega á sér í hálku á veginum til að glæfraökumaðurinn næði sjálfur að sveigja aftur inn á eigin vegarhelming eftir framúrkeyrslurnar. Annars hefðu orðið árekstrar.
Glæfraakstri mannsins lauk þegar lögreglan sem var við radarmælingar nappaði manninn og stöðvaði bíl hans. Myndin er tekin rétt eftir að ferðalag ökumannsins tók enda.
Lögregluyfirvöld og Samgöngustofa hveta landsmenn til að fara sér rólega á sleipum vegum landsins nú þegar skyggni og birtuskilyrði eru með varasamasta móti. Verður að gera þá kröfu til atvinnubílstjóra að þeir séu öðrum ökumönnum fyrirmynd.
Óvenju mörg dauðsföll hafa orðið í umferðinni á þjóðvegum landsins í janúar.